Efnahagsmál - Kosningar 2021

Í kjölfar Pírataþings fyrr á árinu var settur á laggirnar málefnahópur um efnhagsmál.

Tveir fundir hafa verið haldnir 25.2.2021 og 4.3.2021. Á síðasta fundi var vilji til að fjölga fundum fram til 1. apríl og auglýsa þá betur. Við bjóðum alla Pírata velkomna á fundi hópsins framundan:

|Dagur| Tími Heiti fund Staðsetning fundar
|11.3.2021 fimmtudagur kl. 14:00-15:30|Efnahagshópur - 3. fundur|https://fundir.piratar.is/efnahagsmal|
|16.3.2021 þriðjudagur kl. 20:00-21:30|Efnahagshópur - 4. fundur|https://fundir.piratar.is/efnahagsmal|
|18.3.2021 fimmtudagur kl.14:00-15:30|Efnahagshópur - 5. fundur|https://fundir.piratar.is/efnahagsmal|
|23.3.2021 þriðjudagur kl. 20:00-21:30|Efnahagshópur - 6. fundur|https://fundir.piratar.is/efnahagsmal|
|25.3.2021 fimmtudagur kl.14:00-15:30|Efnahagshópur - 7. fundur|https://fundir.piratar.is/efnahagsmal|
|30.3.2021 þriðjudagur kl. 20:00-21:30|Efnahagshópur - 8. fundur|https://fundir.piratar.is/efnahagsmal|

Það eru allir Píratar velkomnir á fundina, en einnig er hægt að koma sjónarmiðum á framfæri hér á þessu spjall.

Ingimar Þór Friðriksson tók að sér að vera tengiliður hópsins við stefnu- og málefnanefnd.
Halldóra Mogensen hefur boðist til að aðstoða Ingimar við að skipuleggja næstu fundi og safna saman nauðsynlegum gögnum í þessum umfangsmikla málaflokki.

kær kveðja,
Ingimar
s: 8229700

4 Likes

Glæsilegt og tillaga Halldóru á síðasta fundi um að hafa kosningastefnuna uppsetta eftir tímabilum, þ.e. næsta ár, næsta kjörtímabil og langtímastefna er mjög sniðug.

Mínar tillögur í þetta módel af kosningastefnu sem byggir á gildandi stefnum er eftirfarandi:

Fjárlög ríkisins 2022
Ríkið sér til þess að allir sem vilja komast aftur á vinnumarkað í kjölfar COVID geti það án kerfishindrana:

 • Stuðningur við atvinnulausa með því að fella niður krónuskerðingar á atvinnuleysisbótum vegna annarrar innkomu.
 • Krónuskerðingar á elli- og örorkulífeyrisgreiðslum vegna annarar innkomu verða felldar niður.

Stefnt að útrýmingu fátæktar með því að lögfest verður skattfrjálst lágmarksframfærsluviðmið fyrir alla íbúa landsins til notkunar hjá hinu opinbera.

Átak verður í frumkvöðlastarfsemi og nýliðun á öllum sviðum vinnumarkaðarins (með aukningu í úthlutun strandveiðikvóta, með því Rannsóknarsjóði námsmanna verður heimilt að úthluta tvöfalt hærri upphæð, ríkissjóður greiði hluta launa hjá starfsfólki skráðra nýsköpunarfyrirtækja, ríkissjóður greiði starfstengt nám atvinnulausra … (ekki tæmandi listi).

Næsta kjörtímabil

Kolefnisbókhald og mat á umhverfisáhrifum verða órjúfanlegir hlutar af fjárlagagerð og verður ríkissjóði gert óheimilt að fjárfesta í eða styrkja ósjálfbær verkefni.

Félagsleg vernd verður endurskoðuð og einfölduð þannig að enginn fátækt verði á Íslandi og allir landsbúar eiga skilyrðislausan rétt á lágmarksframfærslu.

