Já, það var rangt. Það stóð aldrei til. Þannig virkar hinsvegar TraceTogether appið frá Singapore og margir (þ.á.m. ég sjálfur) gerðu ráð fyrir því að appið sem þau myndu búa til hérna, myndi virka eins. TraceTogether notar bluetooth til að skrá niður hvaða aðrir app-notendur séu nálægir hverjum.
Eins og bent hefur verið á, þá getur GPS mjög illa skráð niður hverjum þú ert nálægt, bæði vegna þess að það er of ónákvæmt og tekur ekki tillit til veggja og annarra hluta sem aðskilja fólk þótt það sé nálægt hvoru öðru. Bluetooth næst yfirleitt ekki í gegnum þykka veggi eða langar fjarlægðir og því hentar það betur til þess að skrá hvort þú sért í samneyti við manneskjuna sem er með það bluetooth-tæki, eða ekki.
En hérna er notað GPS einmitt vegna þess að appið skráir ekki hverja notandinn er í kringum eins og TraceTogether. Íslenska appið virkar allt öðruvísi og er hvergi nálægt því að vera jafn háþróað, og vekur því ekki sömu spurningar um persónuvernd.
Tjah, maður veltir fyrir sér til hvers? Ef okkur finnst í lagi að fók geri það, þá veit ég ekki hvað okkur á að finnast að þessu appi, vegna þess að þetta app gerir ekkert nema að aðstoða við nákvæmlega það. Engar upplýsingar eru sendar án samþykkis notandans, og einungis eru sendar upplýsingar sem notandinn sjálfur gefur upp og samþykkir að gefa upp.
Gott og blessa ef fólk gefur leyfi til að skrá sínar ferðir og enn betra ef því er ekki deillt fyrr en á þarf að halda. EN
Samkvæmt þessari frétt er Víðir með þá hugmynd að hægt sé að rekja saman hverjir hafa verið í nálægð.
“„Það nýtist okkur síðan þegar við þurfum að hafa samband við þá einstaklinga sem hafa verið nálægt einhverjum sem hefur verið smitaður. Þá getum við sent skilaboð á alla þá sem hafa verið í ákveðinni fjarlægð frá honum í ákveðinn tíma,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.”
Svo mér fynnst þessi lýsing sem gefin er um virkni appsins ekki passa við það sem er Víðir segir þarna
Er það þá bara annara sem hafa appið eða alla síma?
Hmm, @helgihg
Takk fyrir þetta. Sammála, það virðist hafa verið hugað ágætlega að persónuvernd og samþykki við hönnun á appinu. Mín pæling er aðeins víðari og kemur þar inn m. a. minimalismi, traust, meðferð fjár, einfaldleiki og virkni almennings sem mér finnst einmitt hafa heppnast svo vel hjá “teyminu”, en þetta er líklega of gamaldags hugsun eða kannski of nýtískuleg?
Ég er sammála, að þetta passar ekki alveg. Hinsvegar skil ég engan veginn hvernig á að vensla saman gögn sem eru dreifð á símum út um allar trissur. Það bara eiginlega stenst ekki. Til þess að bera saman gögn þarftu að hafa gögnin, það segir sig sjálft.
Það verður að birta þennan kóða til að hægt sé að svara þessu endanlega, tel ég.
Var að fá þær fréttir að öryggissérfræðingar hafi farið yfir kóðann og gefið grænt ljós á að hann verði gerður opinber. Núna er unnið að því að gera hann opinberan. Veit ekki meira um hversu mikið af hnum eða hvernig verður staðið að því, en við sjáum til.
Það eru misvísandi upplýsingar á reiki um það hvernig forritið virki. Skýringarnar sem ég hef fengið stemma ekki við útskýringar í fjölmiðlum, né reyndar hvernig appið virðist virka þegar ég prófaði alpha-útgáfu af því um helgina.
Takk fyrir þetta Helgi. Það er gott að þú gast fengið þessar upplýsingar. Almenningur getur hins vegar ekki fengið upplýsingar almennt og jafnvel þú verður að treysta tæknimanninum. Ég fagna því að kóðinn verði gerður aðgengilegur (sem uppfyllir þá skilyrði um open source, en ekki endilega frjálsan hugbúnað), en þar til það er gert er ekki hægt að treysta þessu forriti og óábyrgt að mæla með notkun þess, að mínu mati.
@odin en það er verið að gera eitt hvað. Það er verið að gera heil mikið. Hugmyndin um að tól, forrit eða annað er búið til einungis til að gera eitt og það hefur einhver áhrif á forritið og notkun þess er hættulegt. Tól eru oft búin til í einum tilgangi en notuð í allt öðrum bæði að notanda og af ríkjum/fyrirtækum o.s.frv.
Það sem ég setti fram er þekkt rökvilla; ég gerði ráð fyrir að ég þyrfti ekki að setja skýringar með henni, en það virðist hafa verið skakkt mat.
