Sæl öllsömul kæru Píratar
Þá ætla ég að koma á borð með mál sem oft hefur verið rætt um, en enginn haft nægilegt hugrekki í að afgreiða á farsælan hátt, þó nokkrir hafi jafnvel reynt. Við ætlum að ræða greidda fundarsetu Framkvæmdaráðs, Úrskurðarnefndar og Trúnaðarráðs ásamt öðru.
Þeir sem þekkja mig og þekkja til minna verka vita að ég hugsa hlutina talsvert meira út frá hlutlausu sjónarhorni en vant er og út fyrir boxið. Það hefur alltaf verið ríkt í mér að sjá fyrirbærin sem til skoðunar eru frá sem flestum hliðum svo ég geti metið hvert skal stefna. Þetta viðfangsefni hér að neðan er vel skoðað en ekki nægilega mikið rætt af alvöru.
Þetta hefur fengið að malla lengi og alls ekki formleg ályktun né óhagganleg skoðun, þetta er eitt sjónarhorn af mörgum. Vonandi verður þetta til blómlegra umræðna.
Ég hef starfað í grasrótinni og fengið tækifærin til að sinna formlegri embættum á vegum Pírata síðan ca. 2016. Ég hef kunnað starfinu að mestu vel en eitt hefur mér þótt svartur blettur og neikvæður þáttur á miklum villigötum. Sjálfboðaliðar flokksins í formlegu embættunum okkar sæta ótrúlega mikilli ósanngirni í formi gríðarlegrar tilætlunarsemi flokksfélaga sinna. Ég hef tekið þátt í ýmsu sjálfboðaliðastarfi gegnum mitt líf hjá mismunandi aðilum. Það hefur gefið mér mikið að gefa vinnu mína þar sem hennar er raunverulega þörf og vitandi að maður sé að láta gott af sér leiða getur verkað sem auðlind fyrir innri vellíðan. Enn! Sú tortryggni og það vanþakklæti sem ég hef séð sérstaklega beinast að sjálfboðaliðum þeim sem sitja í formlegu embættunum okkar nær engri átt. Taki til sín sem það eiga! Það er ekki markmiðið með þessum pósti að benda á og kenna um, heldur benda á og hvað getum við gert.
Ábyrgðin er mikil og starfið mikilvægt og margt hangir á spýtunni fyrir fjölmarga. Kannski skiljanlegt að kvíði og hræðsla fólks komi fram í þessum viðbrögðum en samþykki ég svona í meðvirkni… Nei!
En hér þurfum við að staldra við og velta þessu fyrir okkur.
Ekkert er raunverulega gefið án einhverskonar þóknunar. Það er náttúrlega einstaklingsbundið hvað fólk fær í staðinn fyrir sitt sjálfboðaliða framlag. Hverjum og einum er líka frjálst að sækjast eftir því að verða sjálfboðaliði. Vitandi mögulega að um óþakklátt starf sé um að ræða, og þar af leiðandi þarf einstaklingur að gera upp við sig hvað hann fær út úr starfinu. Þetta vitum við.
Fyrir mig hefur þetta tengst langtíma plani og þá út frá stóru myndinni að Píratar séu, og haldi áfram að vera mótvægi við þau pólitísku öfl sem mér eru ekki að skapi og mér hugnast ekki að hafi of mikil völd. Ég hef í raun sáralítinn áhuga á almennri pólitík enda þykir mér hún ekkert sérstaklega áhugaverð og þurr. Ég tek þátt vegna framtíðarinnar. Píratar eru hvatinn sem ég tel enn sem komið er best til þess fallinn að hræra vel upp í íslensku spillingar- og valdasúpunni.
Það fólk sem ég hef unnið með svo sem í framkvæmdaráði eru gott fólk komið til að vinna og vill gera það vel. Eftir allt saman hefur það fengið umboð til þess gegnum formlegt eftirlitskerfi og kosningar. Forsendurnar eru samt sem áður misjafnar af hverju fólk tekur þátt og það tel ég mannlegt. En mér finnst ekki eðlilegt að setja þetta þannig upp að ef þú býður þig fram í nokkra mánaða þrældóm þá “gæti” það orðið til þess að sá hinn sami hafi meira vægi í komandi prófkjörum.
Ég held það væri eðlilegast að velja vel inn í ráðið út frá hæfni, menntun, hæfileikum og samskiptasögu, breyta lögum þannig að þeir sem fari í ráðið geti ekki boðið sig fram í prófkjörum út tímabilið sem þeir skuldbinda sig og fundarseta sé greidd með einhverjum hætti. Þetta eitt og sér myndi verða til meiri stöðugleika í ráðinu. Hér er um að ræða ómótaða hugmynd þannig ekki oftúlka það sem ég er að fara. Frekari umræðna er þörf á þessu.
