Sleppa borgarlínu, ókeypis í strætó

Það hefur farið fram umræða um að koma á fót svokallaðri Borgarlínu.
Þetta er mikil fjárfesting í innviðum, til að leysa vandamál sem er að fara að leysast með sjálfkeyrandi bílnum hvort eð er.

Einnig tekur borgarlínan sjálf mikið land.

Því legg ég til að við sleppum Borgarlínunni eins og hún leggur sig, og gerum þess í stað bara ókeypis í strætó.

Þá, í staðin fyrir að hafa
-tóma borgarlínu,
-tóman strætó
-götur troðfullar af mengandi bílum,

höfum við:
-hálftóman strætó
-ekki alveg jafn mikið af bílum
-fullt af peningum til að eyða í eitthvað annað.

Málið er að bíllinn er að fara að verða sjálfkeyrandi, og þegar það gerist mun grundvöllurinn fyrir borgarlínunni hrynja. Og þá mun það verða afar óheppilegt að vera búin að eyða svaka pening í hana.

1 Like

Stutta svarið er að frítt i strætó leysir ekki það vandamál sem Borgarlínu er ætlað að leysa.

Aðeins lengra svarið er að borgarlína er meira en samgöngukerfi. Hún er skipulagskerfi. Hún byggir á því að borgarhverfi séu skipulögð meðfram þéttingarásum, með minni borgarkjörnum, utan um hraðar og skilvirkar almenningssamgöngur sem tengi saman þessa kjarna og þéttingarása. Þú getir semsagt farið fótgangandi eða hjólandi eða á hefðbundnum strætó fljótt og auðveldlega í hverju hverfi, og svo hratt og örugglega á milli þeirra með borgarlínu.

Það er fyrirséð að sú fólksfjölgun sem mun verða næstu áratugi á höfuðborgarsvæðinu mun þyngja umferð töluvert. Til að stemma stigu við því, hægja á þyngingu umferðar eða jafnvel snúa henni við, er meiri notkun almenningssamgangna, sem séu skilvirkar og hraðar, og að byggð sé þéttari þannig að innviðir nýtist betur fótgangandi/hjólandi eina svarið sem virkar og skilar árangri með einhverjum viðsættanlegum tilkostnaði. Til að byggja nógu mikið af nógu breiðum vegum og mislægum gatnamótum til að halda í við fjölgunina í óbreyttu notkunarhlutfalli á einkabíl/annað, myndum við þurfa að eyða margfallt meiri peningum og samkvæmt þeim rannsóknum sem var farið í áður en lagt var í borgarlínuáætlunina, myndi það ekki einu sinni duga til. Það er einfaldlega ekki kerfi sem skalast nógu vel upp þegar fjöldinn eykst. Sérstaklega ekki ef byggð er ekki þéttuð ansi hressilega.

Við erum semsagt ekki að velja milli þess að setja peninga í borgarlínu eða sleppa því. Við erum að velja milli þess að setja mikla peninga í borgarlínu, eða ógeðslega mikla peninga í vegakerfið. Þetta er hluti af sömu útreikningum.

Hvað varðar að gefa frítt í strætó, þá hefur það verið reynt víða, líka hér í nokkrum mæli. Stutta svarið er að þegar frítt er í strætó, þá fjölgar farþegum nokkuð. Þeim fjölgar samt ekki um það fólk sem annars hefði verið á bíl. Þeim fjölgar um það fólk sem annars hefði gengið, hjólað eða verið heima. Svo það dregur mjög lítið úr umferð.

Verð á farinu er, þegar öllu er á botninn hvolt, ekki ástæðan fyrir því að fólk notar ekki strætó. Það sem þarf að breytast til að fleiri séu tilbúnir að nota almenningssamgöngur meira. (og enginn er að segja að allir eigi að nota þær alltaf, bara að hlutfall heildar-ferða fari aðeins upp á við, bara að fara upp í 12-15% myndi létta mjög mikið undir umferðinni sem er áfram á bílum), er að biðin þarf að verða styttri og vagninn þarf að komast hraðar áleiðis.

Það er ekki freistandi að sitja í almenningssamgöngum ef þær eru alveg jafn fastar í traffík og einkabíllinn hefði verið. (og frítt í strætó hugmyndin leiðir til þess)

Það eina sem virkar í því samhengi er vagnar á sér-brautum. Sem þurfa ekki að bíða eftir traffík eða ljósum og sem geta komist rakleitt á milli borgarhluta, með betri biðstöðvum og tíðari ferðum.

