Rökstuðningur fyrir formannsembætti

@mordur:

Þú segir: „Ég vil nú byrja á því að mótmæla þessum orðum: “Reynslan hefur hinsvegar leitt í ljós að það fyrirkomulag að starfa án formanns hvorki útrýmir né dreifir valdi og fyrirbyggir því ekki misbeitingu þess, heldur að reyndar geti áhrifin verið þveröfug.”“

Þessi reynsla kemur úr þingflokknum og ég get talið upp fyrir þig fjölmörg dæmi. Eitt þeirra er útskýrt frekar ítarlega í greinargerð tillögunnar, um sambland þingflokksformanns og formanns á þingi, en ég sé enga punkta frá þér gegn því - enda er það ekki álitamál að mér vitandi hvort þingflokksformaður hafi gegnt formannsembætti á þingi hingað heldur staðreynd. Þetta bara liggur fyrir og hlýtur að vera hafið yfir allan vafa. Svo má vera að þú viljir bregðast einhvern veginn öðruvísi við en með setningu embættis formanns, og þá er ég allur áfram eitt eyra, en það er samt þannig að á þingi hefur fomannsleysið leitt af sér valdasamþjöppun. Eina undantekningin sem ég veit til, var þegar Birgitta Jónsdóttir starfaði sem formaður meðan ég var þingflokksformaður (á 144. þingi). Í því dæmi fæ ég ekki betur séð en að við höfum einfaldlega brotið lögin, sbr. því sem kemur fram í greinargerð um að formannsembættið ætti ekki að hafa aukin pólitísk áhrif, sem hún samt vissulega hafði. Síðan tók hún aftur við þingflokksformennsku og þá sinnti hún hvort tveggja því hlutverki sem og hlutverki formanns með valdasamþjöppunaráhrifunum sem á undan er lýst.

Valdasamþjöppun sem einkennir þingflokk Pírata umfram alla aðra, notabene. Alveg þannig að það er pínu vandræðalegt að segjast tala um valddreifingu á sama tíma og við höfum þetta svona. Það liggur í hlutarins eðli að ef við ætlum ekki að hafa meiri valdasamþjöppun á þingi en aðrir flokkar, þá þurfa tveir einstaklingar að sinna þessum tveimur hlutverkum. Og væntanlega á að vera eitthvað lýðræðislegt umboð á bakvið þá einstaklinga. Ef ekki, þá erum við ekki í stöðu til að predika valddreifingu og lýðræði.

Síðan segirðu nokkra hluti sem eru hinsvegar matsatriði, ólíkt því sem hér á undan er farið yfir. Valdasamþjöppunin á þinginu sökum formannsleysisins liggur bara fyrir og er ekki spurning um viðhorf.

1. Lykillinn að því að grasrót Pírata hefur verið dugleg við stefnumótun og umræður

Tillagan felur ekki í sér neina breytingu á stefnumótun og veitir formanni engin völd í þeim efnum. Þvert á móti reyndar, að formaður skuli kunna skil á stefnu flokksins. Það hefur komið fyrir a.m.k. einu sinni að þingmaður okkar, sem vissulega fjölmiðlar og almenningur upplifðu sem formann, fór í viðtal (hjá Harmageddon, nánar til tekið) og talaði þá í andstöðu við nýsamþykkta stefnu flokksins. Við þetta varð nokkuð fjaðrafok. Ef sá einstaklingur hefði haft formlegan titil formanns og hefði verið lýðræðislega kjörinn, þá hefði þarna fylgt ábyrgð sem reyndist ekki til staðar. Það er því ágætt að setja þá kröfu og ábyrgð á hendur þess valdamikla einstaklings sem talinn er formaður hverju sinni, að viðkomandi hafi axlað þá ábyrgð að geta svarað fyrir stefnuna. Tillagan felur því ekki í sér aukin völd formanns, heldur temprun á því valdi sem fylgir óformlegri og óviðurkenndri en raunverulegri formennsku á borð við þá sem við höfðum á þessum tíma.