Hvað sem verður um þessar formlegu einingar í komandi skipulagsumræðum þá er eitt ljóst! Hér þarf aðlögun og við verðum að bregðast við! Hvernig massinn hegðar sér gagnvart þessum sjálfboðaliðum er óeðlilegt og okkur ekki til sóma og í raun smánarblettur á því góða starfi sem verið er að vinna. Þetta þarf náttúrulega að laga og vonast ég til að það takist með tíð og tíma. Við þurfum að sameinast til að það takist!
Það sem mig langar að benda á í framhaldinu á þessu hefur að gera með skilgreininguna á hvað sjálfboðaliðastarf felur í sér og hvað ekki. Þó fyrir mér sé þetta mjög skýrt huglægt mat út frá fyrri störfum væri gott að ræða þetta. Seta í Framkvæmdaráði, Úrskurðarnefnd og Trúnaðarráði felur í sér mikla og oft sérhæfða vinnu og talsverðar fórnir á ýmsum stigum. Fólk hefur eðlilega misjafnar skoðanir á þessu en mér telst til að hér sé ekki um eðlilegt sjálfboðaliðastarf að ræða. Heldur sé verið að fela þá staðreynd að hér er fólk í vinnu sem enginn vill að þau fái greidd fyrir. Allt útfrá því að einhver “gæti” verið spilltur. Þetta er náttúrulega rétthugsun og sjálfsagt virðist vera að maður gefi vinnu sína og hjá Pírötum fái óhóflega mikla og ógagnlega gagnrýni í staðinn. Þeir sem sinna þessum hlutverkum skulu ekki sýna væntingar eða voga sér að eiga það sem þeir hafa gefið. Það má ekki vera merkilegt fyrir mann að sinna svona embætti né skal það leiða til forskots á neinum vettvangi innan Pírata. Dæmi eru um að fólk hafi gefið gríðarlega mikið af sér í formi vinnuframlags og persónulegra fórna, mögulega með glætu af von um smá viðurkenningu eða þakklæti en ekki fengið og hræðslan keyrt þetta fólk í þrot þegar það gat ekki gefið meir. Seint verður það álitið eðlilegt eða mannsæmandi að þykja sjálfsagt að aðrir fórni sér með þessum hætti fyrir málstaðinn, sérstaklega ef það á síðan að baktala og grafa undan fólki í ótta við að einhver hafi nú mögulega eitthvað forskot á eitthvað. Common kæru Píratar!
Ég tel að vanmáttur fólks yfir eigin aðstæðum, frekja, tilætlunarsemi og mannvonska komi hér inn sem áhrifavaldur ásamt öðru svo sem Facebook sem saman mynda þessa róstusömu undiröldu. Ofsahræðsla og oftúlkun Pírata við sitt innra valdsvið er að skaða innviðina okkar og hefur alltaf gert. Stýrandi hugmyndafræði sem á að parti tilurð sína í popúlískum hugmyndum þess tíma er hreyfingin hóf áhrifaferil sinn.
Fjölmörg fordæmi eru fyrir greiddri fundarsetu ráða, nefnda og stjórna og í raun óeðlilegt þegar ferill Pírata er skoðaður með vexti flokksins og umsvifum að þetta hafi ekki verið sett á laggirnar hjá okkur. Óvinirnir eru víða og sumir virðast sjá þá alls staðar jafnvel í eigin flokksfélögum en á meðan sækja okkar pólitísku óvinir sem eru margir í sig styrkinn. Við græðum ekkert á því að tortryggja hvert annað. Leyfum fólki að gera mistök og læra á þeim ekki taka frá þeim þann lærdóm með fordómum og persónulegu niðurrifi.
Ég myndi styðja alla þá sem vilja koma að lagabreytingum sem fela í sér að sjálfboðaliðastörfin verði skilgreind, aðgreind og þau þeirra sem fela í sér umfangsmikla ábyrgð og vinnu verði losuð frá sjálfboðaliða menginu. Og því verði komið við að þau verði greidd með einum eða öðrum hætti.
Í þeirri sviðsmynd þegar Framkvæmdaráð er skoðað allt frá 2015 hefur seta í ráðinu í raun verið tímabundin þrældómur hvers og eins sem þangað fer, og verra er að hve mörg koma þaðan út útbrunnin og mannorðsbrottin.
