Hægri- og vinstrisinnaðir Píratar

(Með fyrirvara: Hægri og vinstri eru bæði óljós og víðfemd hugtök sem fólk leggur verulega ólíkan skilning í. Hér er reynt að nota hugtökin í „common sense“ skilningi, þ.e. eins og flestir skilja þau á Íslandi og í dag, án tillits til fræðilegra og sögulegra skýringa og skilgreininga.)

Leyfið mér að reyna að sprengja ákveðna blöðru sem mér finnst hafa fengið aðeins of mikið loft síðustu örfá ár.

Píratar eru hvorki hægri- né vinstriflokkur og allt í góðu með það. Það hefur hinsvegar verið sérstakt kappsmál hjá Sjálfstæðisflokki að stimpla okkur sem vinstriflokk til þess að stilla sjálfum sér upp sem eina valkosti hægrimanna. Hann hefur reyndar jafnvel reynt að stilla Viðreisn upp sem vinstriflokki, í sama tilgangi. Miðflokkurinn reynir náskylda taktík, að stilla sjálfum sér upp sem eina valkostinum á móti öllum hinum, sbr. arfalélegri ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þar sem hann kallar okkur hluta af hinum flokknum, „samtryggingunni“.

Munurinn er samt sem áður sá að Sjálfstæðisflokki virðist ganga ágætlega að stilla okkur upp sem vinstriflokki í augum hægrimanna sjálfra, sem mér finnst mjög slæmt. Eitthvað af þessu á sér eflaust flokkssögulegar skýringar, annað er áróður Sjálfstæðisflokksins og eflaust er enn eitthvað af því einkenni þess að flokkar sem hvorki eru til hægri né vinstri verða alltaf of vinstrisinnaðir fyrir suma hægrimenn og of hægrisinnaðir fyrir suma vinstrimenn.

En mér finnst við þurfa að ræða þetta bara svolítið opinskátt. Erum við öll á þeirri skoðun að Píratar eigi að rúma sjónarmið bæði til hægri og vinstri? Eru vinstri- og hægrisinnaðir Píratar reiðubúnir til að bjóða málflutning hinnar hliðarinnar velkominn, eða er eitthvað í grunnstefnunni okkar sem dregur okkur í aðra áttina? Erum við öll reiðubúin í þann kúltúr sem þarf að vera til staðar til þess að sjálfskipaðir „hægrimenn“ og „vinstrimenn“ geti starfað saman í þágu sömu grunnstefnu?

2 Likes

Já sjálfstæðismenn eru alltaf að reyna að láta eins og þeir séu hægri menn, en þeir eru það ekki neitt.

Það er bara þannig að það er stundum best að láta frjálsan markað ráða, en stundum er betra að ríkið skipti sér að með einhverjum hætti. Það þarf alltaf að skoða þetta hverju sinni.

2 Likes

Það er nú mergur málsins, að vinstri/hægri skalinn er gríðarleg ofureinföldun. En það sem ég er kannski helst að velta fyrir mér er hvort Pírötum sem sjálfir segjast vinstrisinnaðir þykir Píratar sem sjálfir segjast hægrisinnaðir, eða öfugt, vera einhvern veginn ekki nógu miklir Píratar, eða á skjön við grunnstefnuna eða eitthvað þannig.

Þetta virkar kannski sem grunnhyggin spurning út frá því sjónarmiði sem þú nefnir réttilega, en við erum klárlega með sýnilega vinstrisinnaða Pírata á meðan við erum ekki svo klárlega með sýnilega hægrisinnaða Pírata, en það var ekkert alltaf þannig. Það var allnokkuð af sýnilega hægrisinnuðum Pírötum á sínum tíma, en tilfinningin sem almenningur fær í dag er sú að hægrisinnuð sjónarmið séu á einhvern hátt óvelkomin, sem fælir burt fólk sem á allan hátt aðhyllist grunnstefnu Pírata og smellpassar við flokkinn nema að því eina leyti að það telur flokkinn til vinstri en sjálft sig til hægri. Mér finnst það vond ástæða fyrir því að við missum af góðu fólki.

