Þetta er ennþá flokkur rökræðunnar, er það ekki alveg örugglega?

Ég tek eftir nokkru mynstri sem er að myndast á vinstri vængnum í almennri umræðu, og mér er alveg hætt að lítast á. Nú veigra ég mér almennt ekkert við að tala hreinskilnislega við sósíalista (þ.e. meðlimi Sósíalistaflokksins og marxista, nánar til tekið) en það sem vefst aðeins fyrir mér, er að ég sé síðan Pírata taka undir hluti frá þeim einstaka sinnum. Þetta eru:

  1. Höfnun á rökræðu sem tæki til sannfæringar í stjórnmálaumræðu. Iðulega á forsendum þess að tilvistarréttur verði ekki rökræddur, sem er gott og blessað, en þetta er yfirleitt sett fram þannig að engar rökræður um jafnréttismál séu yfirhöfuð í boði, og að tillögur um slíkt geri fólk einfaldlega samsekt einhverjum illum öflum. Meðfram þessari nálgun er gert grín að þeim sem kalla eftir því að femínistar, antirasistar og aðrir jafnréttissinnar beiti rökræðu í andspyrnunni gegn fordómum og óréttlæti.

  2. Almenn niðrun á “centrist”-um, iðullega í samhengi við fyrrnefnda höfnun á rökræðu, og þá “centrist”-ar settir upp þannig að þeir vilji rökræða við opið gin ljónsins. Þetta er að mínu afspyrnu barnaleg nálgun, og sést aðallega frá sósíalistum og þeim sem vilja setja hlutina upp í einfalt hægri og vinstri þar sem hægrið er vont, og vinstrið er gott, og miðjan því afvegaleidd flón sem vinni raunverulega að hagsmunum hægrisins gegn vinstrinu.

  3. Opinskáir draumórar um blóðuga byltingu, sérstaklega fallaxir og alls kyn ofbeldi gegn illa skilgreindri elítu og leiksoppum hennar.

Það þarf að vera alveg á hreinu að þessar nálganir á stjórnmál eru í andstöðu við nálgun Pírata, og það sem Píratar voru stofnaðir til að vera. Það má ekki bara þegja yfir þessu ef þetta grasserar í okkar eigin flokki. Þá þarf að tala opinskátt um það og tala aðeins um hvort okkur sé alvara með vitsmunahyggjunni sem birtist í grunnstefnunni.

Vonandi eru þetta að mestu tilefnislausar áhyggjur hjá mér, en mér finnst alveg mega vera á hreinu að svona lagað sé ekki velkomið hjá okkur. Það væri heppilegt ef sem flestir Píratar gætu tekið undir þetta. Rökræðan er vopnið og heiðarleg sannleiksleit er aðferðin. Það þýðir auðvitað ekkert að rökræða við eitthvað eins og hótanir um ofbeldi, enda eru þær ofbeldisaðferð í eðli sínu, en það er samt orðið meira en óþægilegt hvernig gert er lítið úr rökræðu sem fyrirbæri almennt, og beinlínis gert lítið úr því að hægt sé að rökræða erfiða og ljóta hluti yfirhöfuð.

Ef við aðhyllumst ekki öll hérna rökræðu sem tæki frekar en útskúfun og skautun, og höfnum ofbeldisdýrkun af öllu tagi, þá er það eitthvað sem þarf að ræða nánar, því þetta eru ósamrýmanlegar nálganir við vitsmunahyggjuna sem birtist í grunnstefnu Pírata - og, að mínu mati, allri heiðarlegri nálgun á lýðræðisfyrirkomulagið. Rökræðan og upplýsingamiðlun eru tækin sem hugsandi fólk hefur í pólitík, og án þeirra er ekkert í boði nema valdbeitingartæki af ýmissi sort, sem ég geri ráð fyrir að við skiljum öll sem andvitsmunaleg, og þ.a.l. í andstöðu við inntak grunnstefnunnar. Það á að hlusta á öndverð sjónarmið og skilja þau, ekki bara líka þau sem okkur í nöp við, heldur sérstaklega, og við eigum að geta svarað þeim vitsmunalega.

Ef fólk er búið að missa trúna á hinn viti borna kjósanda sem getur meðtekið upplýsingar og skipt um skoðun í kjölfar samtala, upplýsinga og rökræðna, þá er erfitt að sjá hvernig viðkomandi hefur ennþá trú á grunnstefnu Pírata, vegna þess að hún gengur svolítið út frá þessu sem gefnu.

