Hlaðan, upplýsingastjórnunarkerfi

Þetta finnst mér gaman að sjá, virkilega spennandi. Svona kerfi mun alveg klárlega styðja við metnaðarfullar umbætur í gagnsæi og betri yfirsýn yfir mál hjá borginni.

https://reykjavik.is/frettir/hladan-nytt-upplysingastjornunarkerfi-borgarinnar

4 Likes

Sannarlega, ég var SVO glöð þegar þetta kom inn á borð innkauparáðs, mikið búið að bíða eftir þessu.

3 Likes

Veður þetta fyrst til skjalastjórnunar innanhúss og svo til að sjálfvirknivæða upplýsingamiðlun til almennings til dæmis um gang (deili)skipulagsbreytinga?

Þetta er fyrst og fremst fyrir innri notkun fyrir umsjón með skjölum, fundum, verkefnum, gæðamál, hópvinnu, samninga, og þess háttar, en það er líka í skilmálanum að það sé hægt að aðlaga það mismunandi þörfum á mismunandi starfsstöðum og tengja það við önnur kerfi og viðmót sem eru í notkun hjá borginni, og hlutir eins og mælaborð borgarbúa eiga að geta lesið upplýsingar úr því.

Þetta er alveg rosalega huge breyting, get ekki undirstrikað nógsamlega hvað hefur verið beðið eftir þessu.

2 Likes
  1. Er kerfið frjáls eða opinn hugbúnaður, open source?
  2. Er verið að sérsmíða kerfið frá grunni fyrir borgina, eða er þetta áskrift að kerfi sem þeir eiga nú þegar, en munu aðlaga að borginni?
  3. Hvað mun þetta kosta, fáum við að sjá tölur?

Ég minni á Public money, public code

3 Likes

Þetta er kerfi sem við kaupum í útboði, það er fokdýrt og þarf að hanna fyrir borgina sérstaklega, en því fylgir uppsetning, kennsla og viðhald.

Hér er fundurinn þar sem var samþykkt að kaupa þetta.

Ég er ekki alveg með á hreinu hvar hitt stendur, borgin verður eigandi kerfisins þegar því er skilað, en ég skal kanna það mál betur.

1 Like
  1. @XandraBriem, ef þú veist að það er fokdýrt, er þá ekki hægt að nálgast grófar tölur um kostnað? Það er frekar lítið um upplýsingar í fundarskjalinu.

  2. Var eitt einhverjum tíma í að athuga hvort hægt væri að nota samsetningu á Opnum og frjálsum hugbúnaði og fá verktaka til að forrita það sem vantar uppá, og gera það einnig að opnum hugbúnaði. Þá gætu önnur bæjarfélög á Íslandi endurnýtt hugbúnaðinn.

2 Likes

Sæll, jú, ég veit auðvitað hvað það kostar, mig minnti að það væri í fundargerðinni, en fyrst svo er ekki, þá getur verið að það sé ennþá trúnaður um það og þá ætla ég ekki að brjóta þann trúnað.skal athuga hvort það sé rétt, en það er opið bókhald hjá borginni svo það getur ekki verið of lengi.

Gróflega þá skal ég segja að það er í hundruðum milljóna, og ekkert sérstaklega fáum.

En það er líka verið að tala um að gjörbylta upplýsingatæknimálum heillar borgar, vinnustaðar þúsunda einstaklinga og sem þjónustar enn fleiri.

Það er mat okkar sérfræðinga í upplýsingatæknimálum að þörf hafi verið á svona lausn, og ég held ég skilji að ef hefði verið farið í þess háttar vegferð sem þú lýsir, þá hefði vinnan við það síst verið minni, það þarf svo mikla og sértæka lausn á þessu.

En það var mjög öflugt samningsferli notað, þar sem bjóðendur sýndu fram á hvernig þeir leystu vissa þjónustuþætti, og þó opinn hugbúnaður sé spennandi, þá veit ég ekki hvort það hefði verið hægt að fá jafn mikinn áhuga eða jafn góða lausn, og þetta er bara of stórt kerfi, sem skiptir svo miklu máli við vinnslu og utanumhald á mikilvægum gögnum, að ég hefði eiginlega ekki viljað gera þetta með öðrum hætti.

