Beint lýðræði vs. fulltrúalýðræði

Við búum við fulltrúalýðræði og viljum auka beint lýðræði. Tiltekinn fjöldi geti skotið málum í þjóðaratkvæði. Minnihluti geti skotið málum í þjóðaratkvæði.

Oft er tekist á um það hvort þetta eða hitt málið ætti að fara í þjóðaratkvæði, dæmi OP3. Það verður að viðurkennast að ef manni líst ekki vel á útkomuna úr þeirri atkvæðagreiðslu þá hallast maður að því að betra sé að fulltrúarnir sjái um málið. Hins vegar ef manni líst ekki á það sem “fulltrúarnir” vilja þá vill maður þjóðaratkvæði.

Við Píratar höfum viljað meira beint lýðræði. Erum við sönn í þessu eða sláum við þessu fram þegar það hentar okkur? Hver er rétta línan í þessu?

1 Like

Undirskriftalistar þar sem ekki er krafist of margra undirskrifta þannig að kosningar séu ekki of sjaldan, en heldur ekki of fárra, þannig að það sé ekki of oft heldur. Það á ekki að vera erfitt að krefjast kosningu eða umræðu, þeas að safna stuðning, en það á ekki að gerast sjálfkrafa ef almenningur er almennt áhugalaus.

1 Like

Stjórnarskráin nýja er með fína útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðslum. En það vantar kannski formfesta reglu fyrir sveitastjórnarstig yfir allt landið.

5 Likes

Þörf og mikilvæg spurning. Takk fyrir að hefja umræðuna.

Satt best að segja hefur mér einungis fundist Pírata standa sig í þessu, en aðrir flokkar einmitt bara kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum þegar það hentar og barist gegn þeim þegar svo er ekki. Það er nákvæmlega þess vegna sem það er svo mikilvægt að stjórnmálamenn ákveði ekki hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað ekki, heldur kjósendur sjálfir.

Við erum með tvær mjög skýrar stefnur um þetta. Önnur er stefnan um að taka upp nýja stjórnarskrá, þar sem finna má gegnsætt, fyrirsjáanlegt og formlegt ferli til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hin er stefna okkar um þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði 10% kjósenda: https://x.piratar.is/polity/1/document/412/

Sú stefna var sett í kjölfar umræðunnar um orkupakka 3 (OP3). Þar er ferlið úr nýju stjórnarskránni tekið og innleitt þannig að þingflokkur leggur fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu, bindandi ef mögulegt er, ef undirskriftir 10% kjósenda safnast. Það skiptir engu máli hvort það séu Píratar eða Miðflokkurinn að safna undirskriftum, það fer bara eftir ferlinu í nýju stjórnarskránni.

Þá get ég ekki annað en vakið athygli á því, að þegar tillaga var lögð fyrir flokksmeðlimi um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um OP3, þá lagðist ég gegn því, einmitt vegna þess að krafan var ekki komin frá kjósendum í formi undirskrifta 10% kjósenda - og öll hin rökin voru einfaldlega á misskilningi reist, fyrir utan að hafa aldrei heyrst áður í samhengi við skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum.

Þó var ég reiðubúinn með breytingartillögur á þau 4 þingmál sem OP3 samanstóð af. Ég bjóst við að flokkurinn myndi greiða atkvæði með þjóðaratkvæðagreiðslu og var því búinn að senda það inn til skjalavinnslu á þinginu. Hið sama hefði ég gert ef undirskriftir 10% kjósenda hefðu náðst. Ég birti ennfremur þessi skjöl opinberlega eftir að atkvæðagreiðslunni lauk, hérna: (Hvernig hefði verið) Þingleg útfærsla um stefnu um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi þriðja orkupakkann

Þannig að mér finnst við hafa sýnt vel fram á það, að okkar lýðræðisást fer ekki eftir vindinum eða skoðunum okkar til einstaka málefnis, heldur er grundvallað á undirliggjandi prinsippinu, sem er sjálfsákvörðunarréttur kjósenda.

4 Likes

Bara að minna á að þessi umræða á líka við um sveitarstjórnarstigið, en þar er sveitarstjórnum gefinn nokkur frjáls taumurinn með prósentuna sem getur verið allt a 33,333…% þeirra sem hafa kosningarétt. Þá er niðurstaða kosninganna ráðgefandi nema annað sé fyrirfram ákveðið.

https://www.althingi.is/lagas/nuna/2011138.html
https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/srn/nr/21248

3 Likes

Takk fyrir að rifja þetta upp. Þetta er nákvæmlega það sem þarf að vera til að virða leikreglur lýðræðisins. Við þyrftum líklega að halda þessu vel á lofti þannig að fólk viti hvar við stöndum.

1 Like

Algerlega sammála. Ætti svona að vera í lögum fyrir sveitastjórnarstigið?

