Höfuðborgarsvæði - Landsbyggðir

Megnið af fylgi Pírata er í þéttbýlinu, en minna til sjávar og sveita.
Nú fer að nálgast stefnumótun í aðdraganda alþingiskosninga.

Það hefur stundum hvarflað að mér að að það sé varla trúverðugt að Píratar geti verið bæði þéttbýlis og landsbyggðarflokkur.

Spurningin er - ættum við að láta gott heita að vera alþjóðasinnaður flokkur þéttbýlisins og alls landsins án þess að reyna að vera trúverðugur málsvari landsbyggarðinnar?

Kostir
Stefnumótun og málefnavinna er einfaldari og stefnur geta verið eindregnari, fyrir almennings.
Það getur aukið fylgi flokksins í þéttbýli.

Gallar
Stefnur er varða landsbyggð sérstaklega fá ekki mikla athygli.
Atkvæði landsbyggðarsinnaðs landsbyggðarfólks fara annað, að hluta.

Hvað finnst fólki um þessa pælingu?

Ef sú ákvörðun er tekin að vinna markvist að málefnum Höfuðborgarsvæðisins (plús Akureyri og Reykjanes mögurlega) og sleppa landsbyggðinni þá myndi ég ekki sjá ástæðu til að vera með t.d kjördæmafélag í Norðvesturkjördæmi

Ég þyrfti að geta nýtt Pírata til að hafa áhrif á mitt nær umhverfi. Ég gæti kannski kosið Pírata í alþingiskosningum en það myndi þá ekki henta mér að taka þátt í félaga starfinu.

3 Likes

Fjárhagslega sjálfstæð sveitarfélög amk. með tilliti til lögbundinna verkefna. Einfalt Píratamál sem leysir þetta vandamál frá a til ö.

1 Like

Pétur ef Píratar bjóða ekki fram í þínu kjördæmi í alþingiskosningum þá getur þú ekki kosið Pírata. Við búum en við kjördæmaskipan.

Ég held að Guðjón sé ekki að tala um að bjóða ekki fram á landsbyggðinni bara að ekki hafa neinar áherslur þar. Að taka alltaf ákvarðanir útfrá sjónarmiðum þéttbýla. Það er allavegna hvernig ég skil innleggið hjá Guðjóni, hann getur leiðrétt mig ef ég er að misskilja.

2 Likes

Ef skautað er framhjá og engar áherslur af nærumhverfi hvers kjördæmis er sett fram þá væri bara best að bjóða ekki fram. Þetta tvennt helst nefnilega í hendur á meðan kosið er eftir kjördæmum. Saman ber samgöngumál, heilbryggðismál o.sfv.

Erum við ekki með pírata í borgarstjórn sem geta séð um mikið þar en að sleppa landsbyggðinni er bara rugl og óþolandi talsmáti sem kemur alltaf úr RVK

Aftur ef ég er að misskilja Guðjón þá getur hann leiðrétt mig. En ef ég skil hann rétt þá væri samt betra að bjóða fram í öllum kjördæmum jafnvel þótt maður fengi ekki mörg atkvæði úr þeim til að fá uppbótarþingmenn.

Ég vill líka taka það fram að ég er andvígur því að sleppa landsbyggðinni í stefnumótun.

2 Likes

Ég skil pælinguna en tel að við getum ekki látið landsbyggðina róa, hún er, fyrir utan sína sjálfstæðu hagsmuni, mjög mikilvæg fyrir okkur öll í heild. Hér bendi ég á þrjú slík atriði en þau eru auðvitað fleiri: Í fyrsta lagi vegna gagnrýni. Stóra systkinið getur orðið of værukært í ýmsum málum og einnig valdsmannslegt, litlu systkinin pota oft og ýta á nauðsynlega endurskoðun. Í öðru lagi vegna mannréttinda, smærri byggðakjarnar og sveit hafa annað og oft rýrara samband við auðlindir á suðvesturhorninu vegna fjarlægðar og eru jaðarhópur í því tilliti. Í þriðja lagi af því að landsbyggðin yrði (réttilega) brjáluð.