Ég hef heyrt þessa tillögu áður, og þó hún sé ekkert út af fyrir sig vitlaus, þá er hún bara ekki til þess fallin að leysa þau vandamál sem þarf að leysa.

6 Likes

Þannig að borgarlínan mun koma til með að hafa fá stopp og háan meðalhraða?

Ef maður er nægilega óskynsamur til að vera á bíl þegar það er ekki algjör nauðsyn, þá er maður nægilega óskynsamur til að halda því áfram, jafnvel þótt strætóinn verði ókeypis. Það er kannski pæling.

Grunnur vandans er þá ekki að það kostar í strætóinn, heldur óskynsemi.

Ef að fólk myndi reikna dæmið til enda, takandi mið af öllum breytum, þá myndi umferð hrynja og fólk hjóla miklu miklu meira. Jafnvel þó það myndi hundsa hin skaðlegu ytri áhrif sem það veldur öðrum (mengun, hljóðmengun, lífshætta, almenn óþægindi, bílastæðapláss, hraðbrautarbyggingar o.þ.h.).

Þetta er kannski sambærilegt við smálánavandamálið, fólk í hrönnum að taka slæmar ákvarðanir fyrir sjálft sig, með neikvæðum ytri áhrifum til viðbótar fyrir okkur hin.

Varðandi að hafa ókeypis í strætó. Það eru ein rök. Ókeypis sem takk fyrir að gera traffíkina ekki verri.

Allt rétt sem @XandraBriem segir hér að ofan og er ég sammála henni. Bæti aðeins við hvað varðar sjálfkeyrandi bíla.

Þar sem umferðarvandinn snýst í grunninn um það flatarmál sem hver vegfarandi tekur af gatnakerfinu þegar ferðast er þá munu sjálfkeyrandi bílar ekki leysa vandann. Í dag er það svo að í langflestum bílum er bara einn vegfarandi; bílstjórinn. Það er ólíklegt að tilkoma sjálfkeyrandi bíla muni breyta því að neinu ráði og í raun engin ástæða til að ætla það. Það er helst að sjálfkeyrandi bílar gætu mögulega minnkað bílastæðaþörfina. Þ.e.a.s. ef við göngum út frá því að megnið af þeim verði hluti af deilihagkerfi og því verði þeir svo gott sem stöðugt á ferðinni.

Einu leiðirnar til að minnka flatarmálið sem vegfarandi tekur af gatnakerfinu er að færa hann af því (tveir jafnfljótir, hjól, eða annað sem notar ekki bílagötuna sjálfa), yfir í farartæki þar sem fleiri ferðast saman (deila bíl (e. carpool), eða skipulagðar almenningssamgöngur), eða bæði (lest, LRT (léttlestarkerfi), eða BRT (bus rapid transit). Samgönguhluti Borgarlínu er BRT kerfi.
Þá má ekki gleyma að Borgarlína og reyndar venjulegur strætó gæti vel orðið sjálfkeyrandi innan skamms. Það er helst þar sem sú tækniþróun gæti bætt almenningssamgöngur.

Hér er ágæt grein um af hverju sjálfkeyrandi bílar munu ekki leysa almenningssamgöngur af hólmi.

2 Likes

Málið er það að það eru allir á miklu stærri bíl en þörf er á, því þeir eiga sinn eigin bíl. Og af því þeir eiga sinn eigin bíl finnst þeim þeir verð að eiga bíl sem getur tekið 5 manns því í þessi 10% tilfella þá verður að geta tekið við fleiri manneskjum. Þetta verður ekkert svona ef maður á ekki sinn eigin bíl. Þá pantar maður bara bíl fyrir það sem maður þarf hverju sinni. Og í 90% tilfella verður það bara eins manna pod. Gæti jafnvel farið að tíðkast að fólk ferðist saman með því að vera hvert á eins manns pod. Getum hvort eð er talað saman í rauntíma með video í topp gæðum á meðan. Sem þýðir að bílar verða minni.

Í þessari grein þá er ákveðinn grundvallarforsenda í gangi sem stenst ekki. Það er búið að gefa sér að þegar bíllinn verður sjálfkeyrandi að þá verður allt eins, nema bara tölva keyrir bílinn.

En það verður ekkert þannig.

Þegar bíllinn verður sjálfkeyrandi verður hægt að þróa hann áfram með hætti sem hefur ekki verið mögulegt meðan fólk keyrði bílinn. Í samfélagi þar sem allir bílar eru sjálfkeyrandi getur tölvukerfið vitað hvar allir bílar eru. Það er engin spurning um neitt. Allt er vitað.