2. Fólk upplifir sig í hópi jafningja, að það er ekki flokkslegt stigveldi (e. hierarchy) sem litið er upp til.

Sjálfsagt er það þín upplifun, en mín upplifun er mjög ólík þessu. Ég hugsa að það sé ágætis hugartilraun að spyrja sig hvað fólk sem hafi áður verið hjá Pírötum en sé nú farið, myndi segja um þetta. Eða bara núverandi félagar. Leyfðu mér að spyrja; telur þú að ef ég segi eitthvað opinberlega, að það hafi jafn mikil áhrif og ef þú segir það? Viltu ekki frekar að ef ég segi eitthvað sem fjölmiðlar telja þar eftir vera afstöðu Pírata, að ég sé skikkaður til að geta svarað fyrir lýðræðislega ákveðna stefnu flokksins?

3.„ …þau vandamál þarf að mínu mati að leysa án þess að ganga gjörsamlega í björg hefðbundinnar stigveldisskiptingar í stjórnmálum með þeirri spillngu, valdabrölti og drulli sem fylgir óhjákvæmilega formlegum valdastólum sem einstaklingar berjast um, alltaf og allstaðar…“

Þarna ertu ekki að tala um tillöguna mína. Tillagan felur ekki í sér hefðbundna stigveldisskiptingu. Hlutverk formanns eru þarna skýrt afmörkuð við mjög ákveðin hlutverk og ekki önnur. Markmið tillögunnar er beinlínis að koma böndum á valdið, ekki að auka það. Ég held að hérna felist misskilningurinn. Tillagan felur ekki í sér aukið vald, heldur ramma utan um það vald sem þegar er til staðar. Tillagan á sér ekki fyrirmynd úr öðrum flokkum og embættið sem hún lýsir er ekki það sama og hjá öðrum flokkum, enda er það misjafnt milli flokka.

Viðbót: @mordur, ég sé í skrifum þínum sama markmið og ég hef með tillögunni, sem er að forðast að einhver einn einstaklingur hafi of mikil völd. Tillagan er lögð fram til að ná nákvæmlega því sama markmiði. Upptalningin á hlutverkunum er ætluð sem tæmandi. Hvað ef henni yrði breytt þannig að það yrði gert skýrt að þarna væri um tæmandi upptalningu á hlutverki formanns að ræða?

2 Likes

Þetta er þvert á við mína upplifun. Við höfum misst ógrynni af fólki í gegnum tíðina vegna þess að fólk fær ekki að blómstra og láta til sín taka. Það er mikilvægt að vera stnudum ósammála, vissulega, en við höfum ekki á neinn hátt verið laus við það að einn skyggi á annan. Þvert á móti hefur það verið mjög rík tilhneiging. Sá sem skyggir síðan mest á aðra er tekið sem formanni af fjölmiðlum og almenningi (a.m.k. sem óformlegum leiðtoga), en sá einstaklingur hefur þá samt hvorki fengið lýðræðislegt umboð með kosningu, né sætir hnan neinni ábyrgð.

2 Likes

Akkúrat núna er engin barátta um formannsstól framkvæmdaráðs og var ekki um síðasta formann heldur. Vandamálin í framkvæmdaráði eru langt frá því að snúast alltaf um formann.

Hinsvegar hefur langerfiðasti kaflinn í sögu okkar hvað varðar valdabrölt einmitt verið í þingflokknum vegna þess að við höfðum ekki formann.

Sko, það verður alltaf valdabrölt og ágreiningur. Spurningin er hvernig hlutirnir eru útkljáðir. Ef núna kæmi upp sambærilegur ágreiningur og hefur áður verið í þingflokknum milli einstaklinga sem vilja ráða og þeirra sem telja verið að stíga út fyrir valdheimildir, þá er engin leið til að útkljá það. Afleiðingin er ekki bara valdabrölt heldur nær-algjört meltdown á borð við það sem gerðist milli mín og Birgittu Jónsdóttur á þarsíðasta kjörtímabili og var ekkert langt frá því að eiga sér stað á því síðasta, þó eftir bara eitt ár.

