Nýlega hefur verið umræða ásamt könnun á Facebook um formannsembætti hjá Pírötum. Hugmyndin hefur aðeins verið til umræðu hjá skipulagsstarfshópi sem nú er að störfum, en starf þess hóps er aðgengilegt öllum hér: https://office.piratar.is/index.php/s/E5p664XCf7Jod8X
Ég skrifaði sjálfur drög að tillögu sem við höfum aðeins rætt en eigum vonandi eftir að ræða meira. Hérna eru því drögin til umræðu. Mér finnst mikilvægt að rökin fái að njóta sín, því það er oftast sá misskilningur að hugmyndin sé að draga úr valddreifingu þegar markmiðið er þvert á móti einmitt að auka hana. Ég læt rökin hér á eftir duga:
Tillaga um formannsembætti
Um tillöguna
Höfundar | Dagsetningar |
---|---|
Helgi Hrafn Gunnarsson (helgi@piratar.is) | 2019-06-25 |
Tillögutexti
Hlutverk formanns Pírata eru:
- að tryggja tengsl milli eininga félagsins,
- að veita miðlægan tengipunkt fyrir fjölmiðla,
- hafa frumkvæði að viðbrögðum við stóratburðum sem varða flokkinn og
- semja fyrir hönd félagsins um pólitísk hrossakaup. (Vantar meira dipló orðalag… eða jafnvel ekki?)
Formaður skal geta svarað fyrir stefnu flokksins út á við.
Varaformaður sinnir sömu hlutverkum til vara.
Eitthvað um hvernig kosningu formanns og varaformanns skuli háttað.
Greinargerð
Lagt er til að sett verði á fót formannsembætti Pírata, að hlutverk þess verði skýrt skilgreint og það veitt með lýðræðislegum hætti og í umboði félagsmanna sjálfra.
Forsaga
Af ótta við valdasamþjöppun og misbeitingu valds ákváðu Píratar í upphafi að starfa án formanns.
Óumdeilt er að markmið þeirrar ákvörðunar hafi verið hvort tveggja jákvætt og mikilvægt, enda hafa valddreifing og ábyrgð á meðferð valds verið meðal helstu kjarnagilda Pírata frá upphafi.
Reynslan hefur hinsvegar leitt í ljós að það fyrirkomulag að starfa án formanns hvorki útrýmir né dreifir valdi og fyrirbyggir því ekki misbeitingu þess, heldur að reyndar geti áhrifin verið þveröfug. Þótt félagið hafi aldrei formlega haft formann hafa einstaklingar nefnilega bæði sinnt formlegum hlutverkum formanns á Alþingi, sem og óformlegum í almennri umræðu og í fjölmiðlum. Í báðum tilvikum er um veruleg völd að ræða sem hafa haft áhrif á gang Pírata og framgang stefnumála þeirra, án þess að lýðræðislegt umboð hafi verið veitt frá félagsmönnum. Ennfremur hefur ábyrgðin sem slíku umboði ætti að fylgja hvergi verið skilgreind yfirhöfuð og hvað þá þannig að henni hafi verið hægt að framfylgja.
Tillaga þessi felur í sér að horfst verði í augu við þennan verulega og brugðist við með því að formannsembættið verði veitt lýðræðislega og hlutverk þess skilgreint og afmarkað út frá gildum Pírata um lýðræðisleg vinnubrögð, valddreifingu og ábyrgð.
Um formannsembættið á Alþingi
Á Alþingi kjósa þingflokkar sér svokallaða þingflokksformenn, sem koma fram fyrir hönd hvers þingflokks gagnvart þinginu sjálfu og öðrum þingflokkum. Þingflokksformenn eru því ekki endilega sýnilegir eða vel þekktir utan þingsins, þar sem hlutverk þeirra afmarkast jafnan við innri mál þingsins.
Verksvið þingflokksformanna varðar hluti eins og lengd þingfunda, breytingar á starfsáætlun, aðstöðu þingmanna og bera þeir ábyrgð á ráðningum aðstoðarfólks, svo fátt eitt sé nefnt.