Og þegar allt er vitað og forritanlegt verða t.a.m. götuljós óþörf. Tölvan veit nákvæmlega hvaða bíll er bakvið hornið, hversu hratt hann fer og þar fram eftir götunum. Því verða gatnamót þannig að tölvukerfið ákveður allt. Bílar munu fara á 200km hraða í gegnum brjáluð gatnamót, bara fínstilla hraðann í eina eða tvær mínútur áður en farið er yfir þau til að rekast ekki á neinn annan bíl. Og þeir munu aldrei gera mistök. Verður eins og í einhverri matrix bíómynd.

Sjálfvirknivæðing bílsins er bara enn eitt skrefið í miklu lengri og stærri þróun, sem hefur fyrirfram ákveðinn áfangastað.

Það mun verða:
-Engin götuljós.
-Engin mislæg gatnamót
-Engar umferðarreglur, (tölvukerfið metur allt)
-Engin bílastæði
-Miklu meiri hraði
-Engin slys
-Engir menn bakvið stýrið

Engir menn munu ákveða eða framkvæma neitt. Tölvukerfið sér um allt.

Þetta mun kosta stjálfstæði þjóðarinnar því að hver sá sem stjórnar tölvukerfinu, stjórnar samfélaginu og hefur líf þess í höndum sér. Svo mikið að það þarf ekki einu sinni að ræða þetta, stríðið er tapað áður en það hefst. Og þar sem að það verður ekkert vafamál um þetta að þá verður ekkert stríð, skilyrðin byrja bara að mæta og við munum bara gera eins og okkur er sagt.

Þetta verður einhverskonar valdablokk. Og að endingu mun öll plánetan verða ein blokk.

Vandinn við þessa framtíðarsýn sem þú ert að lýsa þarna er að ef af þessu verður þá eru að lágmarki 50 ár í þetta. Ég myndi skjóta á líklega nær 200 árum. Þetta hljómar ekkert ósvipað draumnum um fljúgandi bílinn. Þ.e.a.s. þessi heildarsýn sem þú lýsir þarna.

Vandinn er ekki tæknin heldur tíminn sem mun taka að innleiða þetta allt saman og fá fólk til að hætta að keyra sjálft.

Okkur vantar lausn núna, ekki eftir einhverja áratugi. Þar kemur Borgarlínuverkefnið inn. Það er lausn sem er tæknilega framkvæmanleg núna. Lausn sem síðar meir verður hægt að nýta við innleiðingu sjálfkeyrandi bílakerfis.

Jafnvel þó sýn þín væri raunhæf innan svipaðra tímamarka og Borgarlína þá tæki eins manns pod mun meira flatarmál heldur en plássið sem þarf fyrir farþega í almenningssamgöngukerfi.

3 Likes

Jájá þetta er eitthvað inn í framtíðinni. Spurning um magn en það er eitthvað talsvert.

Þess utan þá verða borgarlínubílarnir alveg sjálfkeyrandi og effectífari líka, það eru samlegðaráhrif af þessum atriðum, þau eru ekki í samkeppni.

Dreifi-eign á bílum sem gæti komið meira inn með sjálfkeyrandi bílum gæti þá skilað þér á skiptistöð fyrir línuna og þú svo tekur hana í næsta kjarna og tekur þar annan sjálfkeyrandi bíl, eða tekur rafmagnshjól sem er hluti af kerfinu og heldur áfram.

Það er ekkert nema samlegð þarna

2 Likes

Er í sjálfu sér ekki á móti hugmyndinni um ókeypis í strætó, en langar til að leiðrétta misskilning sem ég sé hérna í þráðunum.

Það er alls ekkert tómlegt í strætó. Það kemur reglulega fyrir á þeim tímum sem ég er að taka strætó að ég fái ekki sæti. (Bý í miðbæ, rek gallerí í Hamraborg og tek strætó um helgar þangað, oft líka í Hafnarfjörð sömu daga, og leið 1 er svo pökkuð á laugardögum og sunnudögum að maður fær ekki alltaf sæti).

Það má vel vera að strætóar séu eitthvað tómir í miðri viku um miðjan dag, en á morgnana og þegar fólk er að fara heim úr vinnu er mikil notkun.

2 Likes

En btw, svo það sé skýrt þá er ég hlynntur verðlækkun í strætó, veit bara ekki hvar það er á forgangslistanum. (Lægra verð á leikskóla er líka eitthvað sem væri gott). Allt eitthvað sem nýtist láglaunafólki betur en útsvarslækkun.