Þegar það er bara útkljáð í eitt skipti fyrir einhvern ákveðinn tíma, hver sé formaður, þá er það bara skýrt fram að næstu kosningum um það sama embætti. Það er í rauninni algjört kraftaverk að við höfum lifað af ágreininginn á þarsíðasta kjörtímabili og satt best að segja stórefast ég um að það færi eins ef það sama myndi gerast aftur. Tel það reyndar næstum því óhugsandi; vegna þess að það er engin leið til að láta valdhafa bera ábyrgð ef þeir hafa völdin einungis óformlega.

Aftur tel ég það sem kristalli okkar ólíku skoðanir á þessu vera það, að þú telur tillöguna fela í sér aukningu valds til einstaklings, þegar ég er að leggja hana fram einmitt til að hafa hemil á því. Valdið var og er til staðar.

Og ég myndi reyndar leggja til að vandinn við formennsku framkvæmdaráðs sé mikið til sá sami; skortur á umgjörð og tæmandi skilgreiningu á hlutverkum.

2 Likes

Vandinn er greinilega að þeir sem eru á móti formannsembætti túlka þetta bara sem valdastöðu á meðan þeir sem eru fylgjandi líta á þetta sem ábyrgðarstöðu? Engin völd án ábyrgðar er náttúrulega grundvallaratriði og ef einhver sem hefur völd formanns án þess að vera kjörinn í það þá ber viðkomandi enga ábyrgð. Það er ekki gott gagnvart öllum öðrum.

2 Likes

Það er margt órætt enn, enda samræðan bara rétt að hefjast. Salvör hefur nefnt mikilvæg atriði að mínu mati sem væri gaman að sjá fleiri ávarpa. Svo er það, að “formaður” er ekki embætti í félagslegu tómarúmi. Það er ekki fyllilega á okkar valdi að skilgreina hvað það er, hversu ríkur sem sá ásetningur okkar kann að vera. Einnig má spyrja - ef formanneskja er ávallt þingmanneskja, nægir þá ekki að hafa þingflokksformanneskju? Formaður og þingflokksformaður er nokkuð vel í lagt, með bæði á þingi. Við getum beitt okkur fyrir því að opna þessa umræðu út á við, ef vill. Það gæti hreyft við því hvernig samfélagið skynjar þetta. Mér sýnist það anga af þeirri þingfortíð sem þingfólkið okkar, og ekki síst Helgi Hrafn, hefur verið svo ötult að gagnrýna.

Væri ekki einmitt upplagt að setja skilyrði um að formaður geti ekki verið þingmaður? Hvað áttu við með að opna þessa umræðu út á við?

Þetta var frekar óljóst hjá mér, fyrirgefðu Bjarki. Með að opna umræðuna út á við, átti ég við að skipa okkur í forsæti í samfélaginu í umbótum á því hvernig skipan (eða ekki skipan) formanna er háttað og hvaða spurninga við spyrjum um þetta málefni. Þ.e. grípa boltann og vera leiðandi í umræðunni.

Það fylgir ekki tillögunni að formaður þurfi að vera þingmaður. Það er almennt skynsamlegt en aðrir flokkar setja ekki þá kröfu.

@Kristinelfa: Eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni, þá er það núna þannig að þingflokksformaður sinnir störfum formanns og það er vandamálið. Aðrir flokkar eru með tvo einstaklinga í hlutverkum sem við setjum á hendur einnar manneskju. Það er á meðal þeirra vandamála sem ég vil leysa; valdasamþjöppunina sem er til staðar hjá okkur en ekki öðrum flokkum.

