Uppfært: Hér er hægt að lesa persónuverndarskilmálana með appinu: https://www.covid.is/app/personuverndarstefna
Eitthvað hefur verið rætt um app sem Landlæknir er að þróa, til þess að berjast gegn útbreiðslu COVID-19. Eðlilega hefur fólk velt fyrir sér hvort þarna sé ríkisvaldið að laumast með krumlurnar of nær einkalífi fólks, eða að búa til fordæmi sem gæti verið hættulegt síðar meir, eða opið fyrir misnotkun.
Ég fékk að tala við tæknimann hjá teyminu sem þróar appið. Eftir það samtal tel ég ekki hættu fólgna í appinu gagnvart einkalífi fólks, né áhyggjur af því að hægt verði að misnota appið, hvort sem er núna eða í framtíðinni.
Persónuverndarsjónarmið
Appið mun ekki samkeyra GPS hnit, hvorki miðlægt né öðruvísi, né reyndar senda þau til rakningateymisins nema með samþykki notandans ef kemur í ljós að hann er smitaður. Greinist hann aldrei með smit verður hann aldrei beðinn um að senda GPS hnitin, þannig að þau verða bara í símtæki notandans þar til þeim er hent vegna þess að þau verða úreld eftir 14 daga. Notandinn setur inn símanúmerið sitt þegar hann innsetur appið og samþykkir notkunarskilmála til þess að hægt sé að hafa samband við hann. Ef hann greinist með smit, þá er hann látinn vita og beðinn um GPS gögnin til þess að aðstoða hann sjálfan við að rifja upp hvar hann var og með hverjum. Síðan er haft samband við þá aðila eins og venjan er núna. Gögnunum er síðan eytt.
Jafnvel ef notandinn greinist með smit er hann samt beðinn um leyfi áður en GPS hnitin eru send til rakningateymisins. Rakningateymið getur ekki sótt gögnin án leyfis eða vitundar notandans, hvort sem hann greinist með smit eða ekki.
Teymið sem vinnur að þessu er ennfremur með sérfræðinga í persónuvernd og tæknimálum til þess að tryggja að allt fari fram með persónuvernd í hávegum.
Öryggissjónarmið
Teymið er með færustu öryggissérfræðinga landsins með sér í að fara í gegnum öryggismálin. Ég veit ekki hvort ég megi gefa upp hverjir þeir eru, en ég veit hverjir þeir eru og treysti þeim fullkomlega. Rjóminn í tölvuöryggisbransanum að verki.
Opinn kóði
Teymið hyggst gefa út allan þann kóða sem þau mega, en einhverjir hlutar appsins gætu verið háðir leyfistakmörkunum sem gera þeim það ókleift. Þau hyggjast þó a.m.k. dreifa þeim kóða sem verður sérsniðinn, sem mér skilst að sé sá sem sendir gögn og geymir, og er því sá kóði sem skiptir mestu máli að fá rýni út frá persónuvernd og öryggi. Þetta þarf að koma aðeins betur í ljós á næstu dögum eftir því sem þróun appsins vindur fram, en það er allavega vilji teymisins að gefa allt út sem mögulegt er, og hafa allt eins öruggt og opið og mögulegt er.
Niðurstaða
Mér er því ljúft og skylt að mæla eindregið með notkun appsins þegar það verður gefið út. Það mun hjálpa rakningarteyminu að sinna sínu starfi án þess að koma niður á einkalífi fólks, og ég sé ekki hvernig hægt væri að misnota þetta app, hvorki nú né síðar. Þegar þessu ástandi er lokið má síðan bara eyða appinu.
Ég mun setja það upp sjálfur, þegar það verður gefið út, og hvetja fólk í kringum mig til að nota það líka.
Viðbót
Það hringdi í mig einn (rosalega frægur) meðlimur og vildi spyrja aðeins betur út í hvernig þetta virkaði. Það var kannski ekki alveg nógu skýrt, að þetta er ekki jafn háþróað og maður gerir ráð fyrir. Þau ætla nefnilega ekki að nýta þessi hnit í neitt nema til að styðja við minni notandans, en upplýsingarnar um hvern þau hafi samband við, koma frá notandanum en ekki hnitunum. Þau ætla ekki að samkeyra það eða að reyna að greina það á einhvern sjálfvirkan hátt hver hafi verið í kringum hinn smitaða hverju sinni, heldur að fá þær upplýsingar frá honum, og nota hnitin til að aðstoða notandann við að muna hvar hann var hvenær og svoleiðis.