1 Like

Ég sé ekki hvaða magn af málum það eru sem eru ekki jafn brýn fyrir bæ eða borg, sveit eða 101. Skil sem sé ekki pælinguna. Það er þá kannski afréttarmál, réttir og mönnun í fjárrekstur að hausti og örfá önnur mál ásamt stóra málinu, fólksfækkuninni sumstaðar sem við eigum svo sannarlega öll að ræða og gera eitthvað í.
Stjórnarskráin
Friðarmál
Mannréttindi
Málefni fjölskyldunnar
Málefni barna
Málefni jaðarhópa
Innflytjendamál
Málefni flóttamanna
Afglæpavæðing
Borgaralaun (þeir sem það aðhyllast)
Betri loftgæði
Heilbrigðismál
Mengun
Skipulagsmál
Samgöngur
Urðun sorps
Auðlindir í þjóðareign
Sjávarútvegsmál
Neytendamál
osf. osf. osf. osf.
Allt mál sem koma Gunnu, Pétri, Siggu, Jóni og okkur öllum við hvar svo sem við búum.
Einstök innansveitarkróniku mál eigum við auðvitað að fjalla um og finna Píratalausnina á samanber göngugötur í miðborginni, miðbærinn á Selfossi og holræsismál við Mývatn. Flest þau mál snerta heildarlausnir sem við eigum að hafa skoðun á.

2 Likes

Þetta er meira og minna það sem ég er að spá. Ég hef orðið var við að landsbyggðarfólk segir sem svo: “við þurfum að vita hvað flólkið á okkar svæði leggur áherslu á og taka tillit til þess í stefnum”. Í sumum tilvikum eru svona mál svipuð og mál sem Framsókn og Miðflokkur leggja áherslu á. Það gegnur svo sem að hafa einhver svona mál með, en það flækir málatilbúnað og stefnur. Spurningin er, tekur því? Er ekki bara ágætt að Píratar séu landsflokkur sem ekki er að spá í sérmál sveitanna og sjávarþorpanna. Finnst það umræðunnar virði að spá í þetta,.

Samgöngur er dæmi um mál sem virðast líta mjög misjafnlega út eftir því hvort þú horfir á þau frá SV horni eða “utan af landi”. Flugvöllurinn er annað dæmi. Reyndar erum við með stefnu um hann.

Svo er það landbúnaðurinn. Píratar hafa neytendavæna stefnu en sumt landsbyggðarfólk er enda ekki sátt við hana.

Samgöngur og flugvöllurinn er mál sem er langt í frá að allt fólk út á landi eða allt fólk í borginni er sammála um. Það eru ekki allir út á landi að krefjast þess að flugvöllurinn fari eða horfa öðruvísi á samgöngur en hann Haraldur í Mjóddinni. Að stilla þessu upp sem af eða á efni er bara ekki rétt. Það mætti kannski, hæpið þó segja að það sé meirihluti fyrir sumum málum og minnihluti fyrir sumum. Síðan komum við með okkar tillögur og mínar, þá breytist viðhorfið jafnvel “omvendt”.

Samgöngur; útrýmum einbreiðum brúm, gerum alla vegi sem fara um fleiri en x margir bílar um breiða, breikkum hringveginn, bætum merkingar, aðlögum hraða að aðstæðum, færum vegi þar sem það þarf, bætum gangbrautir, göng þar sem þar á við (ekki eftir kjördæmapot) og að sjálfsögðu tökum verulega á í umferðarmannvirkjum á SV horninu, gerum almenningssamgöngur ódýrari, hagkvæmari jafnvel ókeypis sumstaðar, fyrir suma og margt fleira.

Flugvöllur; færum flugvöllinn, gerum góðar samgöngur milli hans og þéttbýlis, lögum flugvelli út á landi, bætum sjúkrahús og heilsugæslur, styrkjum heilsugæsluna verulega út um allt land, höfum sjúkraflutninga skjóta og aukum viðbragðsflýtið, þyrlur og þyrlupalla þar sem það þarf styrkjum fjarlækningar og tæki í heilsugæslunni og svona má áfram telja.