Hvað varðar þingfortíðina, þá vissulega varða stærstu vandamálin fortíðina sem betur fer - en vandamálin eru ennþá til staðar. Við stundum ennþá valdasamþjöppun umfram aðra flokka og það er ennþá vandamál. Ef sterkur einstaklingur bætist við í þingflokkinn sem nær pólitískum völdum umfram aðra, þá er enginn rammi eða ábyrgðarsvið og ekkert lýðræðislegt umboð. Þetta er svosem í lagi akkúrat núna vegna þess að þingflokkurinn inniheldur engan sem vill virkilega hafa sig í frammi umfram aðra, en um leið og það gerist, þá er voðinn vís eins og sagan sýnir.

Ef við stöndum fyrir valddreifingu, þá gengur ekki að við séum með mestu valdasamþjöppunina á þingi. En þannig er það núna.

Ef við stöndum fyrir lýðræði, þá gengur ekki að sá sem sinni formannshlutverkinu sé ákveðinn af þingflokki hjá okkur, en grasrót í öllum öðrum flokkum. En þannig er það núna.

Ef við stöndum fyrir ábyrgð við meðferð valds, þá gengur ekki að sá sem hleypur í störf formanns, hvort sem það eru hin formlegu á þingi eða óformlegu í fjölmiðlum, hafi nákvæmlega engan ramma, engin takmörk og enga ábyrgð gagnvart flokknum eða stefnu hans. En þannig er það núna.

Þetta er allt í lagi akkúrat núna, en það þarf mjög lítið að fara úrskeiðis til þess að allt fari í háaloft eins og áður, einmitt vegna þess að við erum ekki með lýðræðislegt aðhald eða ábyrgð í kringum þann valdastrúktúr sem verður óformlega til, þegar sterkur einstaklingur vill hafa sig í frammi umfram aðra. Við stólum algjörlega á það eitt, að einstaklingarnir sem núna eru í þingflokknum vinna rosalega vel saman. Það er heppilegt en engan veginn raunhæft að ætla að stóla á það til lengdar. Það þyrfti ekki nema einn að ætla sér að valdabröltast umfram hina og þá værum við komin í sama vanda og hefur oft komið upp áður, að þingmenn fara með völd sem enginn rammi er um, og enginn veitti þeim með atkvæði sínu innan flokksins.

1 Like

Ég fór einmitt aðeins yfir þessar ábendingar og vandann við formannsembættið. Það er nefnilega hætt við því að með því að hafa formann, sama hvernig það hlutverk er skilgreint, að það geti af sér hinn klassíska formann - sem væri gegn hugmyndafræði þessarar tillögu. Það er bara þannig að þrælslundin og málskilningurinn stjórna meiru í hegðun okkar en við viljum viðurkenna.

Þess vegna eru andstaða þín við formann rétt … en á sama tíma er það ekki endilega andstaða við það sem Helgi er að kalla eftir.

3 Likes

Það er að vísu hlutkesti sem ræður því en ekki þingflokkur. Bara til þess að það misskiljist alls ekki.

Þetta finnst mér vera algjört lykilatriði sem fólk þarf að átta sig á í þessari umræðu. Vandamálið er að án formannskjörs meðal félagsmanna þá höfum við lent í klíkumyndun innan þingflokks um það hver gegnir þessu hlutverki. Sú klíkumyndun hefur til dæmis einkennst af hótunum um að hætta þá ef hitt og þetta gerist ekki.

Við erum blessunarlega laus við það þetta kjörtímabilið. En það er engin trygging fyrir því að það haldi.

2 Likes

Sjáum bara hvernig næsti forsætisráðherra Bretlands verður valinn, ekki í almennri kosningu og heldur ekki af almennum félagsmönnum íhaldsflokksins er það? Eru það ekki bara nokkrir útvaldir (klíka) sem ráða? Við verðum að vera með strúktúr til að takast á við þetta í framtíðini. Til að vitna í Sam Vimes: Kóngurinn sem við höfum í dag getur vel verið góður en það er engin trygging fyrir því að sá næsti eða þarnæsti verði ekki ömurlegur :slight_smile: (lausleg þýðing)

Það er hlutkesti sem ræður því hver sé formlega skráður sem formaður hjá þinginu, það er rétt. Sá sem hefur hinsvegar sinnt formannshlutverkinu á þingi hefur verið þingflokksformaður, sem er valinn af þingflokki.