En verður kóðinn sem borgin kaupir, gerður að opnum kóða?

Er hægt að láta ákvæði í samninginn að sá kóði sem Hugvit gerir fyrir borgina, verður frjáls og aðgengilegur þeim sem vilja lesa eða nota kóðann?

Ég minni aftur á Public money, public code og Píratakóðann:

“Aðgengi að upplýsingum, menntun, þekkingu og vísindaniðurstöðum verður að vera ótakmarkað. Píratar styðja frjálsa menningu og frjálsan hugbúnað.”

3 Likes

Það er tvennt mjög mikilvægt við kaup á sérsmíðuðum hugbúnaði.

Annað er að sá sem borgi eigi hugbúnaðinn. Það viðgengst alltof oft að opinberar stofnanir fjármagna hugbúnaðarþróun sem hugbúnaðarfyrirtæki á síðan sjálft, þar með festandi stofnunina í sinni lausn. Þetta gerir samkeppni beinlínis ómögulega.

Hitt er síðan að slíkur hugbúnaður á að vera opinn að staðaldri. Það eru engar góðar ástæður fyrir því að sérsmíðuð hugbúnaðarlausn fyrir opinberar stofnanir séu lokaðar. Hugbúnaðarhúsin búa til allskonar málamyndaástæður vegna þess að þeim vex samkeppnissjónarmiðið í augum, og vilja halda viðskiptavinum sínum háðum sér. Þetta er reyndar svo viðtekinn hugsunarháttur að ólíklegt er að þau átti sig á því sjálf.

3 Likes

Það virðist vera of seint fyrir þetta tiltekna verkefni. En við ættum að setja okkur stefnu um þetta. Reyndar hef ég verið (pínlega lengi) að vinna að þingsályktunartillögu um þetta fyrir hið opinbera. Þetta ætti hreinlega að vera í landslögum að þegar opinberar stofnanir kaupi sérsmíðaðan hugbúnað, að þá sé í samningnum að þau eigi hugbúnaðinn með húð og hári.

@viktorsmari Ég hef hafið undirbúning á lagafrumvarpi um þetta.

3 Likes

Það gæti verið of seint að fara í nýtt útboð og breyta kröfunum, en það er ekki of seint að láta þann kóða sem Hugvit mun skrifa, vera opinn.

Ef borgarbúar eru að borga fyrir kóðann, þá eiga þeir að geta séð hann.

Ég er ekki að biðja um að gögnin séu opin, heldur einungis kóðinn sem mun kosta borgarbúa “fleiri hundruð milljónir”.

@XandraBriem takk fyrir upplýsingaflæðið, ég vona að þú haldir áfram að fræða okkur! Gætir þú spurt hvort hægt væri að gera kóðann (ekki gögnin) opinn?

1 Like

Því miður er það ekki hægt, miðað við þau svör sem ég hef fengið.

Það er búið að vera að reyna að klára þessi kaup í fimm ár, það var samþykkt að fara í þessar tilteknu viðræður fyrir meira en einu og hálfu ári síðan (fyrir síðustu kosningar) og það er svo rosaleg þörf fyrir þennan hugbúnað fyrir svo margt sem hefur setið á hakanum að ég held það væri rosalega óvinsælt (og samningsbrot reyndar, úr því sem komið er) að reyna að fresta og breyta þessu úr þessu.

Ég er sammála að við þurfum að passa þetta í framtíðina, en ég er samt rosalega sátt við að við séum að fá nýtt og betra gagnakerfi.

Tökum samt fund um þetta og myndum okkur stefnu fyrir framtíðina.

1 Like

@XandraBriem Takk fyrir að grennslast fyrir um þetta.

Fyrir þá sem ekki vita, þá er virkilega auðvelt að gera kóðann opinn.
Það þarf einfaldlega að láta afrit af kóðanum vera á síðum eins og Github, Gitlab, BitBucket osfrv.
Og það kostar ekki neitt.

Eins og @helgihg segir að ofan, þá hagnast fyrirtæki á því að gera kóðann ekki opinn og halda Reykjavíkurborg í gíslingu, sem vel borgandi viðskiptavin.