Ónýttur persónuafsláttur verður gerður útgreiðanlegur og ónýttur skattaafsláttur af fjármagnstekjum einnig. Mánaðarleg fjárhæð sem er greidd út til allra 18 ára og eldri, en skattaafsláttur af fjármagnstekjum greiddur árlega.

Nýta þarf reynslu af niðurfellingu krónuskerðinga úr bótakerfum, stuðningi við námsmenn og útgreiðanlegum persónuafslætti til að meta Tilraunir með fýsileika borgaralauna hefjast.

Frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun verða styrkt sem undirstaða endurbóta á atvinnuháttum og til að fjölga undir stoðum hagkerfisins. Þannig má t.d. endurskipuleggja fyrirtækjaflokka og skráningu fyrirtækja þannig að 1) lögaðilar sem teljast frumkvöðlar eða græn nýsköpunarfyrirtæki hafi sem einfaldast regluverk og greiði lága skattprósentu, 2) lögaðilar sem stuðla að nýsköpun, sjálfbærni og skapandi greinum séu skör neðar en hefðbundir lögaðilar, 3) lögaðilar sem eru í hefðbundnum samkeppnisrekstri greiði eðlilega skatta, 4) lögaðilar sem starfa í fákeppnisumhverfi séu í hærra skattþrepi, lögaðilar sem losa mengunarefni greiði sérstakan losunarskatt og 5) lögaðilar sem ekki greiða fyrrgreinda skatta sé gert að greiða 1,5% skatt af reiknaðri veltu.

Rekstrarumhverfi fyrirtækja og annarra lögaðila verður einfaldað. Skattlagning verður einfölduð og undanþágum og sérreglum fækkað. Þannig tryggjum við jafnræði í rekstri og styrkjum fyrirtæki í langtímaáætlanagerð. Einföld fyrirtækjaform hvetji til frumkvöðlastarfs, grunnrannsókna og nýsköpunar.

Lögfest verður stóraukið gagnsæi í rekstri og starfi lögaðila sem þyggja fjármagn á fjárlögum ríkisins eða fara með hlutverk samkvæmt lögum og reglugerðum, þar með talið opinber hlutafyrirtæki.

Ákveðið hlutfall skatta af rekstri og störfum fyrirtækja skulu í renna beint til þess sveitafélags þar sem starfsemi eða verslun fer fram.

Stuðningshlutverk ríkisins við einstaklinga verður fært til sveitarfélaga. En eingöngu ef nægilegt fjármagn fylgir með.

Fjölga hliðarreikninum við þjóðhagsreikninga til að ná mælanlegum árangri að innleiða öll heimsmarkmið S.Þ. með áherslu á notkun mengunarbótareglu, mótun hringrásarhagkerfis og uppbyggingu velsældarhagkerfis.

Langtímasýn Pírata í efnahagsmálum

Hagkerfið á að vinna fyrir fólk; fólk á ekki að vinna fyrir hagkerfið.

Skilyrðislaus grunnframfærsla sem leið til að stórauka sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga, en á sama tíma að útrýma fátækt og stuðla að atvinnufrelsi og búsetufrelsi.

 • Rannsaka þarf til hlítar áhrif af slíkum breytingum á hagkerfið.
 • Varða þarf leið frá núverandi efnahagsskipan að skilyrðislausri grunnframfærslu.

Til viðbótar við skilyrðislausa grunnframfærslu til einstaklinga verði megináhersla hins opinbera að greiða fyrir velferðarkerfið og innviði þess, auk þess að bjóða upp á hvatastyrki til einstaklinga og lögaðila til að efla frumkvöðlastarfsemi, nýliðun atvinnuvega, nýsköpun, sjálfbærni og skapandi greinar.

Örugg framfærsla og aðgengi að menntun og símenntun er grundvöllur velsældarhagkerfisins.

