(Með fyrirvara: Hægri og vinstri eru bæði óljós og víðfemd hugtök sem fólk leggur verulega ólíkan skilning í. Hér er reynt að nota hugtökin í „common sense“ skilningi, þ.e. eins og flestir skilja þau á Íslandi og í dag, án tillits til fræðilegra og sögulegra skýringa og skilgreininga.)
Leyfið mér að reyna að sprengja ákveðna blöðru sem mér finnst hafa fengið aðeins of mikið loft síðustu örfá ár.
Píratar eru hvorki hægri- né vinstriflokkur og allt í góðu með það. Það hefur hinsvegar verið sérstakt kappsmál hjá Sjálfstæðisflokki að stimpla okkur sem vinstriflokk til þess að stilla sjálfum sér upp sem eina valkosti hægrimanna. Hann hefur reyndar jafnvel reynt að stilla Viðreisn upp sem vinstriflokki, í sama tilgangi. Miðflokkurinn reynir náskylda taktík, að stilla sjálfum sér upp sem eina valkostinum á móti öllum hinum, sbr. arfalélegri ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þar sem hann kallar okkur hluta af hinum flokknum, „samtryggingunni“.
Munurinn er samt sem áður sá að Sjálfstæðisflokki virðist ganga ágætlega að stilla okkur upp sem vinstriflokki í augum hægrimanna sjálfra, sem mér finnst mjög slæmt. Eitthvað af þessu á sér eflaust flokkssögulegar skýringar, annað er áróður Sjálfstæðisflokksins og eflaust er enn eitthvað af því einkenni þess að flokkar sem hvorki eru til hægri né vinstri verða alltaf of vinstrisinnaðir fyrir suma hægrimenn og of hægrisinnaðir fyrir suma vinstrimenn.
En mér finnst við þurfa að ræða þetta bara svolítið opinskátt. Erum við öll á þeirri skoðun að Píratar eigi að rúma sjónarmið bæði til hægri og vinstri? Eru vinstri- og hægrisinnaðir Píratar reiðubúnir til að bjóða málflutning hinnar hliðarinnar velkominn, eða er eitthvað í grunnstefnunni okkar sem dregur okkur í aðra áttina? Erum við öll reiðubúin í þann kúltúr sem þarf að vera til staðar til þess að sjálfskipaðir „hægrimenn“ og „vinstrimenn“ geti starfað saman í þágu sömu grunnstefnu?