COVID-app, persónuvernd, öryggi og opinn kóði

Uppfært: Hér er hægt að lesa persónuverndarskilmálana með appinu: https://www.covid.is/app/personuverndarstefna

Eitthvað hefur verið rætt um app sem Landlæknir er að þróa, til þess að berjast gegn útbreiðslu COVID-19. Eðlilega hefur fólk velt fyrir sér hvort þarna sé ríkisvaldið að laumast með krumlurnar of nær einkalífi fólks, eða að búa til fordæmi sem gæti verið hættulegt síðar meir, eða opið fyrir misnotkun.

Ég fékk að tala við tæknimann hjá teyminu sem þróar appið. Eftir það samtal tel ég ekki hættu fólgna í appinu gagnvart einkalífi fólks, né áhyggjur af því að hægt verði að misnota appið, hvort sem er núna eða í framtíðinni.

Persónuverndarsjónarmið

Appið mun ekki samkeyra GPS hnit, hvorki miðlægt né öðruvísi, né reyndar senda þau til rakningateymisins nema með samþykki notandans ef kemur í ljós að hann er smitaður. Greinist hann aldrei með smit verður hann aldrei beðinn um að senda GPS hnitin, þannig að þau verða bara í símtæki notandans þar til þeim er hent vegna þess að þau verða úreld eftir 14 daga. Notandinn setur inn símanúmerið sitt þegar hann innsetur appið og samþykkir notkunarskilmála til þess að hægt sé að hafa samband við hann. Ef hann greinist með smit, þá er hann látinn vita og beðinn um GPS gögnin til þess að aðstoða hann sjálfan við að rifja upp hvar hann var og með hverjum. Síðan er haft samband við þá aðila eins og venjan er núna. Gögnunum er síðan eytt.

Jafnvel ef notandinn greinist með smit er hann samt beðinn um leyfi áður en GPS hnitin eru send til rakningateymisins. Rakningateymið getur ekki sótt gögnin án leyfis eða vitundar notandans, hvort sem hann greinist með smit eða ekki.

Teymið sem vinnur að þessu er ennfremur með sérfræðinga í persónuvernd og tæknimálum til þess að tryggja að allt fari fram með persónuvernd í hávegum.

Öryggissjónarmið

Teymið er með færustu öryggissérfræðinga landsins með sér í að fara í gegnum öryggismálin. Ég veit ekki hvort ég megi gefa upp hverjir þeir eru, en ég veit hverjir þeir eru og treysti þeim fullkomlega. Rjóminn í tölvuöryggisbransanum að verki.

Opinn kóði

Teymið hyggst gefa út allan þann kóða sem þau mega, en einhverjir hlutar appsins gætu verið háðir leyfistakmörkunum sem gera þeim það ókleift. Þau hyggjast þó a.m.k. dreifa þeim kóða sem verður sérsniðinn, sem mér skilst að sé sá sem sendir gögn og geymir, og er því sá kóði sem skiptir mestu máli að fá rýni út frá persónuvernd og öryggi. Þetta þarf að koma aðeins betur í ljós á næstu dögum eftir því sem þróun appsins vindur fram, en það er allavega vilji teymisins að gefa allt út sem mögulegt er, og hafa allt eins öruggt og opið og mögulegt er.

Niðurstaða

Mér er því ljúft og skylt að mæla eindregið með notkun appsins þegar það verður gefið út. Það mun hjálpa rakningarteyminu að sinna sínu starfi án þess að koma niður á einkalífi fólks, og ég sé ekki hvernig hægt væri að misnota þetta app, hvorki nú né síðar. Þegar þessu ástandi er lokið má síðan bara eyða appinu.

Ég mun setja það upp sjálfur, þegar það verður gefið út, og hvetja fólk í kringum mig til að nota það líka.

Viðbót

Það hringdi í mig einn (rosalega frægur) meðlimur og vildi spyrja aðeins betur út í hvernig þetta virkaði. Það var kannski ekki alveg nógu skýrt, að þetta er ekki jafn háþróað og maður gerir ráð fyrir. Þau ætla nefnilega ekki að nýta þessi hnit í neitt nema til að styðja við minni notandans, en upplýsingarnar um hvern þau hafi samband við, koma frá notandanum en ekki hnitunum. Þau ætla ekki að samkeyra það eða að reyna að greina það á einhvern sjálfvirkan hátt hver hafi verið í kringum hinn smitaða hverju sinni, heldur að fá þær upplýsingar frá honum, og nota hnitin til að aðstoða notandann við að muna hvar hann var hvenær og svoleiðis.