Vandamálið hérna er að þetta er svolítið ‘slippery slope’ umræða, og auðvelt er að útmála þá sem eru á móti hlutum eins og afturvirkum refsiákvæðum vegna sóttkvíar sem einhverskonar afturhaldssinna sem berjast gegn nauðsynlegum aðgerðum. Það sem vekur athygli mína er hve fáir virðast sjá að aðgerðir geta vel verið nauðsynlegar en samt gagnrýniverðar. Það er fjandakornið ekkert í lagi með þetta app út frá persónuverndarsjónarmiði, skítt með það hvort það standist lög eða ekki. Ég hef ekki séð að þeir sem gagnrýna það séu fólk sem heldur kjafti yfir persónuverndarbrotum facebook og Google.
Við eigum ekki að að halda kjafti og slökkva á gagnrýni af því að það er krísa og allir verða að standa saman. Það er þankagangur fasistans.
Tilgangur þess er að skrásetja upplýsingar um ferðir einstaklings til þess að hægt sé að rekja þær síðar og nota til að grennslast fyrir um hverja hann var í sambandi við. Þetta er bara einfaldlega ekki samrýmanlegt hugmyndum um friðhelgi einkalífsins. Það breytist ekki þó slíkar aðgerðir séu nauðsynlegar til að bjarga mannslífum við óvenjulegar aðstæður. Það sama á við um t.d. skerðingu á ferðafrelsi fólks í sóttkví. Það er engu minni skerðing þó aðstæður réttlæti það.
Ef lýsingin sem þú gafst er rétt verður ekki auðvelt að misnota upplýsingarnar, sem er jákvætt - en þrálátar fullyrðingar um hvað þetta app geti gert stangast á við þá lýsingu, og á endanum snýst þetta um traust. Það verður einfaldlega ekki tryggt með tæknilegum hætti.
Jú, það er alveg samrýmanlegt hugmyndinni um friðhelgi einkalífsins að notandinn deili að eigin frumkvæði og með eigin samþykki upplýsingum um hvar hann hafi verið. Það er algerlega ákvörðun notandans sjálfs. Til samanburðar væri það varla brot á friðhelgi einkalífs ef ég spyrði þig hvað þú hefðir gert um helgina, þótt auðvitað þú ráðir því alfarið sjálfur hvort þú svarir. En ef þú sjálfur hefur fyrir því að setja inn app þar sem þú sjálfur setur inn upplýsingar um hvað þú gerðir um helgina, og sendir mér þær upplýsingar sjálfviljugur, þá er það varla á skjön við hugmyndina um friðhelgi einkalífs.
Ég er einnig ósammála því að traustið verði ekki tryggt með tæknilegum hætti. Það verður gert með því að kóðinn verði gerður opinber og hver sem er geti lesið úr honum hvernig þetta virki. Appið fer einnig í gegnum rýniferli sérfræðinga í persónuvernd og öryggi, ásamt dreifingaraðilunum sjálfum, Google og Apple.
Ég er ósammála, en grunar að þar liggi að baki að við séum í grundvallaratriðum ósammála um það hvað felist í hugmyndinni um friðhelgi einkalífsins. Það er svosem gott og blessað.
Þetta er aftur á móti ekki spurning um að vera sammála eða ósammála. Þetta er einfaldlega ekki hægt, en það er útbreidd skoðun meðal tæknifólks að hægt sé að komast fyrir vandann. Þetta er í grundvallaratriðum afbrigði af vandamáli býsönsku herforingjanna - vandamál sem hægt er að leysa fyrir kerfið, en ekki alla hluta þess. Við erum hinsvegar ekki að tala um heildarkerfið hérna, heldur hvern og einn hluta þess. Í stuttu máli: Engin tæknileg leið getur búið til traust hjá einstaklingi gagnvart öðrum; það er einungis hægt að framlengja traust sem þegar er til staðar.
Nei; það er leið fyrir tölvunörda eins og þig og mig til að treysta honum. Það dugir ekki fyrir þá sem ekki treysta tölvunördum. (Skynsemdarfólk, það. )
En svo má hafa í huga að það er þónokkuð mál að smíða kóða þannig að það sé sannreynanlegt að keyrslukóðinn endurspegli frumkóðann. Ken Thompson lýsti því vel. Auðvitað geri ég ekki ráð fyrir neinu slíku hér, en ef vantraust er til staðar…?
Það er háð því að þú treystir umræddum aðilum. Eins og fram hefur komið hefur ekki beinlínis verið hægt að tengja Google og Apple við gífurlega hugulsemi um persónuvernd.