Afglæpavæðing fíkniefna kann að vera gott dæmi. Við Píratar styðjum hana væntanlega upp til hópa enda hið besta mál. Hins vegar, ef marka má upplýsingar sem fram komu í ágætu spjalli um málið á Sprengisandi í dag 5.7. styðja 35% þjóðarinnar afglæpavæðingu eða breytingu í þá átt. Við Píratar höfum samt verið áköf í að koma málinu áfram innan þingsins. Vel skiljanlegt, enda teljum við það til heilla almennings. En það eru bara ekki allir sammála. Eigum við samt að hamast í málinu? Ef svo er, hver eru rökin fyrir því?

Í hreinu beinu lýðræði þá væntanlega ræður vilji meirihlutans alltaf. Sá vilji/skoðun er háð þeirri þekkingu sem er til staðar og fleiru og breytist eftir tímanum.

Stjórnmálaflokkar taka afstöðu til hinna ýmsu þjóðmála. Í sumu kann afstaðan að vera að vilji meirihlutans komi fram, en í öðru hljóta stjórnmálaöfl að hafa stefnu sem er ekki endilega stefna meirihluta fólks á þeim tíma. E.t.v. má kalla slíkt hugsjón og baráttumál.

Píratar hafa nokkur slík stefnumál sem við höfum barist fyrir. Má þar nefna afglæpavæðingu vörslu neysluskammta fíkniefna og neyslu.

Við þurfum e.t.v. að vera skýrari í því hvaða mál eru slík hugsjóna stefnumál okkar, hvaða mál við teljum að þurfi að skoða betur og hvaða mál við viljum að fari eftir einföldum meirihluta landsmanna?

Hárrétt, en það hefur reynst mjög erfitt. Við að standa í þessu hefur mér svolítið liðið eins og að útfærsluatriði beins lýðræðis séu álitin eitthvert aukaatriði, þegar það eru akkúrat þau sem gera greinarmun á því hvort þetta sé til eflingar sjálfsákvörðunarréttar kjósenda, eða bara enn eitt vopnið í höndum stjórnmálamanna. Það eru grundvallaratriði í þessu, sem þurfa að vera á hreinu en mæta einhvern veginn yfirleitt afgangi í umræðunni í fjölmiðlum og á þingi.

Það er hægt að klúðra beinu lýðræði eins og öllu öðru, með vondri útfærslu.

2 Likes

Vel athugað.

Ég myndi svara því svona, og hef reyndar svarað því svona: Hvers vegna viljum við beint lýðræði? Beint lýðræði er ekki prinsipp í sjálfu sér heldur aðferð til að ná fram ákveðnu prinsippi, sem er sjálfsákvörðunarrétturinn. Nú, en ekki einunis hópar hafa sjálfsákvörðunarrétt, heldur einnig einstaklingar og aðrar einingar, svosem félagasamtök, fjölskyldur, og svo mætti lengi telja. Beint lýðræði er þjóðarhliðin á þeim teningi, en hún trompar ekki sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, frekar en öfugt. Jafnvægið þarna á milli getur verið flókið í einstaka málum, en reyndar held ég að næstum því alltaf sé frekar einfalt að gera greinarmuninn ef prinsippið er á hreinu - en hinsvegar ómögulegt ef prinsippið er ekki á hreinu. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum skýr með hver undirliggjandi hugmyndafræðilegur grundvöllur beins lýðræðis sé, og hann er sjálfsákvörðunarrétturinn sjálfur.

Og tökum þá aftur fyrir afglæpavæðingu neysluskammta. Við höfum talað um hana mikið út frá því sjónarhorni að það sé í grundvallaratriðum rangt að refsa fólki fyrir að eiga við vandamál að stríða. Í grundvallaratriðum er það heilbrigðissjónarmið frekar en sjálfsákvörðunarréttar. Hinsvegar, jafnvel ef okkur þætti það allt í lagi að refsa fólki fyrir að eiga við heilbrigðisvandamál að stríða, finnst mér samt að við ættum, vegna áherslunnar á sjálfsákvörðunarrétt, að styðja afglæpavæðingu neysluskammta á þeim einföldu forsendum, að það er tómt þvaður að tala um einstaklingsfrelsi ef hver og ein manneskja hefur ekki einu sinni sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama, huga og sál. Það er á sama stað og kynfrelsi eða trúfrelsi.

Við setjum heilbrigðissjónarmiðið ofar í umræðunni vegna þess að það er svo miklu augljósari punktur, nær sama markmiði og er ekki háður því að annað fólk meti sjálfsákvörðunarréttinn jafn hátt og við sjálf. En alveg burtséð frá heilbrigðissjónarmiðinu þykir mér einsýnt að þjóðin á ekkert að ákveða hvað einstaklingar gera við sinn eigin skrokk, engu frekar en að hún eigi að ákveða hvað fólk eigi að hugsa, hverju það eigi að trúa eða hvernig kynlíf það eigi að stunda. Þetta er á nákvæmlega sama stað í mínum huga, og út frá prinsippinu um sjálfsákvörðunarrétt hvort tveggja þjóðar og einstaklings, finnst mér augljóst að afglæpavæðing sé rétt og sé ekki spurning um samþykki þjóðarinnar, heldur einungis þess sem á líkamann, hugann og sálina, þ.e. einstaklingsins sjálfs.

2 Likes