Pólitísk forgangsröðun og framgangur stefnumála eru hinsvegar venjulega á könnu formanna flokkanna. Þessir formenn hafa jafnan fengið kosningu innan sinna flokka. Þetta eru þær samningaviðræður sem oftast nær einkenna þinglok, þegar tíminn er orðinn naumur og skipta þarf á milli flokkanna takmörkuðum gæðum.
Þar sem Píratar hafa ekki haft formann, kjörinn af meðlimum félagsins, til að sinna þessu hlutverki hafa þeir jafnan látið þingflokksformann sinna þessu sama hlutverki. Þingflokkur Pírata er því sá eini á þingi þar sem sami einstaklingurinn sinnir hvort tveggja hlutverki þingflokksformanns sem og formanns flokksins. Píratar eru ennfremur eini flokkurinn á Alþingi þar sem sá einstaklingur er ekki valinn af meðlimum flokksins heldur þingflokki hans.
Þvert á tilgang fyrirkomulagsins er afleiðingin valdasamþjöppun, en ekki sú valddreifing sem að var stefnt.
Alþingi veitir formönnum flokka í stjórnarandstöðu einn aðstoðarmann sem fær borgað frá þinginu. Til þess að Píratar gætu haft slíkan aðstoðarmann var sett ákvæði í lög Pírata, sem heimila þingflokknum að tilgreina formann í þeim eina tilgangi að verða ekki af þeim aðstoðarmanni. Í lögunum kemur fram að formaðurinn skuli ákveðinn með hlutkesti en ganga í keðju eftir það og ekki hafa nein aukin pólitísk völd. Því er líklega ekki í samræmi við lög félagsins að þingflokkurinn útnefni annan en þingflokksformann til starfa formanns í þeim skilningi sem hér á undan er lýst, bæði vegna þess að þingflokkurinn velur ekki formann samkvæmt lögunum, en einnig vegna þess að hinn útnefndi formaður mætti ekki hafa þau auknu pólitísku völd sem fylgja því óhjákvæmilega að sinna pólitískum samningaviðræðum á Alþingi. Síðast en ekki síst væri það fyrirkomulag engu lýðræðislegra, þar sem meðlimir Pírata hefðu þar enga aðkomu frekar en áður.
Um óformleg völd
Stjórnmálamenn eru misjafnlega vinsælir og eðlilega, jafnvel á misjöfnum tímapunktum. Þrátt fyrir að bera enga formlega skilgreinda titla geta stjórnmálamenn innan hverrar hreyfingar aflað sér hollustu, ýmist með verkum, orðum eða jafnvel persónutöfrum. Ekkert athugunarvert er við það, enda óhjákvæmilegt. Færa mætti rök fyrir því að það ætti beinlínis að vera í starfslýsingu þeirra.
Sökum formannsleysis hefur það hinsvegar gerst hjá Pírötum að einstaklingar sem þykja vinsælir eða njóta ákveðinnar hollustu öðlist í rauninni það óformlega vald sem óttast var svo mjög að formaður myndi hafa. Engin leið er í dag hinsvegar til þess að mæla það umboð sem þessir einstaklingar njóta í raun og veru, og verður hver og einn að draga ályktun um umboð þeirra út frá því hvaða stuðningsmenn eru mest áberandi hverju sinni. Ennfremur er engin leið að storka þessu óformlega valdi ef annar telur misfarið með það. Engin leið er að draga það til ábyrgðar. Það er með öllu ógagnsætt og óskilgreint. Aldrei er kosið um hver skuli vera handhafi þess.
Með þessu óformlega vinsældafyrirkomulagi eru ennfremur allir fulltrúar sem afla sér vinsælda í einhvers konar „ósýnilegu framboði“ til óopinbers formanns. Þetta er til trafala þegar einn vinsæll fulltrúi vill einfaldlega styðja við bakið á öðrum vinsælum fulltrúa, flokknum og stefnu hans til heilla. Ekki er nóg með að einhver fái völdin án þess að hafa fengið til þeirra umboð, heldur hafa allir kjörnir fulltrúar það á hættu að öðlast valdið sem þeir myndu miklu frekar vilja hafa í höndum einhvers annars.