Þegar uppi er staðið þá snúast alþingiskosningar un landið í heild. Þótt að svæðisbundin álitamál koma vissulega til kastanna að þá er mikilvægt að landið í heild sinni og ekki síst sv hornið tryggi aðgengi allra í landinu að upplýsingum, samgöngum, þjónustu og að fámenn svæði á landsbyggðinni verði ekki fyrir barðinu á valdamiklum aðilum sem nýta sér viðkvæma stöðu einangraðra svæða.

Stefnumál geta að grunninum til náð yfir landið en hvert og eitt kjördæmi er sérfrótt í málefnun síns kjördæmis. Þannig að þótt að það væri eitt manifesto yfir allt landið eins og Píratakoðinn og grunnstefnan að þá þarf að kynna fyrir hverju svæði hvernig það mun nýtast því svæði. Við verðum líklegast alltaf með mesta fylgi á sv horninu en alþingiskosningar snúast um hagsmuni landsins í heild sinni, með eða án kjördæmaskipan

5 Likes

Ég sé hvað Elín og Jason eru að segja varðandi mál sem ná yfir allt landið eins og aukið gagnsæi, lýðræði og barátta gegn spillingu. Þetta eru frábær máli og skiptir engu máli hvað póstfangið manns er.

En ef við tökum dæmi úr heilbrigðis málum þá er umræða fyrir vestan varðandi stefnu Hvest , Heilbrigðisþjónustu Vestfjarða. Þeirra stefna er að halda úti sjúkrahúsi sem getur gert allar almennar aðgerðir og sumar sérhæfðar. Að fólk þarf ekki að fara suður í hvert sinn sem eitthvað gerist og að langveikt fólk fái stuðning. Þessi stefna kemur niður á almennum heilsugæslum í minni byggðarkjörnum þar sem það er ekki mikið af peningum eftir til þess að reka þær. Þetta kom í ljós í snjóflóðinu á Flateyri í vetur. Heilsugæsluni hafði verið lokað og einu sjúkrakassarnir höfðu verið í bátunum sem fórust í flóðinu. Ung stúlka festist undir snjónum og þegar náðist að moka hana út var hún fær inn í sundlauginna og hitum með hárblásara. Hvest og íbúar Flateyrar vilja bæði bæt heilbrigðiskerfi á Íslandi en hafa missmunandi áherslur um hvernig. Hvest vill hágæða sjúkrahús á Ísafjörð og íbúar Flateyrar vilja Heilsugæslu á Flateyri.

Guðjón myndi vilja styðja leið Hvest yfir kröfur Flateyringa

2 Likes

… gott dæmi um átakapunkta í samgöngumálum. Þegar litið er yfir síðustu ca. 20 ár þá hefur verið varið í nýja vegi og viðhald segjum ca. 200 ma.kr. á ári og þar af hafa farið um 20 ma.kr. að meðaltali á SV hornið (gróf einföldun) þar sem mesta álagið er á vegina enda búa þar um 80% íbúanna og flestir ferðamennirnir (samsvara 20%-30% fólksfjölgun) eru á akstri.

Sammála því. Vandinn er e.t.v. sá að það er bæas á þinginu. Atkvæði sumra vega þyngra en annara og þar að auki er meðvirkni með því að halda landsbyggðinni í úreltu fari. Það vantar betra jafnvægi. Við gætum e.t.v. hjálpað til þar með því að vera “landsflokkur” ekki “landsbyggðaflokkur”.

Flott að ræða þetta, því upplifunin á landsbyggðinni er klárlega sú að við séum fyrst og fremst Reykjavíkur-flokkur, og ef við erum ekki sátt við þá sýn er mikilvægt að við leggjum okkur fram við að breyta henni.

Nú er ég óttalegur stórborgarpési sjálfur og get því illa sett mig í spor fólks sem býr á landsbyggðinni. Því verð ég að reiða mig á frásagnir af landsbyggðinni, en minn skilningur er sá, að í grunninn snúist þetta mikið til um sjálfstæði, í víðum skilningi. Bæði fjárhagslegt, eins og Björn Leví nefndi hér áður, en líka gagnvart ákvörðunum og reyndar líka gagnvart allskonar mati, t.d. á áhrifum einhverra ákvarðana. Oft er framkvæmt mat úr Reykjavík sem lókallinn hefði alveg getað gert sjálfur, og teknar ákvarðanir í Reykjavík sem hefði alveg mátt taka af sveitarfélagi. Vandinn þar virðist vera sá að stofnunum landsbyggðarinnar, t.d. sveitarfélögum, sé ekki treyst til að taka ákvarðanir út frá neinu öðru en tímabundnum og smávægilegum (að mati einhverra í Reykjavík) atvinnuhagsmunum, t.d. hvað varðar náttúruvernd, virkjanakosti og þess háttar, en hinsvegar geti Reykvíkingar það af einhverjum ástæðum miklu betur. Landsbyggðarfólk þarf oft að minna á að stórbrotin náttúra Íslands sé á landsbyggðinni og að margt fólk búi þar vegna þess að það elskar náttúru Íslands.

Þá eru líka praktísk atriði eins og hvernig „hagræðing“ hefur tilhneigingu til að gera lítið úr hagsmunum sveitarfélaga sem þurfa skyndilega að reiða sig á fjarlægari stofnanir en ella.

Hagræðing og efling sjálfsákvörðunarréttar eru ekki endilega andstæður, en sjálfsákvörðunarrétturinn er í öllu falli einn af hornsteinum okkar hugsjónar og því finnst mér að nálgunin eigi að felast í því að styðja við sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Það felur líka í sér að tryggja að fjármagn fylgi lögbundnum verkefnum. Það hefur gerst aftur og aftur að lögbundin verkefni eru færð frá ríki til sveitarfélaga án fjármögnunar með þeim áhrifum að í reynd er annaðhvort dregið úr þjónustunni, eða að burðir sveitarfélaga til að sinna sínum hlutverkum almennt, dvína. Þannig klúðrast það sem átti að vera valdefling og breytist í andstæðu sína.

Svona skil ég þetta allavega. Landsbyggðsfólk sem finnur þetta á eigin skinni mætti gjarnan leiðrétta mig ef ég fer með einhverjar fleipur eða er að missa af einhverjum mikilvægum punkti. Mér þætti eðlilegast að hafa bara sérstaka stefnu um þetta. Einhvers konar landsbyggðarstefnu, þ.e., þar sem stiklað er á stóru. Ef það er eitthvað sem meðlimir á landsbyggðinni teldu til bóta, þ.e.a.s.

5 Likes

Þéttbyggðirnar ÞURFA dreyfbýlið. Við getum ekki öll búið í reykjavík og ætlast til þess að það gangi upp til lengdar.

Það er því í hag þéttbýlisins að það sé líft að búa utan þess.

Fyrir utan að ef að við gerumst þéttbýlisflokkur þá missum við líklegast alla landsbyggðarþingmenn frekar hratt.

2 Likes

Ég hef ferðast allnokkuð um landið. Skýrustu dæmin sem ég minnist um þröngsýnan smábæjarþankagang sem ég hef nokkru sinni rekist á eru öll frá Reykvíkingum, fæddum og uppöldum, sem áttu erfitt með að skilja að nokkur gæti hugsað sér að búa fjær Reykjavíkurtjörn en við Snorrabraut.

Þar fyrir utan taldist landið síðast þegar ég vissi ekki skiptast í þéttbýli og landsbyggð, heldur höfuðborgarsvæðið og landsbyggð, enda er þéttbýli - og munur á þéttbýli og dreifbýli - víða á landinu.

Grunnstefna Pírata snýst ekki, a.m.k. ekki frá mínum bæjardyrum séð, um það hvernig eigi að gera hlutina öðruvísi á Alþingi, heldur að sýna fram á að miðstýringin og valdsöfnunin sem Alþingi endurspeglar sé óþörf. Valddreifing og sjálfsákvörðunarréttur snýst ekki (endilega) um það að það eigi að taka aðrar ákvarðanir, heldur að taka eigi ákvarðanir með öðrum hætti.

Frá mínum bæjardyrum séð gerist ansi margt í Reykjavík sem annars staðar yrði titlað “kjördæmapot” - en vegna staðsetningar er það “þjóðhagslega hagkvæmt”.

3 Likes