Ég væri til í að sjá örlítið meiri pressu á að opna kóðann.
Ef fyrirtækið segir að það sé “ekki hægt” - þá er það mögulega vegna þeirrar eigin vankunnáttu, eða hræðslu um að missa einokunarviðskiptin.

2 Likes

Já, það er engin ástæða fyrir því að hafa kóðann lokaðan. Eða tjah, það geta verið mjög slæmar ástæður fyrir því (vísvitandi slugsað með öryggismál, t.d.) en engar málefnalegar og góðar. Hitt er svo, að eigandi kóðans ákveður það alfarið sjálfur og ef hann segir að það sé ekki hægt, þá þýðir það að hann vilji það ekki. En það er líka hans réttur, sem eigandi kóðans, og einmitt þess vegna er svo mikilvægt að opinberar stofnanir eigi sjálfar þann hugbúnað sem þær láta búa til fyrir sig; til að þær geti ákveðið þetta sjálfar.

En já, við lítum bara fram á veginn. Setjum þetta í lög. Vandinn er mikið til sá að hugbúnaðarframleiðendur vita mætavel að opinberar stofnanir átta sig ekki á þessu og því er þetta orðið að ákveðinni venju. En það eru engar málefnalegar ástæður fyrir henni og á engan hátt samræmist hún hagsmunum viðskiptavinarins.

Góð líking er kannski sú að þú ákveður að byggja hús. Þannig að auðvitað ræðurðu til þess verktaka. En síðan kemur í ljós að verktakinn eigi húsið, og vissulega megirðu búa í því eins lengi og þú vilt, en verktakinn á það samt og ræður því hvernig það er á litinn og í laginu. Reyndar ræður hann því líka hverjir megi gista heima hjá þér. Ef þú vilt síðan bæta við herbergi eða hækka þakið eða eitthvað, að þá þarftu ekki bara leyfa frá verktakanum, heldur geturðu einungis fengið þann sama verktaka til að gera það, bæði vegna þess að hann á húsið og er sá eini sem er með réttu tækin.

Þetta virðist vera orðið normið í hugbúnaðarviðskiptum opinberra stofnanana, að því er virðist vegna þess að þegar opinberar stofnanir byrjuðu að kaupa sérsmíðaðan hugbúnað, þá vissu þær ekki betur. Síðan þykir þetta bara orðið eðlilegt, þegar svo er alls ekki.

4 Likes

Það er nú reyndar stundum þannig með hús að arkitektinn sem hannaði það getur bannað ákveðnar breytingar. Í læknagarði vou gamlar ljótar 20 ára gamlar gardínur af því það hafði áhrif á ytra útlit, ekki hægt að kaupa nýjar eins, og arkitektinn vildi ekki öðruvísi.

Held að fólk sé hætt að láta bjóða sér slíkt í byggingum, svo af hverju ættum við að sætta okkur við það í forritum

2 Likes

Bestu þekktu starfshættir við hugbúnaðarþróun eru einmitt að byggja á fyrri lausnum, og einfalda þær og bæta skref fyrir skref. Sem er vel mögulegt að verði þróunaraðferðin enda er Reykjavíkurborg að kaupa skjalastjórnunarhugbúnað af sama fyrirtæki og venjulega.

mun það vera byggt á stefnunni frá 2007/8 um opin hugbúnað? https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/verkefnisstjorn-radstefna-rafraen-framtid/Frjals_og_opinn_hugbunadur_-_Stefna_stjornvalda.pdf

Nei því miður, í fyrsta lagi er það ekki ein af stefnunum sem komust í meirihlutasamkomulagið, en þar var meiri fókus á þær sem eru sérstaklega fyrir Reykjavík, og þó við getum auðvitað reynt að koma svona pælingum að, þá hófst þetta innkaupaferli, tja, I raun fyrir rúmum fimm árum, en þetta tiltekna samningferli var sett í gang og samþykkt fyrir kosningarnar 2018, var bara að klárast núna.

Ég myndi vilja annars vegar skoða hvaða svigrúm við höfum í meirihlutanum, og hins vegar hvað rekstrar og þjónustusvið hefur um málið að segja