1 Like

Það eru mörg ár síðan ég hætti algerlega að botna í kvörtunum yfir verðinu á strætó. Ég myndi ekkert kvarta undan því að borga minna sjálfur, en það sama segi ég um bjórinn á barnum, tryggingarnar á bílnum og eiginlega allt annað sem ég geri. Mér finnst verðið á strætó ekki á nokkurn hátt skera sig úr miðað við verð á vörum og þjónustu almennt, en kannski er það vegna þess að mér finnst strætó bara svo ljómandi heppilegur kostur; sérstaklega fyrir löngu vegalengdirnar á stórhöfuðborgarsvæðinu. Kannski er það líka vegna þess að mér finnst fátt leiðinlegra og verri nýting á tíma mínum en að vera fastur með hendurnar á einhverju stýri og augun á malbiki í þeim eina tilgangi að lifa ferðina af. Ef maður þarf að fara lengst út á jaðar höfuðborgarsvæðisins, er ekki betra að geta þá gert það sem manni sýnist á meðan? Og eru örfáir hundraðkallar ekki bara sanngjarnt verð fyrir það?

Sorrí, smá útúrdúr, þarna. Allavega.

Ég held ekki heldur að sjálfkeyrandi bílar leysi vandamálið sem Borgarlínu er ætlað að leysa.

Framtíðarsýnin sem @hermanningjaldsson nefnir er alveg möguleg, en það er mjög langt í hana. Ekki bara vegna þess að ennþá vantar þessa tækni, heldur að hún verður ekki að möguleika fyrr en allir eru komnir á sjálfkeyrandi bíl.

Sjálfkeyrandi bílar krefjast líka mannlegrar umsjónar. Maður getur ekki bara farið blekaður upp í sjálfkeyrandi bíl og farið að sofa á meðan hann keyrir mann heim. Ástæðan fyrir því er að það eru ennþá svo margar aðstæður sem þeir ráða ekki við og satt best að segja er ég ekkert viss um að það breytist á næstunni. Þess vegna held ég að það sé mun lengra en fólk heldur í að þeir úreldi umferðarljós og þess háttar.

Einnig verða þessir bílar a.m.k. mjög dýrir í mjög langan tíma. Það ættu allir að vera komnir á rafmagnsbíla núna, er það ekki? Nei, vegna þess að þeir eru ennþá mjög dýrir. Það tekur langan tíma að skipta út heilum bílaflota af þeirri ástæðu einni saman.

Borgarlína er eina vitið. Það er engin ástæða til að sleppa henni. Einu rökin sem ég hef heyrt gegn henni er að hún sé svo rosalega dýr, en það er ekkert við öðru að búast heldur en miklum kostnaði þegar það er verið að fara í miklar framkvæmdir til að laga stórt vandamál. Samgöngukerfi eru fokdýr. Það eina sem hái kostnaðurinn segir mér er að þá séu þetta viðamiklar framkvæmdir.

2 Likes

Varðandi verðið í strætó. Málið er að manni finnst maður vera að gera samfélagin gott með því að vera ekki á einkabíl. Einkabíllinn veldur hávaða og mengun. Hann veldur sjónmengun og hann krefst gríðarlegs pláss. Einnig veldur hann sjarmaminnkun í kringum sig þar sem allir þurfa að passa sig á viðkomandi. Hversu sjarmerandi er að vera í Kringlunni/Smáralind miðað við miðbænum. Þetta er munurinn sem einkabíllinn veldur. Svo deyja tugir manna í umferðinni á hverju ári, fjöldi í viðbót örkumlast og svo er mengunin að drepa marga líka.

Einnig er viðbótareiningarkostnaðurinn í strætó núll. Þ.e.a.s. fyrst við erum að hafa þessa strætóa keyrandi á annað borð, þá kostar ekki neitt meir að láta þá vera vel notaðir.

Þess vegna finnst manni það sárt þegar verið er að verðleggja strætóferðirnar alveg upp í topp. Það er þjóðhagslega skaðsamt. Strætóarnir verða tómri. Borgin mengaðari og ljótari.

Þetta snýst um stóra samhengið, ekki hvernig þetta snertir mig persónulega.