Einfalda skattkerfið þannig að bæði einstaklingar og lögaðilar greiði 28% skatt af allri innkomu umfram persónuafslátt. Frumkvöðlar í sjálfbærri starfsemi geta fengið frest fyrstu árin. Allir sem losa mengunarefni út í umhverfið greiða fyrir það mengunarskatt aukalega. Lögaðilum í fákeppni er gert að velja á milli þess að greiða “hvalrekaskatt” aukalega eða bjóða upp á aukið gagnsæi og lýðræðislega aðkomu fólks. Lögaðilar sem ekki greiða ofangreinda skatta vegna lagaklækja eða annarra undanbragða er gert að greiða skatt sem reiknast af veltu fyrirtækjasamsteypunnar. Lögaðilar sem ekki skila lögbundum gögnum til skattsins eiga á hættu að missa tímabundið kennitölu sína eða fá ekki nýjum kennitölum úthlutað. Stórefla þarf eftirlits og rannsóknarhlutverk RSK.

1 Like

Til að tryggja betri fyrirvara varðandi boðun funda þá ákvað ég að sleppa fundinum næsta fimmtudag. Við Halldóra undirbúum frekar betur næsta fund á þriðjudaginn kemur. Næstu fundir verða þá (setjið í Calendar :slight_smile: ):

16.3.2021 þriðjudagur 20:00-21:30 Efnahagshópur - 3. fundur
18.3.2021 fimmtudagur 14:00-15:30 Efnahagshópur - 4. fundur
23.3.2021 þriðjudagur 20:00-21:30 Efnahagshópur - 5. fundur
25.3.2021 fimmtudagur 14:00-15:30 Efnahagshópur - 6. fundur
30.3.2021 þriðjudagur 20:00-21:30 Efnahagshópur - 7. fundur

Fundirnir verða haldnir hér: https://fundir.piratar.is/efnahagsmal

3 Likes

Ég er vitanlega búinn að týna linknum að skjalinu hennar Halldóru, er hægt að setja hann hérna inn?

En til þess að byrja gagnrýna, sem er vitanlega liður í að við getum samið rock solid efnahagsstefnu, vil ég benda á þetta varðandi það sem Albert skrifaði :

Stuðningur við atvinnulausa með því að fella niður krónuskerðingar á atvinnuleysisbótum vegna annarrar innkomu.

Ég held að þetta búi til talsverðan freistni vanda að vera í 50-75%ish starfi og halda þó fullum bótum. Tekjuskerðingarreglan er þessi eins og er

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi og atvinnuleysisbætur eru hærri en sem nemur óskertum rétti til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skal skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem umfram eru.

Frítekjumarkið er 73.827 , það plús 100% atvinnuleysisbætur gera 381.257kr. Svo skerðast bæturnar með auknum tekjum, en þær hverfa ekki fyllilega fyrr en tekjur eru orðnar tæplega 700.000kr skv. þessari tekjuskerðingarreglu. Ég held það sé óþarfi að hrófla við þessu eins og er , t.d. skila 300þ.kr mánaðarlaun samt 194þ.kr atvinnuleysisbótum eins og er, sem er þá heild upp á tæp 500þ.kr og langt yfir lágmarkslaunum.

En við eigum vitanlega að stuðla að atvinnuþáttöku en ekki letja hana. Hef ekki nógu úthugsaðar aðferðir atm við hvað eigi að gera, en spurning hvort hækka ætti atvinnuleysisbætur og lengja bótatíma.

Stefnt að útrýmingu fátækgtar með því að lögfest verður skattfrjálst lágmarksframfærsluviðmið fyrir alla íbúa landsins til notkunar hjá hinu opinbera.

Ég er ekki endilega ósammála þessu en þetta er engu að síður stórt skref sem þarf að hugsa vel út. Fyrst þarf vitanlega að skilgreina hvert framfærsluviðmiðið er en síðan þarf að huga að fjármögnun. Hér er í raun verið að hækka persónuafslátt og hefja skattheimtu ofar í tekjustiganum. Ef ríkið á að koma út á sléttu þá þarf að hækka skattheimtu af tekjum fyrir ofan lágmarksframfærsluna. Það er aðgerð sem verður illa séð af mjög mörgum hugsa ég. En spurningin í slíkri skattheimtu er þá hvar er break even point (s.s. hvaða tekjur verða nákvæmlega eins settar og þær eru í dag) og hversu hröð verður skatthækkunin. Í öllu falli eitthvað sem þarf að hugsa mjög vel áður en er ráðist í.