Ef ég þyrfti að skilgreina sjálfan mig á þessu litrófi, sem ég tel reyndar úrelt, væri það sennilega “frjálslyndur og framfarasinnaður miðjumaður”, en það getur líka verið misjafnt eftir málaflokkum.

En ég er sammála hægrimönnum um að of margir vinstrimenn séu í flokki Pírata. :wink:

Það finnst mér áhugavert orðaval. Viltu þá að færri vinstrimenn séu í flokknum? Eða að þeir meðlimir sem kalli sig vinstrisinnaða séu opnari fyrir sjónarmiðum utan hins s.k. vinstris? Það er ákveðinn grundvallarmunur þarna á. Sjálfur vil ég bara hafa sem mest af hvoru tveggja, alls þess á milli og alls þess utan.

2 Likes

Ekkert endilega og ég vil taka skýrt fram að mér finnst ekkert að því að hafa fólk úr öllum áttum í flokki eins og Pírötum, til þessa að brjóta upp hið hefðbundna hægri/vinstri mynstur og bjóða upp á valkost fyrir þá sem telja sig ekki falla inn í þau fyrirframgefnu box sem þar eru fyrir hendi.

Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að í Pírötum séu allt of margir sem ættu frekar að vera í Samfylkingunni eða Viðreisn heldur en flokki sem er ekki með ESB-aðild á sinni stefnuskrá. Þetta ástand tel ég vera vatn á myllu þeirra sem þykir hentugt að halda því fram að Píratar séu eitthvað annað en þeir eru.

Já og nei. Mér finnst vera munur á hvort Píratar rúmi sjónarmið bæði hægri og vinstri eða hvort hlustað sé á röksemdir beggja fylkinga. Píratar eiga að rúma þau sjónarmið sem eru best fyrir sem flesta en ekki sjónarmið flestra. Rökræður byggðar á staðreyndum og vísindum eiga að móta sjónarmið flokksins þar sem engu máli skiptir hvaðan þau sjónarmið koma.

Fyrir mitt leyti: Já að sjálfsögðu. Almennt tel ég að 1. kafli grunnstefnu Pírata dragi okkur í báðar áttir en það fer eftir hverju máli fyrir sig í hvora áttina það er.
Hægri stefna Sjálfstæðismafíunnar hefur mótað samfélagið allt of mikið síðustu áratugi enda hafa þeir nær alltaf verið við völd. Vegna þess þá er hægt að færa rök fyrir því að Píratar séu meira til vinstri þessa dagana því þessi hægri stefna er komin út í óefni. Ef vinstri blokk pólitíkarinnar hefði verið við völd allann þennan tíma þá væru Píratar meira til hægri fyrir að reyna að sporna við þeirri óvegferð. Svo ég tel það fara eftir pólitísku landslagi hverju sinni hvort að Píratar séu meira til hægri eða vinstri. Ef valdið er til hægri þá eru Píratar til vinstri og öfugt því það besta er stundum til hægri, stundum vinstri og stundum einhversstaðar þar á milli.

Fer það ekki bara eftir því hvernig sá kúltúr er í hverju máli fyrir sig? Ef þú átt við til að málamynda við aðra flokka í samstarfi í ríkisstjórn, þá myndi ég segja já enda krefst slíkt samstarf alltaf málamiðlana.
En ef þú átt við hægri og vinstri manna innan Pírata, þá segi ég nei því hvað er best að gera fyrir flesta helst ekkert í hendur við málamiðlanir skoðana hægri og vinstri. Það sem er best að gera er það sem er best útfrá vísindalegum niðurstöðum, staðreyndum og rökræðum út frá þeim. Ekki á að málamiðla innan flokksins ef það svertir bestu niðurstöðuna bara til að halda í eitthvað fólk. Til eru aðrir flokkar sem það fólk gæti kannski samsvaraði sér betur við, fólk sem vill ekki það besta fyrir flesta.
Eftir því sem fleiri koma saman verður einfaldlega erfiðara að gera öllum til geðs. Sjálfur er ég t.d. ekki sammála öllu sem Píratar gera en þó flestu og enginn annar flokkur kemst nærri því eins nálægt minni sannfæringu og Píratar gera. Þess vegna er ég Pírati og það er ég sjálfur sem þarf að málamiðla við flokkinn í þeim málum sem ég er ósammála en flokkurinn ætti aldrei að málamiðla við mig persónulega. Ekki nema bara kannski ef ég gæti sýnt fram á staðreyndir og vísindalegar niðurstöður máli mínu til stuðnings og þá eftir rökræður út frá þeim gögnum.