5 Likes

Ef maður treystir að allt sem þú segir er satt þá sé ég ekkert í raun að þessu appi. Ég mun ekki setja það upp í símanum mínum því að ég tel það ekki nauðsynlegt þó mögurlega hjálplegt. Ef þetta app verður talið í augum almennings að hafa verið stór partur af velgengni Íslands í Covid-19 faraldrinum þá gæti það verið notað sem rök fyrir öðrum öppum og það mun vera erfitt og tímafrekt að útskýra munun á þessu appi og öðrum í öllum kommentakerfum landsins.

Ég veit að þetta eru svo kölluð “slippery slope” rök og almennt ekki talið mjög sterk. Fyrir mig þarf ekki sterk rök bara nægilega sterk til að vega upp á móti rökunum með. Þannig ég persónulega mun ekki setja appið upp né hvetja aðra til þess að gera það.

Enda algerlega ákvörðun hvers og eins. :slight_smile:

Verði það tilfinning almennings að þetta app hafi verið stór partur af velgengni íslands í faraldrinum þá er það sennilega raunin og því betur farið af stað en heima setið.

Að setja samasemmerki við þá mögulegu niðurstöðu og einhvers konar hjarðónæmis gagnvart persónuvernd í kjölfarið er langt seilst í röksemdafærslu.

Ég mun setja þetta upp hjá mér.

Þessi rök svara þeim áhyggjum sem ég hafði af þessu appi. Ég bíð eftir lokaafurðinni en miðað við þetta mun ég taka þátt.

ja hérna. Núna er ég með miklu fleiri spurningar en ég hafði áður en ég las þetta skrif þitt @helgihg. Kannaðir þú þetta einungis á bakgrunni, opið forrit og “ríkisvaldið að laumast með krumlurnar of nær einkalífi”, “hættulegt síðar meir” “opið fyrir misnotkun” eða horfðir þú líka til aðra hluta? Það að þú ekki sérð hættu væri fínt að fá betri upplýsingar um þar sem það er alls ekki skýrt hvernig þú metur öryggi, leka, söfnun gagna, viðkvæma hópa mismunandi misnoktunnar m0guleika eða réttinda hættu sem þú væntanlega talar um. Fyrir mig vantar til dæmis bara vantekkingu áhættumatið, fjölbreytileika í skilningi öryggis og margt margt fleira. Hvað spurgðir þú um t.d.?
Annað er að traust á öppum almennt í þróun má aldrei eða réttara á aldrei að berast saman við traust milli fólks. Gott og blessað að þú þekkir manneskju sem vinnur í þessu sem þú treystir en hver á appið? Hver á gögnin? Hvernær og á hvaða forsendum verða þau notuð eða mikilvægara eytt - er það alltaf þessir 14 dagar sem þú nefnir í persónuverndar kalfanum? Er þetta háf lokaða app besta lausn til að hjálpa fólki muna hluti? eða væri auðveldari, synsamari aðgerðir sem gætu friðhelgi betur og aðstoðar þjóðinni í hennar tilraun að skaðaminnkun veirunar?
Í öryggissjónarmiði segir þú þekkja þetta fólk - sem er frábært, en aftur - hver þetta er hvaða fyrirtæki undir hvaða vinnslusamningum að gera hvað, hver á forrit gögn og svo framvegis er eins mikilvægt og kóðinn ef ekki meira og hvaða ráðstafarnir eru til staðar til að tryggja það að þetta í raun sinni er tengð og notað í tengslum við heilsu = viðkvæm gögn.
Mér finnst svo svakalega leiðinlegt að lesa að partur af kóðanum mun aldrei vera opinn. Er ekki hægt með björtustu vonum öryggisbransanum á Íslandi að gera þetta auðvelda app sjálf? Gera það allt opið? Þetta hljómer ekki sem flókið app tæknilega séð - heldur einfalt, það eru afleiðingar þess sem eru áhyggju efni og það er í höndum fólks með aðra þekkingu en að kóða.
Niðurstaðan: það er ansi langt frá gerir ekki skaða til mæli með. Hvers vegna og á hvaða forsendum mælir þú með þessu?
Ég veit ekki mikið um þennan fræga meðlim eða hverju manneskjan er meðlimur af?
Gott í viðbóttinni að fá staðfest skýrt hveru lítið mál þetta er - en hvers vegna þarf eða er nauðsyn að leysa vandan svona?
Mig vantar svo innilega gagnrýna hugsun pírata í þessu máli, væri kannski hugmynd að skella í stuttan jitsi fund á morgun ef fólk hefur orku? @hrafnkellbrimar - hvenær væri þú til dæmis laus? Eða @SunnaRos? og annað gott fólk?