Þetta er svo tengt annarri pælingu og það er hvort að skatta eigi af rentu (renta er hagnaður umfram “eðlilegan” hagnað) almennt séð eða af öllum tekjum. Í dag sköttum við af nokkrunveginn öllum launatekjum, við sköttum af öllum hagnaði af eiginfé en við sköttum bara af rentu þegar kemur að lánum. Það er slæm staða sem ýtir undir áhættusækni og óþarflega vogun í hagkerfinu. Það er smá annar sálmur en þetta eru engu að síður tengdar pælingar. Þetta tengist líka inn á að einfalda skattverk og rekstrarumhverfi fyrirtækja. En geymum þetta aðeins í bili.

Ónýttur persónuafsláttur verður gerður útgreiðanlegur og ónýttur skattaafsláttur af fjármagnstekjum einnig. Mánaðarleg fjárhæð sem er greidd út til allra 18 ára og eldri, en skattaafsláttur af fjármagnstekjum greiddur árlega.

Ég þarf varla að taka fram að ég er sammála með fjármagnstekju skattaafsláttinn og einnig hlyntur útgreiðslu persónuafsláttarins. Hinsvegar þá er nær að leggja af persónuafsláttinn þar sem allir fá hann greiddan hvort eð er og greiða hann bara beint út, einfalda þar með skattkerfið. Halldóra kom með flott nafn á það: Persónuarð. Viðbótin mín að þessu sinni er þessi : Ef persónuafslátturinn er lagður af, afhverju þá að leggja ekki strax af skattaafslátt fjármagnstekna og greiða 1/12 af honum mánaðarlega með persónuarðinum? Því straumlínulagaðra sem skattkerfið er því betra.

Annars bara mjög gott innlegg og fínt að koma umræðunni af stað.

2 Likes

Varðandi tekjuskerðingu á atvinnuleysisbótum (og fyrir öryrkja og ellilífsþega), þá þurfum við að tryggja það að fólk geti verið í hlutastarfi án þess að missa strax allan sinn rétt. Núverandi kerfi er atvinnu-letjandi fyrir þá sem eru á bótum á meðan að kerfið ætti að vera atvinnu-hvetjandi. Gallinn er hins vegar sá að ef fólk er að fara í hlutastörf þá tapar það svo fljótt niður öllum rétti á bótum.

Í raun þyrftum við að hafa “öfuga hlutabótaleið” þar sem fólk er verðlaunað fyrir að leggja sitt að mörkum með vinnu, en getur samt náð að tryggja sér framfærslu og að detta ekki í fátæktargildru.

1 Like

Viðbót fyrir næsta kjörtímabil:
Fjölga hliðarreikninum við þjóðhagsreikninga til að ná mælanlegum árangri að innleiða öll heimsmarkmið S.Þ. með markmiðum að fullnýta mengunarbótareglu, móta heildstætt hringrásarhagkerfi og velsældarhagkerfi.

Viðbót við langtímasýn: :
Einfalda skattkerfið þannig að bæði einstaklingar og lögaðilar greiði 28% skatt af allri innkomu umfram persónuafslátt. Frumkvöðlar í sjálfbærri starfsemi geta fengið frest fyrstu árin. Allir sem losa mengunarefni út í umhverfið greiða fyrir það mengunarskatt aukalega. Lögaðilum í fákeppni er gert að velja á milli þess að greiða “hvalrekaskatt” aukalega eða bjóða upp á aukið gagnsæi og lýðræðislega aðkomu fólks. Lögaðilar sem ekki greiða ofangreinda skatta vegna lagaklækja eða annarra undanbragða er gert að greiða skatt sem reiknast af veltu fyrirtækjasamsteypunnar. Lögaðilar sem ekki skila lögbundum gögnum til skattsins eiga á hættu að missa tímabundið kennitölu sína eða fá ekki nýjum kennitölum úthlutað. Stórefla þarf eftirlits og rannsóknarhlutverk RSK.