Getum við ekki orðið okkur út um eintak sem vill koma í pírata en hættir svo við því þeir þykja svo vinstrisinnaðir. Þá getum við talað við viðkomandi og áttað okkur betur á því hvað er að gerast.

Það væri kannski hægt að taka fram einhversstaðar hjá flokknum (stutt og hnitmiðað), hvernig píratar líta á sjálfan sig hvað varðar þetta mál. Hvort þeir líti á sig sem hægri eða vinstri eða hvað.

Ég tel að við getum dýpkað samskilning á píratisma og bæði dregið fram og brúað gjár með því að ræða þetta opinskátt og er þakklát fyrir þetta innlegg.

Sjálf er ég að meðal annars (ég er líka margt fleira) vinstrisinnuð, þar sem mér finnst almennt meiri kærleikur þar í garð náungans (þó ekki alltaf), ég er líka frjálslynd, hlynnt einkaframtaki og vil að einstaklingar ráði sem mest sjálfir yfir sér og sínum högum svo fremi sem þeir valda ekki skaða á öðrum. Ég vil ekki að einstaklingar ráði yfir öðrum einstaklingum, þetta er útópísk sýn og óframkvæmanleg en ég kýs að hafa hana alltaf í huga sem erkitýpu, eitthvað sem stefna beri að. Samræða og ferlar sem styrkja hana er nokkuð sem mér er mjög annt um. Ég vil raunverulega ekki að önnur séu eins og ég og tel að einsleitni sé verkfæri andskotans.

Ég er Evrópusinnuð og alþjóðasinnuð, þetta tvennt núllar ekki hvort annað út þrátt fyrir vaxandi fasisma. Ég elska líka landið mitt og þjóðina, söguna, tungumálið og menninguna og skil ekki þessa minnimáttarkennd og/eða andúð gagnvart því að elska sitt eigið land, það er hvorki ómerkilegra né merkilegra en önnur lönd, bara öðruvísi og ég ólst upp þar og elska það. Að elska eitt þýðir ekki að hata annað en mér finnst að við eigum sem flest að fá tækifæri til að upplifa að vera gestur, innflytjandi, með því að búa í öðru landi eða löndum þar sem við skiljum ekki tungumálið.

Ég er líka (og fyrst og fremst femínisti) og hef þá trú að við verðum að ná fram raunverulegu jafnrétti kynjanna á heimsvísu til þess að yfirhöfuð eiga heim til að lifa á. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Ég er líka þeirrar trúar að nýfrjálshyggja hafi lagt flest í rúst sem hún óð yfir með eldibrandi sínum og líf, heilsa og auðna fjölda fólks liggi í valnum af þeim sökum, ekki síst þeirra sem eiga um sárt að binda og/eða þurfa á almannaþjónustu að halda.

Ég er líka þeirrar skoðunar að við neyðumst til, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að smíða ný hagkerfi - sem mér finnst líklegt að þurfi í senn að hafa einkenni deilihagkerfis, sósíalisma, einkaframtaks, femínisma og píratisma til að verða lífvænleg, og ekki síst lýðræðis og samvinnu.

Ég er pírati af því að ég er pönkari. Ég er pírati af því að ég er aðgerðasinni. Ég er pírati af því að ég er óvægin í gagnrýni á kerfið og vil að það vinni fyrir okkur en ekki fyrir sig. Ég er pírati af því að ég er á móti spillingu og samþjöppun valds og tel að þetta hafi leitt okkur í þann vanda sem við erum stödd í i dag. Ég er pírati af því að ég vil að öll blómin fái að blómstra, ekki bara þau sem eru alveg eins og ég. Ég er pírati út af lýðræðisást (eiginlega lýðræðisfíkn ) og ást á borgarréttindum. Ég gef ekki skít í hægri/vinstri, þarna eru raunverulegir og áþreifanlegir múrar á milli og andstæður, en það er bara ekki fókus okkar pírata, og við eigum að mínu mati ekki að leyfa honum að verða það.

