Þú segir: „Ég vil nú byrja á því að mótmæla þessum orðum: “Reynslan hefur hinsvegar leitt í ljós að það fyrirkomulag að starfa án formanns hvorki útrýmir né dreifir valdi og fyrirbyggir því ekki misbeitingu þess, heldur að reyndar geti áhrifin verið þveröfug.”“
Þessi reynsla kemur úr þingflokknum og ég get talið upp fyrir þig fjölmörg dæmi. Eitt þeirra er útskýrt frekar ítarlega í greinargerð tillögunnar, um sambland þingflokksformanns og formanns á þingi, en ég sé enga punkta frá þér gegn því - enda er það ekki álitamál að mér vitandi hvort þingflokksformaður hafi gegnt formannsembætti á þingi hingað heldur staðreynd. Þetta bara liggur fyrir og hlýtur að vera hafið yfir allan vafa. Svo má vera að þú viljir bregðast einhvern veginn öðruvísi við en með setningu embættis formanns, og þá er ég allur áfram eitt eyra, en það er samt þannig að á þingi hefur fomannsleysið leitt af sér valdasamþjöppun. Eina undantekningin sem ég veit til, var þegar Birgitta Jónsdóttir starfaði sem formaður meðan ég var þingflokksformaður (á 144. þingi). Í því dæmi fæ ég ekki betur séð en að við höfum einfaldlega brotið lögin, sbr. því sem kemur fram í greinargerð um að formannsembættið ætti ekki að hafa aukin pólitísk áhrif, sem hún samt vissulega hafði. Síðan tók hún aftur við þingflokksformennsku og þá sinnti hún hvort tveggja því hlutverki sem og hlutverki formanns með valdasamþjöppunaráhrifunum sem á undan er lýst.
Valdasamþjöppun sem einkennir þingflokk Pírata umfram alla aðra, notabene. Alveg þannig að það er pínu vandræðalegt að segjast tala um valddreifingu á sama tíma og við höfum þetta svona. Það liggur í hlutarins eðli að ef við ætlum ekki að hafa meiri valdasamþjöppun á þingi en aðrir flokkar, þá þurfa tveir einstaklingar að sinna þessum tveimur hlutverkum. Og væntanlega á að vera eitthvað lýðræðislegt umboð á bakvið þá einstaklinga. Ef ekki, þá erum við ekki í stöðu til að predika valddreifingu og lýðræði.
Síðan segirðu nokkra hluti sem eru hinsvegar matsatriði, ólíkt því sem hér á undan er farið yfir. Valdasamþjöppunin á þinginu sökum formannsleysisins liggur bara fyrir og er ekki spurning um viðhorf.
1. Lykillinn að því að grasrót Pírata hefur verið dugleg við stefnumótun og umræður
Tillagan felur ekki í sér neina breytingu á stefnumótun og veitir formanni engin völd í þeim efnum. Þvert á móti reyndar, að formaður skuli kunna skil á stefnu flokksins. Það hefur komið fyrir a.m.k. einu sinni að þingmaður okkar, sem vissulega fjölmiðlar og almenningur upplifðu sem formann, fór í viðtal (hjá Harmageddon, nánar til tekið) og talaði þá í andstöðu við nýsamþykkta stefnu flokksins. Við þetta varð nokkuð fjaðrafok. Ef sá einstaklingur hefði haft formlegan titil formanns og hefði verið lýðræðislega kjörinn, þá hefði þarna fylgt ábyrgð sem reyndist ekki til staðar. Það er því ágætt að setja þá kröfu og ábyrgð á hendur þess valdamikla einstaklings sem talinn er formaður hverju sinni, að viðkomandi hafi axlað þá ábyrgð að geta svarað fyrir stefnuna. Tillagan felur því ekki í sér aukin völd formanns, heldur temprun á því valdi sem fylgir óformlegri og óviðurkenndri en raunverulegri formennsku á borð við þá sem við höfðum á þessum tíma.
2. Fólk upplifir sig í hópi jafningja, að það er ekki flokkslegt stigveldi (e. hierarchy) sem litið er upp til.
Sjálfsagt er það þín upplifun, en mín upplifun er mjög ólík þessu. Ég hugsa að það sé ágætis hugartilraun að spyrja sig hvað fólk sem hafi áður verið hjá Pírötum en sé nú farið, myndi segja um þetta. Eða bara núverandi félagar. Leyfðu mér að spyrja; telur þú að ef ég segi eitthvað opinberlega, að það hafi jafn mikil áhrif og ef þú segir það? Viltu ekki frekar að ef ég segi eitthvað sem fjölmiðlar telja þar eftir vera afstöðu Pírata, að ég sé skikkaður til að geta svarað fyrir lýðræðislega ákveðna stefnu flokksins?
3.„ …þau vandamál þarf að mínu mati að leysa án þess að ganga gjörsamlega í björg hefðbundinnar stigveldisskiptingar í stjórnmálum með þeirri spillngu, valdabrölti og drulli sem fylgir óhjákvæmilega formlegum valdastólum sem einstaklingar berjast um, alltaf og allstaðar…“
Þarna ertu ekki að tala um tillöguna mína. Tillagan felur ekki í sér hefðbundna stigveldisskiptingu. Hlutverk formanns eru þarna skýrt afmörkuð við mjög ákveðin hlutverk og ekki önnur. Markmið tillögunnar er beinlínis að koma böndum á valdið, ekki að auka það. Ég held að hérna felist misskilningurinn. Tillagan felur ekki í sér aukið vald, heldur ramma utan um það vald sem þegar er til staðar. Tillagan á sér ekki fyrirmynd úr öðrum flokkum og embættið sem hún lýsir er ekki það sama og hjá öðrum flokkum, enda er það misjafnt milli flokka.
Viðbót: @mordur, ég sé í skrifum þínum sama markmið og ég hef með tillögunni, sem er að forðast að einhver einn einstaklingur hafi of mikil völd. Tillagan er lögð fram til að ná nákvæmlega því sama markmiði. Upptalningin á hlutverkunum er ætluð sem tæmandi. Hvað ef henni yrði breytt þannig að það yrði gert skýrt að þarna væri um tæmandi upptalningu á hlutverki formanns að ræða?