1 Like

Mætti ekki setja einhver markmið um almennilega grænkun fjármálakerfisins á næsta kjörtímabili? Það er borðleggjandi að setja skýran ramma um að hið opinbera og lífeyrissjóðirnir fjárfesti ekki í ósjálfbærum verkefnum og a.m.k. hægt að stefna eitthvað í þá átt með almenna rammann fyrir fjármálafyrirtæki.

Við Björn Leví o.fl. erum með þessa tillögu inni á þingi núna, sem snýst annars vegar um “fossil fuel divestment,” en hins vegar um leiðir “fyrir íslenskt fjármálakerfi til að verða í fararbroddi í grænni fjárfestingu og þróun sem miðar að jarðefnaeldsneytislausu samfélagi”. Skemmtilegasta umsögnin við málið er frá Landsamtökum lífeyrissjóða, en þar virðist fólk vera til í þetta (eða bara átta sig á því að þetta er óumflýjanleg framtíðarmúsík).

Þetta er þróun sem kemur fljótlega til Íslands í gegnum EES, en ESB samþykkti í fyrra flokkunarkerfi um sjálfbærar fjárfestingar sem hluta af græna sáttmálanum. Það eru bullandi sóknarfæri fyrir Ísland í þessu - bæði til að stíga alvöru skref í umhverfisátt, en líka til að fá fjárfestingu inn í allskonar græna sprota.

1 Like

Hér er upplegg að efnahagsstefnu sem byggir á skýrslu sem gerð var fyrir forsætisráðuneytið fyrir rúmu ári svo að það sé með í þessari umræðu.

1 Like

Vildi vekja athygli á að ég setti innlegg inn á Virkir Píratar rétt í þessu (https://www.facebook.com/groups/1934974850053425). Þar er skjal sem inniheldur alla linka inn á skjölin okkar. Hugsun mín var að allir virkir Píratar geti haft aðgengi að öllum þessum skjölum :slight_smile: Sjáumst hress á næsta fundi okkar, mánudaginn 15.03.2021 kl. 21 :slight_smile:

4 Likes

Er ekki komin tími á smá rannsókn á hvað stærri fyrirtæki, líkt og krónan td. hefur “losnað” við mikið af starfsfólki og náð sér í sjálfvirknivélkassa í staðinn? Ef það er mikið magn af starfsfólki þá er þetta stóra fyrirtæki bara að greiða eingreiðslu fyrir robotinn og engin gjöld fyrir starfsmann, þarf ekki að setja róbotaskatt í framtíðarsýnina? Það tengist hugmyndinni um grunnframfærslu fyrir alla. Ég setti inn komment í skjalið um það.
Einnig þarf að mínu mati að nefna gistináttagjöldin sem renna nú óskert til ríkissjóðs en ættu að renna til sveitarfélaga, td að fyrirmynd Noregs.

1 Like

Þetta er þróun sem við munum sjá alls staðar í samfélaginu. Róbot tekur við að hreinsa og verka fiskinn. Tækin hafa þegar breytt miklu með landbúnaðinn. Bílstjórar á leigubíla og flutningabíla verða óþarfir (kannski aðeins lengra í það miðað við íslenskar aksturastæður). Svo mætti lengi telja. Við þurfum að vera undirbúin undir þessa þróun og passa að efnahagurinn okkar séð ekki háður störfum sem munu verða úrellt.

1 Like

Ef þetta málefni er gúgglað á íslensku kemur ekkert, ef það er gúgglað á ensku kemur Bill Gates, Píratar ættu að taka þetta málefni inn í framtíðarsýn efnahagsstefnunnnar samhliða borgaralaunum, eða grunnframfærslu. Þetta er hugsanlega mál dagsins í dag, frekar en í einhverri langtíma framtíðarsýn, en að lágmarki á þetta mál að vera inn í stefnunni um rannsóknir og framtíðarsýn.

