Glæsilegt og tillaga Halldóru á síðasta fundi um að hafa kosningastefnuna uppsetta eftir tímabilum, þ.e. næsta ár, næsta kjörtímabil og langtímastefna er mjög sniðug.
Mínar tillögur í þetta módel af kosningastefnu sem byggir á gildandi stefnum er eftirfarandi:
Fjárlög ríkisins 2022
Ríkið sér til þess að allir sem vilja komast aftur á vinnumarkað í kjölfar COVID geti það án kerfishindrana:
- Stuðningur við atvinnulausa með því að fella niður krónuskerðingar á atvinnuleysisbótum vegna annarrar innkomu.
- Krónuskerðingar á elli- og örorkulífeyrisgreiðslum vegna annarar innkomu verða felldar niður.
Stefnt að útrýmingu fátæktar með því að lögfest verður skattfrjálst lágmarksframfærsluviðmið fyrir alla íbúa landsins til notkunar hjá hinu opinbera.
Átak verður í frumkvöðlastarfsemi og nýliðun á öllum sviðum vinnumarkaðarins (með aukningu í úthlutun strandveiðikvóta, með því Rannsóknarsjóði námsmanna verður heimilt að úthluta tvöfalt hærri upphæð, ríkissjóður greiði hluta launa hjá starfsfólki skráðra nýsköpunarfyrirtækja, ríkissjóður greiði starfstengt nám atvinnulausra … (ekki tæmandi listi).
Næsta kjörtímabil
Kolefnisbókhald og mat á umhverfisáhrifum verða órjúfanlegir hlutar af fjárlagagerð og verður ríkissjóði gert óheimilt að fjárfesta í eða styrkja ósjálfbær verkefni.
Félagsleg vernd verður endurskoðuð og einfölduð þannig að enginn fátækt verði á Íslandi og allir landsbúar eiga skilyrðislausan rétt á lágmarksframfærslu.
Ónýttur persónuafsláttur verður gerður útgreiðanlegur og ónýttur skattaafsláttur af fjármagnstekjum einnig. Mánaðarleg fjárhæð sem er greidd út til allra 18 ára og eldri, en skattaafsláttur af fjármagnstekjum greiddur árlega.
Nýta þarf reynslu af niðurfellingu krónuskerðinga úr bótakerfum, stuðningi við námsmenn og útgreiðanlegum persónuafslætti til að meta Tilraunir með fýsileika borgaralauna hefjast.
Frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun verða styrkt sem undirstaða endurbóta á atvinnuháttum og til að fjölga undir stoðum hagkerfisins. Þannig má t.d. endurskipuleggja fyrirtækjaflokka og skráningu fyrirtækja þannig að 1) lögaðilar sem teljast frumkvöðlar eða græn nýsköpunarfyrirtæki hafi sem einfaldast regluverk og greiði lága skattprósentu, 2) lögaðilar sem stuðla að nýsköpun, sjálfbærni og skapandi greinum séu skör neðar en hefðbundir lögaðilar, 3) lögaðilar sem eru í hefðbundnum samkeppnisrekstri greiði eðlilega skatta, 4) lögaðilar sem starfa í fákeppnisumhverfi séu í hærra skattþrepi, lögaðilar sem losa mengunarefni greiði sérstakan losunarskatt og 5) lögaðilar sem ekki greiða fyrrgreinda skatta sé gert að greiða 1,5% skatt af reiknaðri veltu.
Rekstrarumhverfi fyrirtækja og annarra lögaðila verður einfaldað. Skattlagning verður einfölduð og undanþágum og sérreglum fækkað. Þannig tryggjum við jafnræði í rekstri og styrkjum fyrirtæki í langtímaáætlanagerð. Einföld fyrirtækjaform hvetji til frumkvöðlastarfs, grunnrannsókna og nýsköpunar.
Lögfest verður stóraukið gagnsæi í rekstri og starfi lögaðila sem þyggja fjármagn á fjárlögum ríkisins eða fara með hlutverk samkvæmt lögum og reglugerðum, þar með talið opinber hlutafyrirtæki.
Ákveðið hlutfall skatta af rekstri og störfum fyrirtækja skulu í renna beint til þess sveitafélags þar sem starfsemi eða verslun fer fram.
Stuðningshlutverk ríkisins við einstaklinga verður fært til sveitarfélaga. En eingöngu ef nægilegt fjármagn fylgir með.
Fjölga hliðarreikninum við þjóðhagsreikninga til að ná mælanlegum árangri að innleiða öll heimsmarkmið S.Þ. með áherslu á notkun mengunarbótareglu, mótun hringrásarhagkerfis og uppbyggingu velsældarhagkerfis.
Langtímasýn Pírata í efnahagsmálum
Hagkerfið á að vinna fyrir fólk; fólk á ekki að vinna fyrir hagkerfið.
Skilyrðislaus grunnframfærsla sem leið til að stórauka sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga, en á sama tíma að útrýma fátækt og stuðla að atvinnufrelsi og búsetufrelsi.
- Rannsaka þarf til hlítar áhrif af slíkum breytingum á hagkerfið.
- Varða þarf leið frá núverandi efnahagsskipan að skilyrðislausri grunnframfærslu.
Til viðbótar við skilyrðislausa grunnframfærslu til einstaklinga verði megináhersla hins opinbera að greiða fyrir velferðarkerfið og innviði þess, auk þess að bjóða upp á hvatastyrki til einstaklinga og lögaðila til að efla frumkvöðlastarfsemi, nýliðun atvinnuvega, nýsköpun, sjálfbærni og skapandi greinar.
Örugg framfærsla og aðgengi að menntun og símenntun er grundvöllur velsældarhagkerfisins.
Einfalda skattkerfið þannig að bæði einstaklingar og lögaðilar greiði 28% skatt af allri innkomu umfram persónuafslátt. Frumkvöðlar í sjálfbærri starfsemi geta fengið frest fyrstu árin. Allir sem losa mengunarefni út í umhverfið greiða fyrir það mengunarskatt aukalega. Lögaðilum í fákeppni er gert að velja á milli þess að greiða “hvalrekaskatt” aukalega eða bjóða upp á aukið gagnsæi og lýðræðislega aðkomu fólks. Lögaðilar sem ekki greiða ofangreinda skatta vegna lagaklækja eða annarra undanbragða er gert að greiða skatt sem reiknast af veltu fyrirtækjasamsteypunnar. Lögaðilar sem ekki skila lögbundum gögnum til skattsins eiga á hættu að missa tímabundið kennitölu sína eða fá ekki nýjum kennitölum úthlutað. Stórefla þarf eftirlits og rannsóknarhlutverk RSK.