1 Like

Þetta var bara símaspjall við tæknimann. Ég skrifaði ekki niður neinar spurningar og myndi ekki treysta mér til að leggja þær fram sem eitthvað gagn, en átta mig líka heldur ekki alveg á því hvers vegna þú spyrð að því. Ég get bara endursagt þær upplýsingar sem ég hef.

Ég er ekki að leggjast í einhverja formlega rannsókn, sko. Ég vildi bara vita hvernig þetta virkaði, og hef svarað einhverjum spurningum sem þú leggur fram í póstinum sjálfum, en skal reyna að svara restinni hérna eftir því sem ég kem auga á þær.

Hver á appið

Samkvæmt mínum upplýsingum er það Landlæknir. Appið er ekki tilbúið, þannig að það er ekki ljóst hvaða aðkomni kóði verður notaður. En Landlæknir mun eiga það sem er sérsmíðað, sem ég skildi á samtalinu að væri allt kjötið, þ.e. kóðinn sem sendir gögn og geymir og þess háttar.

Hver á gögnin?

Notandinn, sbr. GDPR.

Þetta er ekki ljóst ennþá. Hann nefndi að það yrði aldrei kjarnavirknin heldur eitthvað eins og eitthvað GPS-library eða eitthvað þannig. En þetta er ekki ljóst ennþá og við verðum að sjá hvernig verður þegar appið verður gefið út. Vonandi og vel mögulega verður þetta allt open-source.

Er ekki alveg viss um að ég skilji spurninguna nákvæmlega, en aðilar sem voru nefndir sem ég man eftir voru Syndis og Svavar Ingi Hermannsson, sérfræðingur á sviði tölvuöryggis. Þau rýna líka öryggið sjálf hjá teyminu sem þróar appið. Ég spurði ekki út í vinnslusamningana og átta mig satt best að segja ekki alveg á því hvers vegna það væri gagnlegt að gera það. Ég geri ráð fyrir því að þau hagi þeim bara samkvæmt landslögum.

Til að hafa það alveg á hreinu finnst mér engin ástæða til að henda sér af fullum þunga í að skoða hvern einasta samning sem varðar málið eða fetta fingur út í það hvaða utanaðkomandi öryggissérfræðingar séu fengnir til verksins. Það sem ég vildi vita væri hvort að forritið virkaði þannig að það væri misnotkunarhætta, eða möguleiki á að þetta myndi búa til freistnivanda til að auka almennt eftirlit með borgaranum, og hvort að þetta væri allt gert með öryggi, persónuvernd og gegnsæi í huga. Ég fæ ekki séð hvernig þetta ætti að vera misnotað, né hvernig þetta ætti að hjálpa yfirvöldum að auka almennt eftirlit með borgaranum. Þetta er bara tól til að leyfa notendum að halda skrá yfir ferðir sínar og ákveða sjálfir að deila þeim, tímabundið, með smitrakningarteyminu ef þeir vilja.

Nei, einmitt, þetta hljómar tæknilega mjög einfalt, reyndar. Í sjálfu sér þarf ekki nýtt app til þessa, ég er með forrit sem heitir Geo Tracker á símanum mínum, sem ég nota til að kortleggja ferðir mínar í útlöndum, og það býður alveg upp á að senda svona upplýsingar. Munurinn er kannski helst að það væri sennilega óöruggara heldur en app sem er sérstaklega hannað til að koma þeim til skila með öruggum hætti til eins, tiltekins aðila.