Góð grein um sjarmaeyðileggingu einkabílsins:


Málið með sjálfkeyrandi bíla er að þetta er tækni eins og öll önnur. Og öll svona tækni sem þessi virkar þannig að hún er afskaplega lengi að komast af stað, en svo þegar hún loks kemst af stað þá myndast þrífst á sjálfri sér virkni sem gerir það að verkum að framfarirnar verða mjög örar. Þegar 20% verður kominn á sjálfkeyrandi bíl þá mun verða örstutt í 80%. Og þetta mun ekki krefjast endurnýjunar á bílaflotanum heldur það að fólk fattar að það getur bara ýtt á nokkra takka á símanum og fengið fljótlegra ódýrara far en með bílnum sínum. Þetta verður allt leigubílar sem þýðir að bílaflotinn verður miklu minni sökum aukinnar notkunar hvers bíls. Svo verður hann miklu hagkvæmari líka því viðkomandi fyrirtæki getur þá séð um viðhaldið á honum sem þýðir að þú þarft aldrei að eiga við bifvélavirkja aftur og fyrirtæki þarf aldrei að treysta þér fyrir því að stjórna viðkomandi bíl heldur. Allt leyst.

Málið með rafmagnsbílinn er að bensínbílaframleiðendurnir hafa verið að halda honum niðri kerfisbundið til að þurfa ekki að fjárfesta í nýrri tækni. Það var það sama með Kodak og stafrænu myndavélina. Það er svona þegar tækni er komin í þróunarfræðilega blindgötu. Þetta tefur alveg gríðarlega því sá sem á tæknina vill ekki að þetta gerist því viðkomandi er búinn að fjárfesta svo mikið í þessu og er bestur í geiranum svo framarlega sem nýjan tækni taki ekki yfir. Því berst hann gegn þessu. Kodak fundu upp stafrænu myndavélina sjálfir 1973, og þeir töpuðu ekki fyrir henni fyrr en einkaleyfið þeirra rann út 25 árum seinna og allir gátu farið að nota hana. Sama hvað þeir rauluðu og tautuðu. Það er kaldhæðni að þeir sem Þeir áttu að vera fremstir reyndust vera fremstir í að berjast gegn framþróuninni. Gerist oft. Þeir gátu aldrei viðurkennt yfirburði hinnar nýju tækni. Þeir vildu frekar fara á hausinn en gangast við því að þeir voru á rangri leið.

Það er svo erfitt þegar maður hefur lagt vinnu og metnað í eitthvað, og þarf svo að sætta sig við að þetta var allt tímasóun og nú bara henda öllu. Það kemur alveg brjálað NOBE! í mann. Við mennirnir verðum að verða betri í að eiga við sokkinn kostnað. Mistök eru litin alltof miklu hornauga.

Með rafmagnsbílinn þá er það eins og það var með Kodak. Nú er tíminn runninn upp, þeir geta ekki stöðvað þróunina lengur. Rafmagnsbíllinn er kominn með þennan krítíska massa og nú eru allir hinir bílaframleiðendur að byrja að bjóða uppá hann sem viðbragð við Tesla.

Ég myndi giska að sjálfkeyrandi rafmagnsbílar verði bara alveg komnir 2040.
Og þá einhverntíman verði bannað að keyra um sjálfur á eigin bíl.
Svo um 2050, engin götuljós og öll sú geðveiki.

Það er ekki heldur eins og að borgarlínan sé að fara að birtast hérna á morgun. Hlutir taka líka tíma með hana.

Ég var að rökræða um sjálfkeyrandi bíla árið 2001, þá sagði viðkomandi að bílar myndu aldrei keyra sjálfir. Ég sagði honum að gefa þessu 20 ár og þá gæti hann farið út í búð og keypt einn. Verður spennandi að sjá hvort það verði rétt.

Málið með rafmagnsbílinn er að þegar þeir skala framleiðsluna upp þá mun verðið fara niður. Sem mun auka eftirspurnina og þá skala þeir hann meir upp þá lækkar verðið aftur og þannig áfram. Þetta snýst allt um þrífst á sjálfri sér virknina. Hún er það eina sem skiptir máli í stóra samhenginu en hún er alltaf hundsuð í útreikningum. Sem er kaldhæðnislegt.

Þar til nú hefur þrífst á sjálfri sér virknin öll unnið fyrir bensín mannkeyrða bílinn, en það er að breytast.

Þetta er veldisvöxtur og fólk vanmetur veldisvöxt alltaf. Albert Einstein kallaði þetta ein af undrum veraldar. Ef þú tvöfaldar eina krónu 10 sinnum færðu þúsund kall. 20 sinnum milljón, 30 sinnum milljarð.

Þegar ég hugsa um þetta sjálfur, ef ég myndi ráða þessu. Þá myndi ég helst detta inná að afnema bara skatt á hjólum og rafmagnsbílum, bæta hjóla og göngustíga, gera ókeypis í strætó, þétta byggðina með nokkrum vel hönnuðum skýjakljúfum og gefa þessu 10 ár.