Á ég heima í pírötum? Já. Hef ég fundið heimili þar sem mér líður vel? Stundum, stundum ekki eins og er eðlilegt í stjórnmálahreyfingu þar sem samræða er í hávegum höfð, umfram kerfislæga tilskipun að ofan um að öll séum við sammála, órofa heild.

2 Likes

Það þarf að kynna betur fyrir fólki hver hugmyndafræði Pírata er. Ég held að almenningur líti á hugtakið sem hálfgert grín-hugtak í stað þess að sjá það sem nafn yfir stjórnmálastefnu. Allir skilja að íhaldsmaður er eitthvað ákveðið og sósíalisti eitthvað ákveðið.

Svo ég held að Kristín Efla sé með þetta, við þurfum að dýpka samskilning á Píratisma. Þannig að fólk átti sig á því að það sé stefna og að segja: Ég er Pírati, felur í sér líka sögu og hugmyndir eins og að segja Ich bin Jafnaðarmaður.

2 Likes

Ef markmiðið er samt að halda í Pírata sem hafa skoðanir sem eru í minnihluta, þá þurfa atkvæði í prófkjörum að skila sér hlutfallslega, í stað þess að meirihlutinn einn ráði frambjóðendum. Það skilar frambjóðendahóp með fjölbreyttari skoðanir á málefnunum sem varða Píratisma ekki sérstaklega en allir láta sig samt varða. En hvað, nákvæmlega, er þá verið að bjóða almennum kjósendum? Jú, stefnuna sem sameinar okkur.

Ég hugsa að Píratar geti unnið grunnstefnunni brautargengi þrátt fyrir málefnalegan ágreining í veigamiklum málum, jafnvel þegar hann er af djúpstæðan siðferðilegan toga. Það krefst hins vegar natni, aðgát og eljusemi. Dæmi: sumir Píratar “berjast” af miklum “kærleik” fyrir aukinni skattheimtu. Öðrum finnst ljótt að ræna. Sumir standa með ósjálfráðri tilfinningu, aðrir velta hvorri hlið vandlega fyrir sér en næstum allir komast að svipaðri niðurstöðu. Það eru ekki nema svona fimmhundruð Íslendingum sem finnst algert skattfrelsi betri tilhugsun en nokkur skattur og þeim er dreift niður á fimm flokka sem allir eiga sæti á þingi og í sveitarstjórn. Þar á meðal á Pírata, sem aftur virkar fælandi á allra skattglöðustu Íslendinga, sem halda sig frekar Samfylkingunni, því það sparar natni, aðgát og eljusemi í samskiptum. Eða frestar henni öllu heldur fram að Alþingi, sveitarstjórnum, ráðuneytum, samtökum og öðrum vangi ákvarðana. Natni, stöðug aðgát og eljusöm samskipti eru nefnilega ekki fyrir alla. Svo að já, Píratar geta verið breiðfylking, en munu aldrei rúma heila þjóð. Því það vill ekki öll þjóðin vera í breiðfylkingu. En á Píratar með sjaldgæfar skoðunir enda ekki uppi á framboðslistum í hlutfalli við fjölda, þá er lítil ástæða fyrir gras þeirra til að festa rætur.

Ég er ekki að tala um málamiðlanir í sjálfu sér, heldur hvort að vinstrisinnuðum Pírötum þyki það vera vandamál að hægrisinnaðir Píratar starfi innan flokksins, eða öfugt. Er vinstri/hægri ágreiningurinn slíkur að fólk sem telur sig í aðra áttina telji flokkinn skaðast beinlínis með því að umbera of mikið fólk hinu megin á ásnum?

Svo er hitt að vísindalegar niðurstöður, staðreyndir og rökræður útiloka á engan hátt þörfina fyrir málamiðlanir í pólitík, langt út fyrir hægri/vinstri ásinn.