Hvað varðar afleiðingarnar, þá sé ég hreinlega ekki ógnina við þetta, eins og þetta er gert. Ég sé hana auðveldlega ef það er verið að safna miðlægt ferðagögnum fólks, halda þeim og hvað þá samkeyra þau, eins og maður hélt fyrst að þau ætluðu að gera. En það er ljóst að þau ætla ekki að gera þetta þannig. Þetta er miklu minna og einfaldara app en leit út fyrir í upphafi.

Ég er ekki alveg viss um hvernig ég útskýri það betur en í póstinum, en í stuttu máli, vegna þess að ég fæ ekki betur séð en að það sé rétt að þessu staðið hvað varðar öryggi, persónuvernd og líklega gegnsæið (sjáum til þegar kóðinn kemur út), og smitrakningarteymið telur þetta geta hjálpað til við að hefta útbreiðslu COVID-19.

Viðbót

Ég spurði ekkert út í það hvernig þetta ætti að hjálpa smitrakningarteyminu, enda hef ég ekki hundsvit á smitsjúkdóma- eða faraldsfræðum og hefði ekkert gagnlegt að leggja fram við það mat.

Hvenær verður þetta ljóst - veistu það? Því það er fimmtudagskvöld og á að gera þetta app virkt á mánudaginn

hver fer yfir kóðann? Það er en verið að skrifa hann og á að henda á markaðinn á mánuða - hvernig er verið að gera red-teaming/fara yfir?

Samþykki er meira en bara að segja já eða nei. Í þessu ástandi mun vera gríðaleg pressa til að bæði nota það og deila upplýsingum. Það er ekkert sem er “bara”, og það er það sem ég er með efasemndir um.

Það væri gjeggað ef fleira fólk gæti fengið upplýsingar og komið þeirra þekkingu að - þúst a-la open source.

fyrir mér er þetta að tékka eftir á og það er aldrei gott í öryggismálum.

au contraire! Ef tæknifólk ekki metur hvað þarf að leysa mun það bara hugsa tækni lausn fyrir tækni vandamál eins og það sér það og tbh er tæknifólk upp til hópa sama ´typan, sem sömu reynsluna, sem gerir sömu hlutina og sömu vandarnir verða endurteknir í sama kóðanum…

og hér að lokum thömbs öpp á fund á morgun?

Það verður væntanlega ljóst á mánudaginn, eða þegar appið verður gefið út. Ég veit ekki meira.

Ég veit ekki hver fer yfir kóðann og veit ekki hvað ég ætti að gera við þær upplýsingar. Ég veit heldur ekkert um hvernig verkefninu er stjórnað og veit ekki heldur hvað ég ætti að gera við þær upplýsingar. Ég vona að hann verði opinn þannig að allir geti farið yfir hann.

Hvernig myndirðu vilja hafa það öðruvísi en að notandi veiti samþykki fyrir því að deila upplýsingunum? Hvað er það, við þetta atriði, sem þú vilt passa að sé í lagi?

Já, enda verður þetta vonandi open-source.

Ég átta mig ekki á því hvernig þú kemst að þeirri niðurstöðu. Aðkoma utanaðkomandi sérfræðinga og sérfræðinga á sviði persónuverndar er nú þegar til staðar og ég fæ ekki betur séð en að allar ákvarðanir um hönnun og innleiðingu hafi verið byggð á slíkri ráðgjöf.

Hér hlýtur að vera misskilningur á ferð því það stemmir ekki að við séum ósammála um þetta. Ég veit alveg hvaða hlutverki tæknifólk gegnir í hugbúnaðarverkefnum, ég hef ekki unnið við neitt annað en hugbúnaðargerð og þingmennsku á fullorðinsárum. Tæknifólk getur metið hvort að högunin meiki sens (meðal annars út frá öryggis- og persónuverndarsjónarmiðum) fyrir þarfir smitrakningarteymisins, en tæknifólkið getur ekki metið hverjar þarfirnar eru nema það hafi þá incidentally líka slíka þekkingu úr annarri átt.