Það eru blikur á lofti í samgöngumálum heimsins.
Svo væri það betra fyrir fátæka og myndi flýta fyrir komu rafmagnsbílsins á heimsvísu þar sem við myndum kaupa meira af honum.

1 Like

Ókeypis í strætó,

ég er sammála, en þar sem ég held að allt kerfið sé á móti því, pólitíkusar, embættismenn, stjórnendur strætó og svo þeir sem eiga nóg af pening og þurfa aldrei eða sjaldan að nota strætó þá er þetta borinn von. Ég nota strætó sjaldan en finnst það, öfugt við helgihg rán dýrt. Að það kosti mig (og venjulega er ég með konu og eða með börn með mér) samtals tæpan þúsundkall að skreppa bæjarleið, og nærri tvö þúsund kall ef ég fer fram og til baka sem kemur oft fyrir er bara dýrt, hvað þá fyrir þá sem eru á lágum launum. Síðan náttúrulega myndi það skemma og beygla hina kapítalísku hugmynd að allir eigi að treysta á sjálfan sig í að koma sér á milli.

Þar af leiðandi til að nálgast þetta mynd ég vilja að það væri farið í mikið meiri áróður, tilboð og boðið upp á ókeypis vagna á ýmsum dögum og tímum: fyrir jól, sumadaginn fyrsta, suma föstudaga osf. SVR er mjög staðnað PR fyrirbæri.

Síðan ætti að bjóða upp á mjög ódýrt árskort til dæmis tíu þúsund kall fyrir einstaklinga, mætti kannski fara í 15 til tuttugu þúsund en ekki mikið meira. Þetta held ég að myndi leiða til þess að fleiri myndu kaupa kort með það í huga að nota það í einstaka tilfellum, sumir myndu fara að nota SVR vegna þess að þeir ættu kortið. Segjum að tuttugu og fimm þúsund myndu kaupa kortið þá er það bara slatti monnní eða fimm hundruð millur. 500.000.000.- Rekstrargjöld eru hins vegar mun hærri eins og sjá má hér:

Rekstrargjöld 2013 2012 2011 2010

Rekstur vagna 2.261.921.309 kr. 1.653.107.357 kr. 1.319.274.866 kr. 1.220.229.393 kr.
Aðkeyptum og tengdur
kostnaður 1.750.064.556 kr. 1.407.635.254 kr. 1.112.971.147 kr. 1.170.374.123 kr.
Annar rekstrar-
kostnaður 464.072.905 kr. 747.450.308 kr. 665.608.695 kr. 718.680.939 kr.
Kostnaður við útselda
þjónustu 77.814.563 kr.
Rekstrargjöld
samtals 4.553.873.333 kr. 3.808.192.919 kr. 3.097.854.708 kr. 3.109.284.455 kr.

Tekið úr BS ritgerð Atla Rúnars Kristinssonar frá 2015 og ætti að taka með öllum venjulegum fyrirvörum.

Síðan ef tekið er inn annar sparnaður við að auka farþegafjölda í SVR þá er myndin nokkuð álitleg. Hef þetta ekki lengra en set hér inn mynd um annan sparnað af því að auka farþegafjölda í strætó, sem ég hef ekki gögn um til að sannreyna að séu réttar!

ok

@Jassi: Ísland er fokdýrt almennt fyrir fólk sem er á lágum launum. 2.000 kall er lág upphæð á Íslandi fyrir næstum því hvað sem er. Hamborgari með frönskum á flestum matsölustöðum kostar meira, eitthvað sem kostar miklu minna erlendis. Samgöngur almennt hljóta að vera vandamál fyrir fólk á lágum launum og bíll ennþá meira svo en strætó.

Síðan er hitt að ég hef ekkert bara notað strætó þegar ég hef verið á góðum launum. Ég hef notað strætó alveg grimmt fullkomlega tekjulaus, á náð og miskunn vina minna og fjölskyldu, í tveimur öðrum löndum. Verðið þar í þá daga var mjög sambærilegt því sem það var hér.

Það er ágætt að lækka verðið á strætó ef það er svigrúm fyrir það, en ég fer ekki ofan af því að strætó sé ekki dýr kostur. Ef þú ert með lágar tekjur er allt dýrt og strætó bara engin undantekning á því.

Þú ert líka að tvöfalda verðið fyrir einstaklinginn. Auðvitað kostar það tvisvar sinnum meira fyrir þig og konuna þína að fara í strætó heldur en að þú farir einn í strætó. Per farþega er þetta ekki mikið.

En fyrir utan allt þetta, hvers vegna að sleppa Borgarlínu?