Við þurfum að fara taka þetta á hærra stig. Vaxa úr grasi og nýta þá hæfileika sem við höfum aðgang að. Styðja við félaga okkar og leyfa hvert öðru að dafna. En til að hámarka framleiðni og á sama tíma brenna fólk ekki út heldur halda í þekkingu og þjálfum, þurfum við að fara greiða fyrir það sem réttilega á að greiða fyrir.
Ég tel hreyfinguna vera nota fólk og þar af leiðandi í andstöðu við grunnstefnuna okkar. Píratar sem hópur hafa áralanga dulda hefð fyrir að beita þessa tilteknu sjálfboðaliða sína ofbeldi í einu formi og öðru. Þóknunin fyrir fórnir þessara einstaklinga eru síðan oft greiddar út í meinyrðum og baktali. Viljum við hafa þetta svona?
Mögulega er um afmarkaðan hóp fólks að ræða, ég hef ekki skoðað það sérstaklega þannig ég er ekki mjög meðvitaður um hverjir séu gerendur. Enn ef svo er þá þykir mér mjög miður að tiltæk lagaleg tól geri ekki ráð fyrir þessu og það sé ekki hægt að reka fólk úr flokknum. Já ég tel það ætti að vera tól til þess. Hvert það tól ætti að vera er ég ekki bestur til að kveða á um enda fullfrískt fólk með siðfræði- og lagagráður sennilega best til þess fallið.
Nú tel ég líklegt að margir dæmi mig enda ekki vinsælt umræðuefni: Greidd nefndarseta og leiðir til að reka fólk úr flokknum! 100% mín afstaða. Hlakka til að sjá ummælin hér að neðan. Sumir munu vinna að lausnum meðan aðrir eru uppteknir við niðurrif.
Ég bauð mig fram síðast í framkvæmdaráð því ég taldi mína hæfileika geta nýst flokknum á þeim tímapunkti. Ég hef starfað í einlægni og heiðarleika gert mitt til að reyna koma á betri menningu. Ég er mjög stoltur af ráðinu og stoltur af minni vinnu. Ég á mína vinnu og hún hefur verið Pírötum til góða. Ýmislegt gerðist sem ekki var séð fyrir með góðu móti og þurfti talsverðar útsjónarsemi og talsvert vinnuframlag til að tækla. Ég hef gert mitt til að stuðla að betri samskiptahefð sem og efla það sem við höfum. Enn ég er bara einn einstaklingur, þó skrefin séu smá er hvert skref í rétta átt gott skref þó lítið sé.
Ég hafði íhugað að bjóða fram krafta mína aftur í starfið mögulega væri þeirra þörf og skráði mig til leiks en eftir talsverðar vangaveltur um það dróg ég aðeins í land. Langar mig til þess? Við óbreytt ástand þá er svarið nei. Þannig ég mun ekki bjóða krafta mína fram aftur nema mögulega nægilegur fjöldi einstaklinga sýni hér hugrekki áhuga til að ræða þessi mál. Þá er ég sérstaklega að tala um greidda fundarsetu Framkvæmdaráðs og hinna tveggja formlegu eininganna.
Þar sem ég er ekki stjórnmálamaður né hugsandi í þá áttina fyrir sjálfan mig fannst mér ekki koma að sök þótt ég myndi beita mér með þessum hætti. Ég hef fengið varnar orð nokkrum sinnum þegar ég viðra þessar skoðannir. En þar sem ég er ekki að byggja upp pólítískan feril sé ég ekki að það skipti máli. Það sem skiptir máli fyrir mig er stóra myndin.
Ég trúi því að þetta sé boðskapur sem eigi erindi og þarft sé að ræða. Það skiptir mig miklu máli að við vinnum faglega, gætum meðalhófs og í eins mikilli sátt við hvert annað og mögulegt er. Maður kemur í mans stað heyrði ég einhverstaðar.
Ég vona að þetta verði til umræðna og það leiði síðan í kjölfarið til afgreiðslu á niðurstöðum. Við getum betur og Píratar þurfa að stigna upp á við hvað innvortis skipulag varðar og hætta þessum barnaskap.
Það er fullkomlega eðlilegt að greiða fyrir fundarsetu og við ættum að fara þá leið.
Styðjum við sjálfboðaliðanna sem halda þessu gangverki uppi. Fólk er öflugra í starfi og leik með stuðningi. Ekkert okkar græðir raunverulega á niðurrifi.
Saman gerum við heiminn betri…
Bestu kveðjur,
Jónas Lövdal
Framkvæmdaráð, Febrúar til Ágúst 2019