Ég skal alveg mæta á fjarfund að spjalla. Þyrfti bara að vita tímasetningu.

Hvernig á þetta app að virka hjá okkur sem erum alltaf með slökkt á staðsetningarbúnaðinum í símanum vegna þess að við kærum okkur ekki um að fylgst sé með ferðum okkar?

Nógu slæmt er á þessum síðustu og verstu tímum að hafa neyðst til að fjarlægja teipið af vefmyndavélinni til að geta tekið þátt í fjarfundum.

1 Like

væntanlega á það að vera þannig að þú ferð inn í stillingar og stillir sérstakt leyfi til aðgengis á þetta app. Það er satt að segja erfit að slökkva á þessu en auðvelt að ekki leyfa notkun og söfnun apps…

Mér finnst var frekar mikil hræsni hjá fólki þegar það setur sig á móti notkun þessa apps, sem bókstaflega gæti bjargað mannslífum. Útaf einhverju meintum persónuverndar sjónarmiðum en á sama tíma notar það öpp frá fyrirtækjum sem notar upplýsingar um það til sölu eins og Google og, það sem verra er, sí gagnalekandi, gagnaseljandi, samfélags sundrandi og að mestu self regulated stórfyrirtækisins Facebook. Þar sem fólk er ekkert annað en auglýsingarvara, en samt allt í lagi að nota þá óþjónustu.
Setur svo fótinn niður við þetta app þótt hafi komið margoft fram að engin gögn eru vistuð og er bara gert til að hjálpa samfélaginu á meðan heimsfaraldur ólæknandi veiru stendur yfir og síðan er appinu bara eytt af símunum þegar ástandið er orðið nógu gott.
Ég get ekki skilið þetta sjónarmið.

Mér var boðið að vera með í alpha-testinu, sem ég þáði, meðal annars til að kanna á eigin skinni hvernig þetta app virkaði. Þar rakst ég á persónuverndarstefnuna sem fylgir appinu: https://www.covid.is/app/personuverndarstefna

@Oktavia, það væri ekki verra ef þú litir yfir hana og kæmir með punkta ef eitthvað mætti bæta í henni eða skýra. Ég get þá komið því áleiðis til teymisins.

Hvað varð um þessar sögusagnir um að appið væri að safna upplýsingum um aðra sem væru í nálægð við þá sem eru með appið uppsett. Var það bara rangt eða var hætt við það? Veistu eitthvað um það @helgihg

2 Likes

Það er margt að athuga. Stundum finnst mér að fólk fari að hlaupa að ánni til að ná í vatnið þegar lækurinn er við húsvegginn. Auðvitað er voðaleg flott og cool og töff að hafa app en við vitum ekki hvert það leiðir. Þegar Bandaríkjamenn sendu menn út í geiminn þá settu þeir gommu af pening í að hanna penna sem var hægt að skrifa með í geimstöðunum. Rússar fóru með lýant.

Hvernig væri að biðja fólk að skrifa hjá sér hvernig dagurinn er svona í stórum dráttum ef það er mikið á ferðinni. (mætti gefa út skráningarbók ef menn vilja hafa þetta aðeins meira vesen og láta það kosta meira). Veit að það er lummó og ekki smart en þá þarf bara blað og blýant. Það mætti tengja það saman við tveggja metra boðskapinn.

Way off-topic, en þetta er rangt. Báðir byrjuðu með blýant. Fisher þróuðu pennann á eigin kostnað - og seldu rússunum hann líka.

2 Likes

Way, Way of-topic: Fisher Space Pen CO. Boulder City Nevada USA.