Burtséð frá því er viðkomandi í hvorugum tilfellum valinn af grasrót, sem er löstur á okkar starfi að mínu mati.

2 Likes

Að einhverju marki er það af því að allir fulltrúar sem eru vissulega valdir í prófkjöri eiga að sinna þessu hlutverki. Hvernig verkaskipting er á því hlutverki getur alveg verið fulltrúanna. En ef grasrótin vill skýrari ábyrgðartengingu á því þá er eina leiðin að gera það með kosningu.

1 Like

Þarf þá ekki að skikka þá í það? Segjum að einhver sé svo upptekinn við önnur (mikilvægari) mál, er þá réttlætanleg að hrúga formannsskildum á viðkomandi líka? Þetta virkar frekar losaralegt. Eða er ég alveg úti á túni?

1 Like

Mér finnst áhugavert að nýta þessa umræðu til að varpa upp fleiri möguleikum til að ávarpa vandann sem Helgi lýsir vel. Gætum við til að mynda varpað hlutkesti um formanneskju úr hópi þingfólks? Látið viðkomandi sitja í t.d. hálft ár í senn? Og haft það skýrt að þetta sé eingöngu til að forðast valdasamþjöppun á þingi, eða hvað það er sem við viljum helst ná fram með þessu? Einnig sýnist mér að við gætum lært ýmislegt af Kvennalistanum um bæði kosti þess og galla að hafa ekki formann. Ræðum þetta vel og ítarlega og veltum við öllum steinum áður en við tökum ákvörðun.

@Kristinelfa: Þetta er nú þess háttar tillaga að hún nær ekki langt nema hún verði almennilega rædd. :slight_smile: - sem er líka sjálfsagt.

Hvað varðar hlutkestinn, þá sé ég ekki hvernig hann leysir vandann, né hvaða kosti hún hafi umfram kosningu.

Í fyrsta lagi er vandinn umboðsleysi. Á þingi er formaðurinn að semja fyrir hönd annarra. Hlutkesti leysir það ekki.

Í öðru lagi snýst formennska ekki bara um þingið, þótt vissulega sé eðlilegt að formaður sé að jafnaði úr hópi þingmanna. Hlutverkið snýst fyrst og fremst um flokkinn, sem er önnur stofnun heldur en þingflokkurinn. Að mér vitandi takmarka ekki aðrir flokkar þetta hlutverk við þingmenn. - Reyndar hugsa ég að stærsta atriðið sem ég hef við núverandi fyrirkomulag að athuga, er hvernig málið er algjörlega á höndum þingflokks í dag, með engri aðkomu grasrótar.

Í þriðja lagi er formannshlutverkið þess eðlis að sá sem tekur það að sé þarf að vera til í það. Það fylgja þessu skyldur sem er eins gott að fólk sem taki það að sér, sjái fyrir sér hvernig það ætli að sinna. Þetta er ekki eitthvað sem er hægt að neyða upp á fólk.

3 Likes

Og hver ætti að vera Formaður ?

Væntanlega sá sem er kosin/nn

1 Like

@SigurdurAgust: Það er tær tímasóun að pæla í því ef við ákveðum ekki að taka upp formannsembætti. Mér detta allnokkur í hug sem yrðu ágætis formenn miðað við þessa lýsingu.

1 Like

Ansi áhugaverðar umræður.
Líkar þessi innlegg og ætla hér með að gera tilraun til þátttöku.

Ég hallast að því að vera sammála Helga og hans greiningu á þessu fyrirbæri og fagna þessari umræðu.

