Velkomin! Lesið þetta fyrst!

Málefnaspjall Pírata

Málefnaspjall Pírata (hér eftir nefnt Spjallið) er umræðuvettvangur fyrir stefnumál og starf Pírata. Tilgangur Spjallsins er að vera opinber spjallvettvangur á vegum Pírata þar sem meðlimir geta spjallað um flokkinn, starf hans og stefnumál.

Finnst þér þurfa að endurskoða eitthvað stefnumál í kosningakerfi Pírata? Finnst þér að breyta ætti skipulagi eða fyrirkomulagi flokksstarfsins? Ljómandi! Þá er þetta vettvangurinn fyrir þig! Þó svo að spjallið sé opinber vettvangur er vert að hafa í huga að það hefur ákveðinn tilgang, sem er að gera sem flestum kleift að tjá sig um þau málefni sem hér eru til umræðu. Í því skyni gilda ákveðnar reglur, sem ritstjórn framfylgir. Netfang ritstjórnar er spjall@piratar.is en hún er einnig virk á Spjallinu sjálfu.

En fyrst eru hér nokkur almenn heilræði:

  • Bættu umræðuna: Veitir innlegg þitt nýja sýn á umræðuefnið? Bætir það við rökstuðningi eða gögnum sem gætu hjálpað öðrum að móta afstöðu sína?

  • Ræddu málefnið en ekki viðmælandann: Er innlegg þitt til þess fallið að halda umræðunni við efnið? Er hún laus við umfjöllun um framkomu eða persónueinkenni viðmælanda þíns?

  • Mundu að í texta er auðvelt að lesa tón sem ekki er til staðar: Ef þér finnst innlegg vera sett hranalega fram, prófaðu að lesa það aftur með mildari tón í huga. Sérstaklega er mælt með því að þau séu lesin eins og ef Guðni forseti hefði skrifað þau eftir að hafa horft á rómantíska gamanmynd.

  • Stærðu þig af kurteisi: Þegar kurteisisslys á sér stað er fyrsta hjálpin að stöðva vítahringinn.

  • Mundu tilgang Spjallsins: Þetta er ekki vettvangur fyrir hvern sem er til að segja hvað sem er um hvað sem er. Þetta er heldur ekki vettvangur fyrir umræðuefni sem hefur verið úthýst annars staðar. Við erum hér til að ræða starf og stefnur Pírata á uppbyggilegan hátt. (Það má samt alveg vera gaman!)

  • Hjálpaðu til við ritstjórnina, en ekki taka hana þér í eigin hendur: Ef þér finnst innlegg á einhvern hátt ganga of langt, notaðu þar til gerðar aðgerðir Spjallsins til að merkja kvörtun við innleggið, frekar en að reyna að framfylgja reglunum fyrir hönd ritstjórnar. Ritstjórn fer reglulega yfir slíkar merkingar og bregst við eftir atvikum.

Ef þú ert ekki viss um að innlegg þitt sé til þess fallið að fylgja þessum meginstefum, þá gæti verið betra að bíða með að svara og velta fyrir sér hvernig sé hægt að koma sama sjónarmiði á framfæri með uppbyggilegri hætti.

Þessi heilræði duga vonandi til að hafa þetta þokkalega skemmtilegt, eða í það minnsta ekki glatað. Þá eru það reglurnar sem ritstjórn framfylgir:

  1. Andi, efni og framsetning innleggja skulu vera í samræmi við tilgang Spjallsins.

  2. Kurteisi og virðing fyrir fólki með ólíkar skoðanir skulu höfð í heiðri.

  3. Óheimilt er að dreifa persónuupplýsingum um aðra án samþykkis þeirra.

Ritstjórn getur gripið til ýmissa aðgerða til að framfylgja þessum reglum. Til dæmis getur ritstjórn fryst þræði, falið þá eða jafnvel eytt þeim ef nauðsyn ber til. Ritstjórn leitast við að beita ekki slíkum aðgerðum að óþörfu, sem og að beita inngripum eins mildilega og í litlum mæli og þörf er á, til að ná fram markmiðum reglnanna og tilgangi Spjallsins.

Hlutverk ritstjórnar er þó fyrst og fremst til að hjálpa öllum meðlimum að nýta spjallsvæðið sem best, þannig að ef þig vantar einhverja aðstoð, eða t.d. sérsvæði fyrir afmarkaða hópa (aðildarfélög, hópa, nefndir eða hvaðeina), ekki hika við að hafa samband!

3 Likes