ég skal gera það.
Ég vildi líka láta þetta vera eftir fyrir ykkur að tékka á: https://safepaths.mit.edu/

hey og eitt @helgihg - mikil umræða er um nækvæmi þessara vöktunnar og að það sé hreinlega ekki nógu nákvæmt til að geta notast til að reka til einstaklinga “kontakt” á hátt sem er innan við það sem mundi vera hjálplegt fyrir smitrekiteymið. Með opnum og frjálsum hugbúnaði gæti fleiri komið af þeim upplýsingum sem er bráð nauðsýnlegt til þess að meta hvort notkun apps og þessi vöknum sé 1: nauðsýnleg, 2: gætir meðalhófi.

og @BjornThor mér vitandi er það ekki rangt en þarf samþykki beggja aðila og svo veit engin hvort þeir sem eru að gera isl version eru að nota sér þetta

nokkrir púnkar: aðrar reglur, lög og afleiðingar gilda fyrir fyrirtæki og ríkið. Púnktur.
Frelsi fellst í því að nýta gagnrýna hugsun til þess að taka ákvarðarnir. Hvort það sé að nota facebook.onion eður ei, að vera með messenger á sér tæki.

Öryggi virkar ekki þannig að ef þú leyfir einu appi gætir þú alveg eins leyft öllum. Það er mats atriði í hvert sinn og þá sérstaklega á netinu. Í sjalfum sér óttast ég að það er misskilningur á gagnrýni þessara apps. Gagnrýnin fellst í því hvort þetta yfir höfuð mun hjálpa smitrakningarteyminu þar sem upplýsingar eru mögulega bara alls ekki nógu nákvæm. Er þetta app best? Mörg eru í boði. Er búið að gæta meðalhofs varðandi hvort þetta app mun skila þeim árangri sem missitr friðhelgi einkalífs? Ef ekki hvað er þá í boði? Við björgum mannslífum með því að vera heima, ekki með því að hlaða niður app, því falska örryggið sem felst í að gera fleiri hluti því appið man hvert mar fer er hættulegt. Annar púnktur er samþykki. Það er stór hættulegt að halda að það er ekki gríðaleg pressa til þess að bæði hlaða niður, nota og veita aðgengi að þessum gögnum. Ef það er ekki skilningur á því er ekki skilningur á samþykki.
Það er augljóst að við erum ósammála en kannski veitir þetta þér betri innsýn í hvað fólk sem er með efasemndir er að hugsa.

1 Like

Ég geri mér alveg grein fyrir því að aðrar leikreglur gilda um fyrirtæki heldur en ríkið sjálft, svo þú þarft ekkert að punkta mig neitt. Skil samt ekki hvert þú ert að fara með þessa frelsisfullyrðingu þína þar sem enginn er að neyða neinn til neins.

Persónuverndarlöggjöfin gildir þó samt um báða aðila sem og alla aðra, það sem áhyggjurnar viðast snúast um.

Heilbrigðissérfræðingarnir telja svo að þetta app muni getað hjálpað mikið til smitrakningar og hafa vísað í að svipað app hefur m.a. virkað vel í Suður-Kóreu. Hvort þetta app sé best til þessa verks veit ég ekki en þetta app er engu að síður búið til einungis í þessum tilgangi. Önnur öpp sem eru til eru væntanlega öll í eigu einkafyrirtækja og ég get ekki séð að það sé neitt betra. Hefur einhver í forsvari þeirra eigenda talað svona um þau öpp eins og hefur verið gert með þetta app?

Hönnuðir appsins hafa verið í mjög góðu samstarfi við sjálfa Persónuvernd sem hefur lagt blessun sína yfir það sem segir það að verið er að gæta meðalhófs hvað friðheldi einkalífs varðar. Persónuvernd er líklegasta stofnunin til að passa upp á persónuvernd.

Að ætla samt ekki að treysta þessu appi er í mínum hug verið að vantreysta bæði Persónuvernd og heilbrigðisyfirvöldum á tíma þar sem fólk þarf að standa talsvert meira betur saman heldur en alltaf áður. Þetta er engan veginn venjulegt ástand þessa dagana. Allt sem hefur m.a. annars komið fram á þessum daglegu blaðamannafundum, ég hef horft á hvern einasta, gefur ekkert nema öryggi í ljós og ef fólk treystir ekki hvað það segir um appið, er það þá líka svona tortryggið í garð alls annars sem það segir líka? Fólksins sem hefur ekkert gert til að verðskulda slíka tortryggni. Það er gott og nauðsynlegt að vera gagnrýnið en allir eiga að vega og meta aðstæðurnar hverju sinni. Oft er þörf á að treysta sérfræðingum, en nú er nauðsyn.

Það er ekkert sem segir eða bendir til að upplýsingar úr þessu appi verði misnotaðar og þar að auki svo framarlega sem uppsafnaðar staðsetningarupplýsingar í símum fólks er einungis og bara í símum fólks, eins og verður í lang flestum tilfellum, þá getur það varla haft nein áhrif á friðhelgi einkalífs neins.

Það hefur komið fram að fólk þarf að samþykkja upplýsingasöfnun í appinu þegar það er sótt svo ef það verður leitað eftir því að þær upplýsingar verði notaðar, í mögulega lífsbjargandi smitrakningu, þá verðu aftur beðið um leyfi til þess.

Þegar faraldurinn er genginn yfir þá einfaldlega eyðir fólk appinu af símanum sínum og þarf því ekkert að pæla neitt í því meira.

Þú getur ekki fullyrt að þetta veiti falskt öryggi, alveg eins og ég get ekkert fullyrt að þetta sé lausn á vandanum. Því það er engin aðgerð nein lausn ein og sér. Að vera heima, halda 2 metra fjarlægð, gæta mikils hreinlætis, loka skólum, takmarka samkomur 20 manna, þetta app o.fl. gerir, allt saman, talsvert mikið gagn í baráttunni við þessum heimsfaraldri eins og sést á samanburði línurita á útbreyðslunni hér miðað við annars staðar. Skaðlegi veldisvöxtur smita er ekki hér eins og annars staðar, út af öllum þessum aðgerðum, ekki einni eða tveim heldur öllum saman. Ef hver þessara aðgerða væri einungis bara ein og sér myndi það gera lítið sem ekkert en allar saman eru þær nauðsynlegar.

Ef einhver heldur það að þegar maður er komið með þetta app að þá þurfi maður ekkert að huga að neinu öðru eða minnka þær aðgerðir sem maður er þá þegar gera, þá ætti maður aðeins að stoppa og hugsa sig betur um, því það er alls ekki það sem maður á að gera. Margt smátt gerir eitt stórt og því fleiri aðgerðir sem hver og einn gerir, því betra er það fyrir allt samfélagið í heild sinni og þá sérstaklega þá eldri og sjúku. Fólk er að deyja og mun halda áfram að áfram deyja út af þessum, hingað til, ólæknandi sjúkdóm og þetta app mun bæta á það gagn sem aðferðirnar sem við erum nú þegar að nota til að draga kúrfuna enþá meira niður hérna heima.

Ég nefndi hræsina í síðasta pósti því þetta app getur bjargað mannslífum og verður bara notað í örfáar vikur. Fólk er að setja sig á móti því á sama tíma og það notar gangalekandi, samfélagsskemmandi og siðblinda óþjónusu facebook og svo google appanna. Þau öpp safna upplýsingum um fólk, njósna um fólk og það getur ekkert slökkt á því, einungis að hluta. Allar þær upplýsingar eru síðan vistaðar hjá þeim aðilum og gerir það að auglýsingarvöru. Þessi verk eru talsvert mikið verri heldur en verður af þessu ríkisappi og skiptir það engu máli hvort það séu einkafyrirtæki eða yfirvöld í því hversu siðlaust þessi aðferð er.

Þú segir að fólk geti alveg notað aðrar leiðir til að nota facebook og vera með messenger á öðru tæki. Sem er alveg rétt, en lang lang flestir gera það samt ekki og lang lang flestir miðla sínum upplýsingum ómeðvitað til þessa ógéðslega fyrirtækis til markaðsherferðar.

Ég tala af reynslu varðandi viðbjóð facebook og goole, friðheldi einkalífs er ekki til hjá þeim. Ég slekk á öllum leyfum sem öpp í símanum mínum nema þau sem þau raunverulega þurfa, en það fer eftir hverju einu appi fyrir sig, en samt sá ég að ýmsar upplýsingar um mig voru samt teknar frá mér og olli það því að ég á ekki facebook lengur. En messenger bjó ég síðan aftur til en nota það lítið sem aldrei.

Appið sem um ræðir mun ekki hafa færi til þess að safna neinum upplýsingum eftir örfáar vikur þegar allir verða búnir að eyða því, fram að því mun það hjálpa til við að bjarga mannslífum.