Tjah… kannski ekki beinlínis markmið að halda í Pírata með minnihlutaskoðanir, en Píratar verða samt, allavega að mínu mati, að minnsta kosti að rúma hvort tveggja sjálfskipaða hægrimenn og vinstrimenn, og þeir þurfa að geta unnið saman að málefnum sem leiða út frá grunnstefnunni, án þess að reyna markvisst að bola hvorum öðrum í burtu.

Við getum ekki hafnað vinstri- og hægriskalanum en á sama tíma látið það viðgangast að ýmist vinstrimenn eða hægrimenn upplifi sig óvelkomna vegna hins hópsins. Ef staðan á að vera þannig að hægri- eða vinstrimenn þyki einhvern veginn minni eða verri Píratar, þá ættum við bara að kalla okkur annaðhvort hægri eða vinstri. Ef við viljum hafna ásnum, þá segir það sig sjálft að hvort tveggja hægri- og vinstrimenn verða að rúmast innan flokksins.

Þar held ég nefnilega að þú hittir naglann á höfuðið. Þetta gerist ekki af sjálfu sér, heldur einungis ef við ákveðum, sameiginlega, að við ætlum að láta samstarf vinstri- og hægrimanna ganga upp, og láta það ekki vera merki um einhverja hnignun að vera ósammála um t.d. skattheimtu, þar sem annað sjónarmiðið verður ofan á og hitt undir, eða málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða er náð, sem að mínu mati er reyndar óhjákvæmileg niðurstaða í skattamálum og ekki bara í okkar flokki.

Mér finnst afar óljóst hvar þú stendur í þessum málum.

Ég tel að skattheimta geri meira ógagn en gagn. Hún torveldar almenningi tekjuöflun, viðskipti og að það að eiga þak yfir höfuðið. Opinber ráðstöfun fjár bætir óþörfum þriðja aðila inn í ýmsa starfsemi sem tefur og flækir til þess eins færa vald frá hlutaðeigandi og til Reykjavíkur. En það mikilvægasta er að afla samþykkis. Þess vegna er hópfjármögnun falleg, en nákvæmlega sama fjársöfnun í formi skattheimtu á ósamþykka bryti gegn réttindum viðkomandi.

Þetta var kaldhæðni, en takk fyrir skýringuna. :smiley:

Mér finnst þetta áhugavert og væri til í að heyra meira.
Og þegar ég hugsa meira út í þetta, þá væri ég til í að sjá hvar allir/margir Píratar standa almennt í ýmsum málefnum.
Ættum við Píratar að halda úti vefsíðu þar sem okkar persónulegu skoðanir (þeirra sem vilja) eru settar fram? Svipað og síður sem birtast oft fyrir kosningar til að bera saman frambjóðendur.

Við gætum auðvitað sjálf ráðið hvaða mál við látum inn og raðað ofar þeim málum sem skipta okkur meira máli osfrv.

Frambjóðendur og ekki-frambjóðendur gætu uppfært sjálfir þegar þeim sýnist. Líklega væri auðkenning í gegnum kosningakerfið besta leiðin.

Dæmi:
Mér þætti t.d. áhugavert að sjá hvað einhverjum 100-500 Pírötum finnst um skattþrep, en ég veit ekki um neina þægilega leið til að afla þeirra upplýsinga.

Þannig gætum við auðveldlega séð hvort margir sé “hægri” eða “vinstri” í ýmsum málum, sem er skemmtileg greining að mínu mati.

1 Like

Ég fagna þessum þræði og þakka fyrir hann. Mér finnst mikilvægt að Píratar rúmi ólík sjónarmið en hef upplifað meiri og meiri þrýsting í þá átt að taka undir mikið af því sem er oft metið sem vinstristefna. Líklega hefur það gerst í kjölfar stofnunar Sósíalistaflokksins. Sjálf er ég algjört mix af sjónarmiðum og vil fá að vera það.