Í mínum huga er þetta eitt af þeim 3 stóru krísum sem við þurfum að takast á við á næstu árum:

 • Endurreisn efnahags eftir heimsfaraldur (og lykilorðið er ekki bara túristar)
 • Loftlagsvá - við förum að sjá fleiri og fleiri afleiðingar hennar hér
 • Sjálfvirknivæðing - þar sem störf gærdagsins eru ekki lengur til

Við þurfum því að byggja upp efnahag sem er nægilega seigur (e: resilient) að takast á við allar þessar breytingar. Við þurfum meiri fjölbreytni (ekki bara treysta á fisk, iðnað og túrista) svo að við séum ekki með öll egg í einni eða tveimur körfum. Við þurfum meiri framsýni og skilning á því hvað er að breytast og þróast svo að við séum skrefi á undan og ekki skrefi á eftir. Við þurfum líka að þróa menntakerfið til þess að vera í takt við þróunina, en ekki við hvað þurfti fyrir 10 árum. Við þurfum einnig að búa til leiðir fyrir fólk til þess að endur- eða sí-mennta sig til þess að það hafi tækifæri þrátt fyrir breytt umhverfi.

Hér eru Píratar í lykilstöðu því að við erum eini flokkurinn sem horfir fram á við og hefur fólk sem er ekki bundið í viðjum fortíðarinnar.

4 Likes

Hvað varðar sjálfvirknivæðinguna, þá er þetta eins og fleira spurningin um að sjá glasið hálftómt eða hálffullt. Hún mun nefnilega leiða til stórkostlegra framfara svo sem að:

 • stytta vinnutíma
 • losa starfsfólk sem getur farið að vinna önnur störf. Til dæmis vantar að sinna mun betur persónulegri þjónustu t.d. við aldraða, en um 25% aldraðra þjáist af þunglyndi.
 • Við hjá nokkuð vel stæðu þjóðunum getum farið að hjálpa þeim þjóðum sem vantar hjálp.
 • það verður framleiðniaukning sem mun bæta lífskjör.

Þessar framfarir eins og flestar aðrar mun bæta líf okkar hér á jörðinni.
Það er alger óþarfi að hafa áhyggjur af þessu.

Laun pr. vinnustund munu aukast. Það verður hægt að skattleggja fyrirtæki sem ganga vel vegna sjálfvirknivæðingar. Ný störf verða til og þau má greiða fyrir með sköttum osfrv.

2 Likes

Björn Leví bað um gögn frá Skattinum vegna þingmáls sem við erum að undirbúa. Niðurstöðurnar gætu mögulega nýst þessum hópi og því er hér linkur á Excel-skjal frá Skattinum.

Athugasemdir með skjalinu

Óskað var eftir upplýsingum um tekjur, persónuafslátt og vaxtaþak vaxtatekna.

Til svars erindinu eru töflurnar í hjálögðu fylgiskjali.

Tafla 1 sýnir launatekjur einstaklinga og meðalfjárhæð launatekna á hverju tekjubili. Launatekjur eru laun, hlunnindi, reiknað endurgjald og hreinn hagnaður einstaklinga með rekstur auk ökutækjastyrks og dagpeninga að frádregnum frádrætti. Þá er fjöldi launamanna tilgreindur og meðalgreiðsla á launamanna á hverju tekjubili. Framteljendur eru flokkaðir eftir heildartekjum, sem eru laun og hlunnindi, lífeyrir og greiðslur frá tryggingagreiðslur að viðbættum fjármagnstekjum, leigu, vöxtum, arði og söluhagnaði. Neðri mörk hvers tekjubils eru tilgreind í töflunni. Hjón og samskattað sambúðarfólk eru flokkuð sem einstaklingar og er fjármagnstekjum skipt jafnt á milli hvors maka. Hjón geta því verið í sitthvorum tekjuflokknum.