Borgarlína er góð hugmynd, óháð því hvort strætó sé ókeypis eða ekki.

1 Like

@helgihg: það er himinn og haf á milli skoðana okkar á þessu og það er í fínu lagi. Ég held að mínir punktar hafi komist ágætlega til skila þannig að ég sé ekki ástæðu til að svara þessu frekar.

1 Like

Engin götuljós.
Hvernig á fólk að labba yfir stóra breiðgötu?
Það er dýr lausn að byggja endalausar brýr eða göng fyrir fólk, enda nennir fólk ekki endalaust að labba yfir brýr, fólk reynir ávalt að fara stystu leið. Sjá óskastíga

Engin bílastæði
Vonandi verða færri bílastæði á vinnustöðum en hvar verða bílarnir á nóttunni þegar fáir eru á ferli?
“Færri bílastæði” er líklegt, en “Engin” bílastæði er ólíklegt.
Hérna er annað grunnvandamál að við mætum öll í vinnu og skóla á sama tíma. Það væri meiri ávinningur að dreifa því álagi, láta fleiri vinnustaði eða skóla byrja örlítið fyrr eða seinna. Þá þarf líka færri bíla.

Miklu meiri hraði
Viljum við frekar frekar fá bílana keyrandi framhjá húsinu okkar á 130km hraða? Þá fáum við meiri hávaða í leiðinni, dekkjahljóðið á götunni er mikið, þó að þetta væru allt rafmagnsbílar.
Fólk mun mótmæla.

Engir menn bakvið stýrið
Á að banna fólki að keyra? Hvað með þá sem elska að keyra? Allir bílagæjarnir sem elska að “gefa í”.
Þeir munu mótmæla.

Sjálfstýrðir bílar þýðir að við þurfum ekki að hafa bílpróf, sem þýðir að hver einasti einstaklingur eða jafnvel gæludýrin okkar geta verið alein í bíl. 10 ára barn á leiðinni á fótboltaæfingu, sjónskerti afi á leið í búð, fulli frændi á barinn, hundurinn osfrv.
Þetta mun ekki fækka bílum á götunni, heldur fjölga þeim.

Í samfélagi þar sem langflestir mæta í vinnu kl 8-9, ætli það séu nógu margir deilibílar á götunni á morgnana svo allir komist á réttum tíma?
Fólk myndi frekar vilja eiga sinn eigin bíl, í staðinn fyrir að bíða í 1-2 klst að bíða eftir að bíll losni.
Ekki viljum við deila bíl með ókunnugum í dag, sem myndi ekki skána þó að bílarnir verði rafmagnsbílar.

Sem snertir aftur á auðveldara vandamáli til að leysa: dreifa álaginu hvenær vinnustaðir og skólar opna á morgnana.

Svo eru þeir sem vilja ekki eiga eða nota litla bíla, og vilja frekar nota Strætó sem er rekið af ríkinu eða borginni. Ef að Strætó væru með í þessari hugmynd, þá væri ágætt að leyfa þeim að fá sína eigin akstursbraut svo þeir komist enn hraðar á milli staða, sem Borgarlína einmitt er.

Þetta gæti allt gerst þegar fólk hættir að mótmæla, og það er ansi langt í það.

2 Likes

Engin götuljós
Ég var að hugsa götuljós á gatnamótum fyrir bílana.
Er ekki búinn að hugsa það hvernig fólk fari yfir hraðbrautir. Ætli tölvukerfi fylgist ekki alltaf með öllum og taki sjálfkrafa tillit til gangandi, svo þegar kemur að hraðbrautum verða bara brýr o.þ.h.

Engin bílastæði
Ætli þeir verði ekki í einhverjum bílageymslustað í úthverfi þar sem landið kostar ekki neitt.
Já það er pæling að dreifa álaginu.

Miklu meiri hraði
Ég var nú meira að hugsa svona eins og 200km+.
Já dekkjahljóðið er vaxandi vandamál.

Engir menn við stýrið
Já ég held að á einhverjum tímapunkti fyrir miðja þessa öld verður fólki bannað að keyra bíla.
Bílagæjarnir þurfa þá að fara á sér svæði til að gefa í.

Þetta mun fjölga ferðum, það er rétt.

Ætli verðið verði ekki breytilegt eftir klukkunni. Þannig að það kosti meira að taka deilibíl á háannatíma heldur en utan hans. Ætli þeir hækki ekki bara verðið á háannatíma þar til dreifingin er komin.