Eitt af því sem ég kunni vel við þegar ég kom inn í flokkinn var stefnan um að vera opin fyrir mismunandi rekstrarformum. Ég upplifði að Píratar stæðu með tilverurétti sjálfstæðra skóla og jafnrétti til náms óháð rekstrarformi en með auknu valfrelsi. Við endurgerð stefna hefur þessi punktur horfið svolítið út svo ég sakna umræðunnar.

Ég væri líka til að opnari umræðu um krónur og aura í tengslum við rekstrarform heilbrigðiskerfisins, sem dæmi, án þess að ég hafi gert mér upp skoðun hvað það varðar því mig vantar hreinlega upplýsingar og upplýsta umræðu. En ég upplifi það vera algjört tabú að svo mikið sem vekja máls á þessu málefni sem er miður.

3 Likes

Okei sko…

Það sem okkur “finnst” vera hægri og vinstri er oft ekki það sama og öðrum “finnst” vera hægri og vinstri, þannig að þessi hugtök eru mér ögn erfið, en þrátt fyrir það þá útfrá þekktum kenningum og breytum og skilgreiningum þá telst ég víst vera svo andskoti vinstrisinnaður að hið hálfa væri nóg.

Samt er það sem gerir mig mest pírata af öllu sem ég er sú einfalda hugsjón að ég styð frelsi einstaklingsins umfram margt annað.

Vandamálið sem kemur fram er þegar við tölum um hvernig sé best að standa vörð um frelsi einstaklingsins.

Þegar sumir tala um einstaklingsfrelsið og mikilvægi þess að auka það þá hugsa þeir um skattheimtu og eignarréttinn fyrst og fremst.
Ég, sem fátækur einstaklingur, sem öryrki, sem hinsegin einstaklingur, finn fyrir öðrum frelsishömlunum en þeir sem hafa það fjárhagslega ágætt, eru fullfrískir, og eiga eignir.

Það sem skerðir mitt frelsi er ekki endilega það sama og skerðir þitt frelsi.

Það eru til manneskur í þessari veröld sem að bókstaflega telja það mikilvægt mannréttinda og einstaklingsfrelsismál að hafa frelsið til þess að hefta frelsi hinsegin fólks, fátækra, öryrkja, og annara þegar jaðarsetta einstaklinga.

Þegar maður mótmælir slíkum hugsjónum þá er maður almennt flokkaður lengst til vinstri.

Og um leið og maður er flokkaður lengst til vinstri þá eru manni ætlaðar allskonar skoðanir í fylgd með þeirri flokkun.

Hinsvegar, ef maður segir “ég styð persónufrelsi” og/eða “mér þykir einstaklingsfrelsið gríðarlega mikilvægt” þá um leið er maður flokkaður lengst til hægri og ætlaðar allskonar skoðanir í fylgd með þeirri flokkun.

Þannig er ég flokkaður bæði sem öfgahægri og öfgavinstrimaður af mismunandi fólki, sem þýðir að ég vill hækka og lækka skatta, stóra bróður og lögleysu, einkavæða alla innviði og ríkisreka allt, og svo framvegis og svo framvegis… allt í augum annara.

Það þýðir að ég er bæði þessi vinstrimaður og hægrimaður í augum þeirra sem finnast píratar of vinstri og of hægri.

Og hvað pirrar mig? Hverjum finnst mér ofaukið innan pírata?
Þeim sem að byggja stjórnmálalegar skoðanir sínar á tilfinningum fyrst og fremst og geta ekki drullast til þess að lesa sér almennilega til um áhrif þeirra stefna (innanlands og utan) sem þeir vilja helst sjá okkur framfylgja.

Seriously guys… Do More Research!

Flokkurinn er ekki til hægri eða vinstri. Fólkið í honum getur hins vegar verið það og það er mjög ríkið í mörgum að reyna að búa það til sem varanlegan stimpil ef þau þykjast sjá tiltekna slagsíðu.

Það er hins vegar gömlu pólitíkinni mjög mikið í húfi að stimpla alla hægri eða vinstri, og það er bæði gert af því það er taktík, en LÍKA af því þau hugsa mörg hver raunverulega þannig og geta ekki skilið að einhver skilgreini sig ekki raunverulega þannig og líður eins og þau séu að koma upp um undanbrögð.