Tafla 2 sýnir tekjuskatts- og útsvarsstofn einstaklinga og fjölda þeirra sem voru með skattstofn á hverju tekjubili. Þá sýnir taflan einnig álagðan tekjuskatt, fjölda þeirra sem tekjuskattur var lagður á og meðaltekjuskatt á skattgreiðendur á hverju tekjubili. Til frekari upplýsingar eru útsvar, skattaafsláttur sem nýtist til greiðslu útsvars og tekjuskattur og útsvar, eða samanlagðar tekjur ríkis og sveitarfélaga af sköttunum. Tekjur ríkisins eru tekjuskattur að frádregnum persónuaflætti í útsvar. Framteljendur eru flokkaðir á sama hátt og í töflu 1.

Tafla 3 sýnir persónuaflsátt sem var til ráðstöfunar á hverju tekjubili. Þann hluta afsláttarins sem nýttist til greiðslu skatta og ónýttan persónuafslátt á hverju tekjubili. Þá sýnir taflan fjölda framteljenda sem voru með tekjuskatts- og útsvarsstofn og nýttu persónuafslátt því til greiðslu skatta sem voru lagðir á stofninn. Persónuafsláttur er að fullu millifæranlegur á milli maka og framteljendur sem misst hafa maka á árinu geta nýtt persónuafslátt makans. Hluti afsláttarins flyst því á milli tekjuhópa. Framteljendur eru flokkaðir á sama hátt og í töflu 1.

Tafla 4 sýnir heildarfjármagnstekjur, leigu, vexti, arð og söluhagnað, á hverju tekjubili og fjölda þeirra sem voru með fjármagnstekjur. Þá sýnir taflan einnig meðalfjármagnstekna á hverju bili.

Tafla 5 sýnir fjármagnstekjuskatt að frádregnum persónuafslætti sem gengur til greiðslu fjármagnstekjuskatts og fjölda þeirra sem greiða fjármagnstekjuskatt auk meðalgreiðslu á hverju tekjubili. Framteljendur eru flokkaðir á sama hátt og í töflu 1.

Tafla 6 sýnir skattskylda vexti og þann hluta vaxta sem var undir 150 þús. króna vaxtaþaki og fjölda á hverju tekjubili sem var með vexti undir vaxtaþakinu. Þá sýnir taflan meðalupphæð vaxta sem falla undir vaxtaþakið. Framteljendur eru flokkaðir á sama hátt og í töflu 1.

Tafla 7 sýnir sömu upplýsingar og koma fram í töflu 1. Tekjumörk og fjölda á hverju tekjubili.

Upplýsingarnar byggja á skattframtölum og álagningarseðlum einstaklinga og miðast þær við stöðu álagningar h. 11. þ.m. Skattar sumra framteljenda eru ekki reiknaðir í álagningarkerfi Skattsins heldur af starfsmönnum embættisins. Þessir framteljendur eru iðulega ekki með eiginlegan skattstofn og er þeim því sleppt í þessum yfirlitum. Skattar 26.554 framteljenda voru handreiknaðir í álagningu árið 2020 vegna tekna 2019 en árið áður voru skattar 28.462 framteljenda handreiknaðir.

3 Likes

Alveg sammála þér Guðjón - en það þarf að stilla hlutum upp þannig að það verði framfarir og tryggja það að fólk sé einmitt ekki hrætt við þessa þróun, heldur sjái hana sem tækifæri. Það er alls ekki þannig sem flestir flokkar ræða um 4. iðnbyltinguna…

2 Likes

þetta er nú þegar byrjað í matvöruverslunum, sjálfsafgreiðslukassarnir gera afgreiðslustarfið óþarft.

Nákvæmlega, þetta eru algjör píratamál, það er alveg hægt að sjá fyrir sér skemmtilegar lausnir, þó þetta hljómi allt frekar þunglyndislega, þetta eru jú breytingar á heiminum eins og við þekkjum hann

Því er spáð að tæknibreytingarnar muni fjölga störfum meira en hún fækkar þeim.

1 Like