Tengsl og tengipunktar
Eitthvað um að einingar flokksins þurfi að geta leitað eitthvað til að finna hvora aðra.
Eitthvað um að fjölmiðlar þurfa að vita hvern eigi að tala við. Einhver þarf a.m.k. að vita hvern eigi að tala við. Við missum eflaust af þó nokkurri umfjöllun vegna þess að fjölmiðlar skilja ekkert í því hvern þeir eiga að tala við.
Um stóratburði innan flokksins og viðbrögð við þeim
Í gegnum tíðina hafa komið upp ýmis mál innan Pírata sem hafa kallað á skjót og skýr viðbrögð. Þá hefur oft þurft bæði að bregðast við í fjölmiðlum með skömmum eða engum fyrirvara, sem og með aðgerðum á vegum flokksins. Þegar vel hefur farið hafa áberandi einstaklingar í flokknum, yfirleitt kjörnir fulltrúar, gripið boltann á lofti og brugðist við með þeim hætti sem þeim hefur best verið unnt.
Þeir sömu einstaklingar hafa hinsvegar á sama tíma kvartað undan því að viðbrögðum þeirra sé hægt að taka þannig að þeir stígi umfram valdsvið sitt. Bent er á að sú athugasemd er óhjákvæmilega rétt þegar engum hefur verið falið það valdsvið. Eftir stendur að grípa þarf boltana þegar stóratburðir eiga sér stað, en ennfremur þarf að vera skýrt að umboðið til að grípa þá bolta sé til staðar og að skýrt sé hverjar boðleiðirnar séu, hvort heldur sem er fyrir einingar flokksins eða fjölmiðla.
Einnig er enginn miðlægur aðili fyrir einingar félagsins til þess að hafa samband við þegar ágreiningsmál koma upp, sem þýðir að líkurnar aukast verulega á því að ágreiningsmál stækki og verði jafnvel óviðráðanleg. Upp hafa komið mál sem óformlegir leiðtogar hreyfingarinnar, nefnilega kjörnir fulltrúar, hafa ekki haft hugmynd um fyrr en ratað hafa á forsíður fjölmiðla. Jafnvel þá hafa þeir haldið að sér höndum vegna fyrrgreinds umboðsleysis, með þeim afleiðingum að málin hafa orðið jafnvel enn stærri en þau hefðu ellegar þurft að verða.
Hafi hinsvegar einingar og meðlimir félagsins skýran tengipunkt er hægt að grípa ágreiningsmál snemma í ferlinu og auka líkurnar á því að farsælar lausnir finnist eða í það minnsta búa til almenna meðvitund um málin meðal þeirra aðila sem best geta brugðist við.
Af þessari ástæðu er lagt til að hlutverk formanns verði einnig að tryggja tengsl milli eininga félagsins og hafa frumkvæði að viðbrögðum við stóratburðum innan flokksins. Ekki er víst að formaðurinn sé sjálfur best til þess fallinn að bregðast við sjálfur, heldur er hlutverk hans fyrst og fremst að tryggja að viðeigandi einingar flokksins, hverjar sem þær eru, hafi upplýsingarnar og hvatninguna til þess. Hvort formaðurinn sjálfur taki þátt í viðbrögðunum sjálfum fer eftir atvikum.
Niðurlag
Í stuttu máli er formannsvaldið til staðar og hefur alltaf verið. Það hefur hinsvegar aldrei verið afmarkað og niðurnjörvað né því úthlutað með lýðræðislegum hætti. Því er þessi tillaga til formannsembættis ekki sett til þess að draga úr þeirri valddreifingu og ábyrgð sem upprunalega var stefnt að, heldur þvert á móti til að stuðla að hvoru tveggja.