Margir kjósendur hugsa raunar líka svoleiðis.

Ég kemur mér oft aðeins undan þessu með því að tala um andstöðu sjálfstæðisflokksins við umbótasinna og vinstrimenn,t .d.

Lykilatriðið er samt að þó við getum haft stefnumál sem merkja má sem vinstrisinnuð eða hægrisinnuð, og jafnvel fólk sem merkja má (eða merkja sig jafnvel sjálf) mis hægri eða vinstri, þá er flokkurinn ekki myndaður í kringum þann ás. Píratar sem flokkur geta flakkað mis mikið til hægri eða vinstri eftir tíðaranda og hverjir eru í honum hverju sinni, ekkert í grunnstefnunni kemur í veg fyrir það. En grunnstefnan hins vegar kemur í veg fyrir það að flokkurinn flakki nema mjög takmarkað á frjálslyndis/stjórnlyndis ásnum.

Og það er einfaldlega eitthvað sem fólk á erfitt með, sérstaklega af því flokkar báðu megin á hægri vinstri hafa frjálslyndi sem hluta af sinni sjálfsmynd. (með mis-mikilli innistæðu), og vilja kalla það hluta af sínu hægri/vinstri og leggja ásana saman, en eru ekki sammála hvor öðrum um það í hvora áttina á að leggja hann (af því þetta er annar ás, eins og gefur að skilja)

Undir lok seinni heimstyrjaldarinnar var á Íslandi ríkisstjórn þar sem “hægri” og “vinstri” hliðar stjórnmálanna unnu saman að þeirri nýsköpun sem gjarnan hefur verið talin hafa dregið landið inn í hóp þróaðra ríkja. Þarna komu saman ólíkir heimar hugsjóna sem unnu að því í sameiningu að takast á við eitt mest krefjandi verkefni sem íslensk þjóð hafði þurft að takast á við.

Afi minn, Einar Olgeirsson, hélt eina af sínum þekktu eldræðum eftir stofnun þessarar ríkisstjórnar þar sem hann sagði meðal annars:

“En ef við hins vegar förum nú að berjast af öllum mætti innbyrðis … þá verður lítið sem ekkert af þessu framkvæmt nú á næstunni …. Og glæsilegasta tækifæri sem Ísland hefur haft til að verða atvinnulega sjálfstætt og velmegandi þjóðfélag væri glatað.”

Þarna komu saman aðilar sem höfðu ólíkar hugsjónir en fundu samleið til þess að vinna að bættu þjóðfélagi. Fyrir mér eru Píratar sá stjórnmálaflokkur á Íslandi sem kemst næst þessari hugsjón um að vinna saman að því sem bætir okkar þjóðfélag. Hreyfing nýsköpunnar í víðasta skilningi þess orðs.

Hér geta saman komið fólk með ólíkar hugsjónir (eins og vel kemur fram í fyrri ummælum) sem finnur hvað það á sameiginlegt og finnur leiðir til þess að vinna saman og finna sameiginlega stefnu sem er til góðs fyrir alla.

Verandi barnabarn tveggja stjórnmálamanna, sitt úr hvorri áttinni (kommúnisti og sjálfstæðismaður), upplifði ég þessa afa mína vinna saman að heillindum, nokkuð sem ekki hefur sést í stjórnmálum í langan tíma.

Ég fann fyrir vonarglætu fyrir síðustu kosningar að Píratar væru hreyfing sem gæti tekið á málum af heilindum og fundið þennan gullna meðalveg sem nauðsynlegur er til að fá alla til að vinna saman að framtíð þessarar þjóðar.

Þessi vonarglæta og það að fylgjast með starfinu af hliðarlínunni undanfarin ár gerði það að verkum að ég hef skráð mig í Pírata og ætla mér að taka virkan þátt í spjallinu hér. Ég tel mikilvægt að Píratar kynni vel þessa hlið sína, því það er mikið af fólki á Íslandi sem er orðið leitt á þessum hægri/vinstri árásum á hvor aðra og vill sjá nýja hugsjón, hugsjón samstarfs, hugsjón réttlætis, hugsjón framtíðar.

3 Likes