Sjálfkeyrandi bílar eru ekki að fara að leysa umferðarvanda borgarinnar. Þótt þeir gætu það þá eru mörg ár í að slíkir bílar verði orðnir almennilega algengir og vandinn er núna en ekki eftir mörg ár, svo er ekkert víst að þeir séu nein töfra lausn.
Umræðan um einkabílinn er líka svolítið tilgangslaus af því að á meðan fólki er selt bílar og því leyft að keyra þá, þá verður alltaf gríðarlegur fjöldi fólks sem mun gera það, sama hvernig almenningssamgangnakerfið er upp sett. Svo það er bara óþarfa tímaeyðsla að vera að velta sér mikið upp úr því.
Til að leysa umferðarvandann eins vel og verður, sem verður aldrei alveg á meðan það eru götur í borginni, þarf skipulag, hagkvæmni og ráðagóð úrræði.
Bara ef að stýring umferðarljósa væri samstillt betur myndi laga gríðar mikinn vanda. Það að þú þurfir ekki að stoppa ef þú keyrir sömu götuna á löglegum hraða framhjá nokkrum ljósum myndi laga mikið. Gott flæði umferðar skiptir sköpum varðandi umferðarteppur.
Tímastilling umferðarljósa gæti verið álagstengd þar sem hægt væri að mæla þunga umferðar með allskyns mælum og tækjum og haga ljósatíma eftir því, á álagstímum eða öllum tímum, sjálfvirkt eða handvirkt úr vaktmiðstöð.
Setja upp einstefnur þar sem á við, þar sem þú ferð inn í hverfi, stór eða smá, og útúr þeim annars staðar svo að allir séu ekki að keyra á móti hvorum öðrum, sem orsakar bara meiri tafir til að hleypa umferð í veg fyrir aðra á sinni leið. Það þyrfti klárlega að fara í framkvæmdir á mörgum stöðum, breyta gatnamótum, setja upp mæla, tæki og þess háttar.
Að fjölga akbrautum eykur bara umferð, miðað við reynslu annarsstaðar frá, svo það er ekki sniðugt.
Hvað varðar svo almenningssamgöngurnar, þá þarf að gera þær heillandi, ákjósanlegann og mjög þægilegann kost, ekki á kostnað einkabílsinns, heldur samhliða. Samræma þarf kerfið heildstætt og gera það eins skilvirkt og þægilegt og hægt er, svo að fólk kjósi frekar að nota þær frekar en bílinn sinn.
Borgarlína er flott leið í áttina að því, en bara ef hún er gerð rétt, að raunverulega sé verið að reyna að leysa þennann vanda og ekki neitt annað. Að vel sé vandað til verka, skipulagt í þaula hvað sé best og nákvæmlega það gert. Að fólk sem hefur raunverulegt vit á svona aðgerðum sjái um þetta en ekki einhver vinur eða frændi einhvers sem þekkir mann sem ræður einhverju, það er óþolandi og skemmandi.
Til að fara enþá lengra væri hægt að koma upp neðanjarðarsamgöngum á milli staðanna sem mestur fjöldi fólks sækir og svo jafnvel stækka það seinna í takt við þarfir framtíðar borgaranna.
Þetta er dýrt já. En þetta eru lausnir, að hálfgera hlutina getur aukið á vandann sem er og jafnvel kostað meira þegar uppi er staðið.
Almenningssamgöngur þurfa að vera skilvirkar, hraðar og mjög þægilegar. Annars notar fólk þær ekki eins og hægt væri og vonast sé til. Oft er bara þægilegra að sitja í bílnum sínum fastur í umferð heldur en að nota þær þótt þær séu fljótari og á meðan það er þá verður vandinn áfram.
Það eitt og sér að gefa frítt í strætó gerir lítið sem ekkert fyrir vandamálið, samstilla þarf allt kerfið á sem bestann hátt. Eitthvað sem Sigurður Ingi talar fyrir að gera á landsvísu með flugið, ferjur og strætó. Fyrst núna, árið 2019. Eitthvað sem ætti að vera löngu búið að gera.
Ég ætla bara rétt að vona að þessi borgarlína sé vönduð framkvæmd þar sem góð og mikil rannsóknarvinna fer fram áður en fyrstu framkvæmdir eru gerðar og allt byggt á gögnum en ekki neitt skref í öllu þessu byggist á giski því oft er það þannig að það sem meikar sens að sé, er svo ekki þegar uppi er staðið.
Samspil allra þessarra þátta leysir umferðarvanda borgarinnar eins vel og hægt er að leysa hann. Bara borgarlínan hjálpar en leysir vandann ekki ein og sér, sérstaklega ef ekki er vandað nógu vel til verka.

1 Like

Svo er þetta: