Ég hef efasemdir um þessa tölfræði og tel samhengið ekki nægilega vísindalegt. Það gæti vel verið að færri afbrot og minna ofbeldi sé helst út af minna djammi frekar en styttri opnunartíma en erfitt að segja samt.
Mörg tala um góða reynslu af styttri opnun og vísa til landa í kring þar sem opnunartími er víða styttri. Þar fer fólk fyrr á djammið og fyrr heim og þá er ekki næstu dagur ónýtur.
Sumir rekstraraðilar hafa efasemdir, eðlilega. Aðrir eru reyndar jákvæðir.
Við munum ræða þetta í borginni á næstunni. Mér skilst að meðal annars lögreglan vilji stytta varanlega.
Við erum að ég held ekki með stefnu um þetta og því spyr ég. Áskiljum okkur rétt til að vega og meta.
Þessa tölfræði sem talað er um í fréttinni þarf líka að skoða með réttum augum - mögulega hefur ofbeldi minnkað og afbrotum fækkað því að við höfum ekki komist mikið út úr húsi?
Einnig væri ekkert vitlaust að skoða á hverju það var byggt á sínum tíma að hafa opið til kl. 3 - eins og Björn nefnir var stór ástæða að fólk hópaðist saman niður í bæ eða fór í eftirpartý með tilheyrandi hávaða í hverfum.
En persónulega finnst mér þetta fín þróun sem hefur átt sér stað eftir að hægt var að fara á barinn aftur - þá byrjar man fyrr og fer fyrr heim - en ég veit ekki alveg hvort að þessi “tölfræðigögn” séu endilega góð ástæða eða grunnur að samtali um styttingu eða lengingu á opnunartímum.
Ég er að velta fyrir mér hvort að það þurfi ekki að meta þetta út frá fleiru en bara afbrotum. Ég á við hvaða félagslegu áhrif hefur þetta á líf fólks og þá samfélagsmyndina, unglinga, fjölskyldusambönd, lærdóm, svefn og margt annað, jafnvel að spyrja einhverja fræðinga í HÍ?
Ég er mikill anarkisti en ég geri mér grein fyrir að öll menning hefur margháttuð áhrif á samfélagið og svona breytingar hafa áhrif á hvernig samfélagið fúnkerar í víðu samhengi eins og sést hefur.
Auðvitað vil ég sem mest frelsi en með því að loka skemmtistöðum klukkan 01:00 eða klukkan 12:00 þá fara einhver prósent fólks fyrr heim, fyrr að sofa, vakna hressari og til í að taka á móti námsefni í skóla, ná frekar prófum, fara í háskóla fá skjal (og fá síðan vinnu við hvalaskoðunarfyrirtæki á Húsavík), nei vonandi ekki kannski minkar þetta þörfina á sálfræðingum síðar.
Ef síðan hin hliðin er valinn, fáum við þá fólk sem er meiri félagsverur og tilbúinn til að vinna saman, þekkja fleiri, stofna fyrirtæki og meika það?
Punkturinn er: þarf ekki að líta á þetta frá mun fleiri vinklum en afbrotum.
Svar út frá hvað mér finnst persónulega:
Í guðana bænum ekki stytta opnunartíman frá sem áður var. Það var nóg að ekki mætti hafa barinn opinn til lengur en 1 á sunn - fimmt. Ég er B týpa, ég vil koma seint, vera frameftir og sofa út. Hef engan áhuga á að vakna kl 9 á laugardegi nema ég sé með soninn =) , svo tíminn verður ekkert betur nýttur þó barnum sé lokað. Ég held það sé ungu fólki (ekki að það sé ég) bara hollt að fá að sletta úr klaufunum og finna svoldið sín mörk, vaka framá nótt. Ég held að opnunartími skemmtistaða hafi ekki verið mikið vandamál heilt á litið á Íslandi og það er sorglegt að heyra fullorðið fólk sem bjó við frelsi til að fara út þegar það var yngra reyna að loka á slíkt fyrir yngri kynslóðir. Á þá næst að fara banna skólaböllum menntaskólanna að vera til 1 (voru nú til 3 stundum þegar ég var í menntaskóla) og ýta unglingum frá þessu góða “æfingasvæði” fyrir djamm beint yfir í harðara djamm í heimahúsum oft með fólki af ýmsum aldri og án neinnar umsjónar?
Minna persónulegt svar:
Gefið að það verði ekki skaði af opnun skemmtistaða þykir mér persónufrelsið eiga að trompa. Ef ég vill djamma til kl 6 á ég að mega það sem fullorðinn einstaklingur.
Eins og bent hefur verið á þá gengur ekki að loka ef fólk djammar bara annarstaðar í staðinn. T.d. var það mjög þekkt síðasta sumar að það voru risastór partí í skóginum í Öskjuhlíðinni eftir að barnum var lokað kl 23 um helgar (og ekki bara smá partí, hátalarar og skemmtiatriði/show stundum. All in djamm s.s.). Svo aðalspurningin hér er hvort það er raunhæft að ætla loka snemma? Væntanlega er betra að fólk djammi “skipulega” á einum stað en út um allar trissur.
Má ekki nota svipuð rök um alskyns vitleysu? Ekkert bíó eftir kl 21 þar sem unglingar þurfa sinn svefn og svona, gymmið ætti að loka um kvöldmat því æfingar seint á kvöldin eru slæmar fyrir svefninn og ýta þannig til illa sofins og versnandi samfélags (eða hvað sem ykkur dettur í hug…). S.s. ef þú ætlar að taka af mér persónufrelsið í nafni betra samfélags afhverju að stoppa þarna, hver er mælikvarðinn?
Eins og Olga bendir á þarf að hugsa afhverju tölfræðin er á þennan veg. Er líklegt að hún haldist eins ef allar Covid reglur eru lagðar og allt fer á flug nema barinn greinilega. Þetta gæti t.d. tengst fjölda inni á skemmtistöðum frekar en opnun, almennum fjölda á ferðinni (samgöngutakmarkanir á Íslandi og fáir ferðamenn spila inní), er ofbeldi í heimahúsum (heimilisofbeldi og partí) tilkynnt í jafn miklum mæli og önnur afbrot? , ofl.
Tengt og ótengt: Afhverju er barnum lokað kl 1 í miðri viku? Væri það agalegt að vaktavinnufólk fengi að fara á barinn þegar því hentar? Markaðurinn myndi finna sér farveg og það væru kannski örfáir staðir opnir enda eftispurnin eflaust talsvert minni í miðri viku.
Ég vil fara aftur í fyrri opnunartíma. Ef ekki nema fyrir það að við erum ekki stjórnlynd, og fólk hefur haft áhyggjur af því að við fáum ekki aftur frelsið sem við höfum glatað vegna covid. Stjórnvöldum finnist þetta of þægilegt.
Ekki að þetta sé mest akút hlutinn af því frelsi, en þetta er eitthvað sem við finnum fyrir, eitthvað áþreifanlegt.
Ég hef ekki mótað mér skoðun á þessu enn sem komið er, en rakst á breska nefndarskýrslu frá 2016 (þegar ég var að leita að efni tengdu hverfislöggæslu) sem er áhugaverð inn í þessa umræðu. Í skýrslunni er fjallað um mismunandi þjónustutíma þessara staða í tengslum við afbrot og tillögur nefndarinnar fylgja.
Mælli einnig með að skoða næturlífið og þjónustutíma skemmtistaða í tengslum við kynjuð áhrif (NTE and gender impact), sem þó nokkuð af efni er til um.
En, hérna, það er enginn að tala um að hætta að hafa reglur um opnunartíma skemmtistaða. Það er því engin spurning um stjórnlyndi eða ekki stjórnlyndi, bara um það í hvaða tilgangi stjórnlyndinu sé beitt.
Góður punktur. Við erum undir margvíslegri stjórn nánast frá því við vöknum þar til við förum að sofa og að einhverju leiti á meðan við sofum. Munurinn er bara að við þekkjum ekkert annað og kveikjum ekki á stjórnuninni.
En minn punktur er; skoðum þetta í víðara samhengi og þá er hægt að komast að vitrænni niðurstöðu. (Og lokum spilasölum )!
Mér er eiginlega sama …
En svoldið svínslegt að nota Covid sem tækifæri til að stytta opnunartíma. Mér finnst það alveg valid ástæða að flýta lokunartíma ef það dregur úr líkindum á alvarlegum ofbeldisbrotum, og fólk sem hefur unnið á börum veit að það verður oft breyting á hegðun eftir því sem líður á kvöldið.
Ég er opin fyrir því að lokunartíma sé flýtt, en það á þá að gera það eftir að skoða gögn, og byggja upp keis fyrir því, ekki bara af því nú erum við að koma úr Covid og það liggur vel við höggi.
Mér finnst að það þurfi töluvert sterkari rök en fram hafa komið fyrir því að breyta þeirri áralöngu hefð og menningu að djammið í bænum er aðeins frameftir nóttu. Við getum illa notast við Covid-tölfræði af því það er mjög erfitt að aðskilja risastóra skýringarþáttinn Covid frá öllu öðru. Við sjáum til dæmis að ölvunarakstur hefur dregist verulega saman í Covid, er það af því að djammið í bænum er styttra frameftir eða bara hreinlega af því að fólk er almennt minna á ferðinni?
Annars er hér frábær ritgerð um næturhagkerfið svokallaða. Svarar kannski ekki beint þessari spurningu en er ágætis bakgrunnsefni og innsýn í hvernig rekstraraðilar líta á borgarkerfið.
Takk fyrir umræðuna. Ég sé að fólk hallast gegn því að stytta opnunartímann að þessu sinni. Það er líka sú tilfinning sem við í borgarstjórnarflokknum höfum haft og höfum hallast að því. Tölfræðirök lögreglu virðast ekki alveg halda vatni. En óháð skoðun lögreglu vildi ég endilega fá fram umræðu til að vita hvar fólk stendur. Menningin hefur jú að einhverju leyti þróast eins og bent er á. Þá mun ég og við tala gegn almennri styttingu.
Mér finnst að opinberir aðilar eigi ekki að skipta sér af opnunartíma fyrirtækja almennt, heldur setja reglur um aldurstakmörk, ónæði, réttindi og skráningu starfsfólks, réttindi viðskiptavina, sjálfbærniviðmið, umgengni, vínveitingar og slíkt.
Í fyrsta lagi væri þetta mikið inngrip stjórnvalda í frelsi fólk til þess að skemmta sér saman utan heimahúsa, sem er ekki bara eitthvað aukaatriði heldur skiptir það verulegu máli upp á menningu, lífsgæði og andlega heilsu okkar. Íslensk skemmtanamenning er (guði sé lof) ólík skemmtanamenningu t.d. Bretlands og annarra ríkja sem viðhafa styttri opnunartíma (fyrir utan ákveðna næturklúbba) og þetta væri verulegt inngrip í þá menningu og daglega líf okkar. Mér finnst að við ættum að standa gegn slíku inngripi sem yfirlýstur flokkur frjálslyndis. Frjálslyndi vs. stjórnlyndi er nota bene ekki bara spurning um að annað hvort séu engar reglur í samfélaginu eða þá að stjórnvöld geti gert það sem þeim sýnist - eins og @odin gefur í skyn með sínu innleggi hér að ofan - heldur er það spurning um umfang afskipta stjórnvalda af einstaklingunum, og þessar hugmyndir myndu ganga talsvert lengra en raunin var fyrir Covid.
Í því samhengi er alveg rétt að ályktunin sem er dregin þarna af afbrotatölfræði er vissulega mjög vafasöm, en það er samt aukaatriði fyrir mér vegna þess að það segir sig sjálft að þegar fólk fær að hittast og skemmta sér saman þá eru meiri líkur á því að öðru hverju eigi sér stað ofbeldi eða önnur neikvæð samskipti. Það þýðir ekki að stjórnvöld hafi rétt á því að beita valdi sínu til að hafa vit fyrir fólki með því að koma í veg fyrir að það geti hist og skemmt sér saman og tekið þá áhættu.
Í öðru lagi væri þetta að mínu mati klárt brot á því trausti sem langflestir Íslendingar hafa hingað til sýnt yfirvöldum í faraldrinum, og svik við þann langstærsta hluta þjóðarinnar sem hefur sætt sig við verulegar skerðingar á frelsisréttindum okkar, í trausti þess að þær skerðingar séu tímabundnar og aðeins af illri nauðsyn vegna faraldursins. Ef stjórnvöld fara að nota tækifærið til að skerða frelsisréttindi okkar varanlega - umfram það sem áður var - þá svíkja þau að mínu mati þann samfélagssáttmála sem tókst að mynda í faraldrinum, og var í raun nauðsynleg forsenda þess að sóttvarnaraðgerðirnar hafa gengið jafn vel og raun ber vitni. Að bregðast því trausti þannig væri bæði rangt í sjálfu sér og myndi skapa hættulegt fordæmi fyrir faraldra og aðra hættutíma framundan, þar sem mörg myndu hugsa sig tvisvar um að sætta sig við og styðja álíka aðgerðir aftur, vegna þess að stjórnvöld hefðu sýnt það fordæmi að um leið og við sættum okkur við þær í ljósi neyðarástands gætu þær hæglega orðið varanlegar.
Spurning hvort að ekki sé hægt að gera bæði: hafa opið eins og menn vilja en halda sæmilegum sönsum.
Er hægt að breyta næturmenningunni þannig að allt fari ekki á hvolf og fólk sé ekki í mikilli hættu. Þarf lögregla að vera meira sjáanleg og gangandi í miðbænum eins og er víða erlendis; (Holland, Danmörk) og var hér í denn. Þarf að bæta aðstöðuna, hönnunina, flutninga, hætta að selja áfengi nokkru áður en lokað er, setja upp “safe space” hafa fleiri matsölustaði opna um nætur osf.