Okei án þess að vera að gefa út eitthvað vantraust þá finnst mér stefna á borð við trust but verify vera frekar krúsíal fyrir okkur með þetta mál. Við getum ekki leyft okkur að ala á tortryggni en við getum ekki heldur leyft okkur að vera kærulaus með nokkurnvegin akkúrat það eftirlitshlutverk sem fólk ætti að treysta okkur einna hvað best fyrir. Ef við segðum fólki að hafa ekki áhyggjur og síðan kæmi í ljós að appið væri ekki eins saklaust og það var kynnt sem og það byði upp á í framtíðinni að yrðu upplýsingar nýttar í þágu valdstjórnarinnar þá værum við búinn að detta illa á andlitið sem flokkur. Þannig að… ef Píratar segja að appið sé í lagi þá skal það fjanda kornið vera gulltryggt að það sé í lagi. Ég skil ennþá ekkert hvernig það á að virka nb og finnst mjög skrítið að app sem hefur getu til að senda upplýsingar um mig eða vinna út einhvern samanburð á úpplýsingum um ferðir fólks komist hjá því að vera exploitable, en ef það er hægt að útskýra það á mannamáli þá held ég að það væri fyrsta skrefið ef það á svo að mæla með þessu.
Já og persónuvernd ar að taka public opinion barsmíðar hægri vinstri þessa daganna. Það er ekki að ég treysti ekki ásetning þeirra frekar en getu til að standa upp á móti sjónarmiðinu ef þið gerið starf ykkar mun fullt af fólki deyja og við kennum ykkur um. Hver getur í raun unnið við þannig skilyrði?
Þá tel ég best að nota engin öpp eða tölvur yfirhöfuð, og aldrei láta neinn hafa neinar upplýsingar um sig. Ég er ekki að reyna að vera leiðinlegur, en ég fæ ekki betur séð en að það sé lógísk afleiðing af þessari nálgun þinni. Í öllu falli er ég, já, í grundvallaratriðum ósammála. Og hafa nú verri hlutir gerst en að ég og þú sjáum hlutina með ólíkum hætti.
Þannig nálgast ég þetta líka. Þess vegna hef ég verið að ýta á eftir kóðanum og bíð í ofvæni eftir því að hann verði gefinn út.
Nákvæmlega. Sammála.
Vandinn hérna er að það eru misvísandi upplýsingar í gangi. Ég kann engar skýringar á því, aðrar en að einhver er að ruglast, einhvers staðar, og kann enga lausn á því aðra en að lesa kóðann þegar hann verður gefinn út, sem ég hyggst gera.
Já, sem er óþolandi ábyrgðarleysi að mínu mati. Sérstaklega þegar einhver með mikið kennivald eins og Kári Stefánsson fer að herja á Persónuvernd vegna þess að hann fær ekki að gera það sem hann vill, þá er það nákvæmlega skólabókardæmi um að fólk notar neyðarástönd til þess að sníða borgararéttindi að því sem það vill gera.
Héddnah. Ég þekki alveg fólk sem tekur þann pólinn í hæðina. Sumt af því hefur meira að segja fulla ástæðu til. Ég hef ekki gengið svo langt sjálfur, en það er kannski tilefni til að minna þig á að yfirvöld í BNA gáfu út leitarheimild eftir svo að segja öllum upplýsingum sem Google hafði um mig, sem er enn leynileg að hluta.
Aðeins meira um þetta. Ég hef núna tvisvar talað við aðilana sem stýra þessu verkefni um þetta, og appið ber ekki saman ferðir fólks samkvæmt þeim upplýsingum. Hinsvegar hafa bæði Víðir og fjölmiðlar talað eins og svo sé. Það er auðvitað alveg hugsanlegt að fólk í framlínunni fái rangar upplýsingar eða misskilji hvernig þetta á að virka… annað eins hefur nú gerst… eða að fólk er að lesa upplýsingar um t.d. appið frá Singapore (TraceTogether) sem virkar þannig.
Alveg sama hvernig litið er á það, þá þurfum við að sjá kóðann til að geta fullyrt með vissu um hvernig það virkar í raun, miðað við þessar misvísandi upplýsingar.
Já, ég er bara ekki á þeim stað að leggja það til við fólk að nota engin öpp eða tölvur yfirhöfuð, né að láta aldrei neinn hafa upplýsingar um sig. Aðalatriðið er að fólk eigi sjálft sínar upplýsingar og ráði því sjálft hvað það geri við þær. Ég prófaði appið sjálfur í alpha-testi yfir helgina og er búinn að spjalla beint við aðilana sem standa fyrir þróuninni, hef lesið persónuverndarskilmálana og mín niðurstaða er sú að þetta app sé rétt gert. Nú vantar bara kóðann til að útkljá endanlega misskilning um hvernig appið virkar, og þá bara fæ ég ekki betur séð en að þetta standist allar raunhæfar kröfur um persónuvernd og gagnaöryggi.
En eins og Svafar sagði, við eigum ekki að búa til tortryggni bara aþþíbara. Þetta er ekki eitthvað hræðilegt alveg-sama-hvað. Það skiptir máli hvað appið gerir og hvernig það gerir það.