Ég er ekki hræddur við að Píratar af öllum flokkum falli í þá gryfju að gera formanneskjuna sína of valdamikla. Né hef ég áhyggjur af valdabrölti þar sem það er nú þegar til staðar alls staðar þar sem einstaklingar af tegundinni Homo Sapiens dvelja samann.

Hér þarf einfaldlega að koma saman og ræða þetta, kosti og galla og ef úr verður að það teljast til fleiri kosta að stofna þetta embætti formlega þá endilega kíla á það. Ef við sjáum svo að þetta voru mistök þá bara breytum við til baka. Píratar sem heildrænt fyrirbæri hafa ekki að mér vitandi framselt valdið sitt.

Ég sé leiðtoga ekki sama fyrirbærið og yfirmaður. Þegar ég hef rætt þetta við fólk festist umræðan oft í hugtökum eins og valdi og valdabaráttu og sérstaklega þessu orði Formaður. Fyrir mér kemur þetta oft undarlega út. Píratar hafa aldrei fallið undir þann hatt að vera lausir við innvortis valdabaráttu, prófkjör og kosningar bara sem dæmi hafa oft lyktað af einhverskonar hagsmunapoti og innvortis valdabaráttu. Með það sagt tel ég það mannlegt og eðlilegt, við höfum þróast með og í umhverfi sem byggir og keyrir á samkeppni.

Þeir sem telja sig til vitiborinnar tegundar ætti að vera tamt að sjá hvað við erum og hvað ekki. Að horfast í augu við sannleikann er mikilvægt þroskaskref. Píratar eru þar núna og við það að taka út þennan þroska.

Manneskjan er samfélagsleg samkeppnis vera. Það er okkur eðlislægt að horfa og leita til þeirra sem eldri eru og þeirra sterku, þetta gaf okkur þróunarlegt forskot þar sem upplýsingum, reynslu og tengslum var deilt og beitt til að sigrast á andstæðingum sínum. Í dag reynum við eftir besta megni að stilla þessu í hugmyndafræðilegt átök í stað líkamlegra sem er gott. Sem tegund getum við breyst en það tekur tíma.

Að velja sér leiðtoga í því umhverfi sem við lifum í núna “The big now” er eðlilegt og gagnlegt. Hvernig við í grasrótinni stillum umgjörðina kringum fyrirbærið er hins vegar það sem mun skipta mestu máli; hlutverk, valdsvið, ítök og umboð svo eitthvað sé nefnt. Tilraunir okkar með að þykjast ekki hafa formanneskju hefur valdið okkur skaða og neitað okkur um tækifæri sem annars hefðu verið til staðar.
Ég hef starfað í grasrótinni og fengið að starfa í Framkvæmdaráði. Ég held það væri forskot fólgið í því að taka þetta skref og gera það vel.

Ég hræðist ekki það sem fólk hér að ofan sumt hvert bendir á. Þetta mun vera í höndum grasrótarinnar að móta, samþykkja og fylgja eftir þar af leiðandi getum við gert þetta hvernig sem við viljum. Eitt er ljóst að núverandi ástand á uppbyggingu flokksins er okkur frekar til skaða og með því erum við að skora sjálfsmark fyrir hugmyndafræðilega andstæðinga okkar.

Við höfum alltaf haft fólk sem tekur að sér forustu. Stundum hefur það farist vel úr hendi og heppnast vel en oftar verið til vandræða þar sem því fólki er í sjálfsvald sett hvernig það tæklar hlutverkið.

Þar sem leikreglur hafa ekki verið settar hefur þetta fólk haft mjög lausan taum hvernig það kýs að varpa sér, sínum völdum og sínum skoðunum fram.

Greining Helga er góð og hún heldur vatni og mæli ég með að hún verði tekin fyrir.

Ég tel Pírata þurfa leiðtoga ef við ætlum að vera samkeppnishæf og lifa af sem stjórnmálaafl.

Saman gerum við heiminn betri kæru félagar en það gerist ekki af sjálfu sér.

Jónas Lövdal

2 Likes