Það er freistandi að bíða með þetta samtal þar til eftir kosningar, en satt best að segja finnst mér þetta þurfa að vera á hreinu strax.

6 Likes

Því miður er það svo að vitsmunaleg umræða vill gufa upp í óréttlátu samfélagi. Afleiðingin er oft vítahringur vaxandi skautunar og minnkandi samtals. Þess vegna er samkennd og virðing svo mikilvægt lím. Ef það leysist upp hleypur samfélagið fljótt í kekki óttasleginna fylkinga. Vitsmunir og samkennnd þurfa því að fara saman ef ekki á illa að fara. Það er verðugt verkefni Pírata að leita leiða til að rækta þetta tvennnt í sama blómapotti.

1 Like

Varðandi fyrsta punktinn, að tilvistarréttur sé ekki rökræddur, þýðir ekki að engar rökræður um jafnréttismál séu í lagi, heldur að það rökræður um jafnréttismál geri ekki lygar jafnháar staðreyndum, og fordóma jafnháa skoðunum.

Það að taka umræðuna um hvort að staðreynd sé sönn eða ekki er ekki rökræða, svona fyrir utan hversu takmarkaður sannfæringarmáttur rökræðu er.

Ef við erum að taka umræðu um hvernig eigi að takast á við breytingar á stöðu flóðs og fjöru þá hjálpar það þeirri umræðu ekkert að eyða tíma í að reyna að sannfæra einhvern sem hefur ákveðið annað um tilvist tunglsins, hvað þá hvaða hlutverk það spili gagnvart hafinu og stöðu þess.

7 Likes

Persónulega hef ég tekið eftir því að það hefur færst meiri heift í umræðuna eftir því sem á líður og því erfiðari aðstæður verða hjá fólki. Það er eins og margir vilji leita að einföldum blóraböggli til þess að kenna um hvers vegna aðstæður eru eins og þær eru.

Stjórnmálafólk úr öðrum flokkum sem maður hélt að hefði rænu á því að vera ekki að flytja inn baneitraðar orðræður frá Bretlandi og Bandaríkjunum t.d. þar sem ódýrustu atkvæðin eru veidd með því að ala á andúð á innflytjendum, hælisleitendum, fólki sem dílir við andleg veikindi og síðast en ekki síst LGBTQIA+ samfélaginu.

Eftir 1-3 ródeó af sömu tuggunni fattar maður að það virðist vera tilgangslaust að rökræða við fólk sem hefur setið í sömu algrímismótuðu hringekju of lengi. - Sérstaklega áberandi hjá eldra fólki sem hefur lítinn sem engan félagsskap nema Útvarp Sögu eða samsæriskenningarásir á YouTube til að hugga sig við.

Píratar hafa verið blessunarlega laus við að að elta vafasöm trend og ein af því mikilvægastu dyggðum sem við þurfum að halda á lofti.- Þ.a.s. að standa utan um tilvistarrétt allra sama hvað og koma í veg fyrir stæka þjóðernishyggju og benda á augljósar hundaflautur þegar þær koma upp.

Rökræður eru auðvitað borðleggjandi þegar kemur að því að leysa mál vel og örugglega. Sérstaklega í svöna knöppum ramma þar sem aðstæður virðast óyfirstíganlegar á köflum. :slight_smile:

2 Likes

Það endar víst þannig. Fólk grípur hvaða afsökun sem það getur til þess að hafna rökræðunni og bara ausa tilfinningum í staðinn, vegna þess að það er hundrað sinnum auðveldara og þarf enga vinnu, hugsun eða erfiði, og einfaldlega túlkar hluti andstæðingsins á sem versta mögulega hátt, og réttlætir þannig fyrir sjálfu sér að samtalið sé yfir rökræðu hafið. Þetta sé ég gerast linnulaust. Það eru vissulega einstaka tilfelli þar sem rökræðan er þýðingarlaus, svosem við hótanir eða spurningar um tilvistarrétt, en síðan sé ég þetta notað sem afsökun fyrir því að hafna rökræðunni sem víðast.

Í ofanálag þýðir það að tilvistarréttur sé ekki rökræddur ekki það að lygar séu ekki jafnháar staðreyndum og fordóma ekki jafnháir skoðunum, enda er það augljóst og kemur tilvistarrétti ekkert við, heldur er eðli munarins á milli þess sem er satt, og þess sem er ósatt. Hið sanna er betra en hið ósanna, alveg óháð tilvistarrétti. Hið sanna er líka betra en hið ósanna í t.d. eðlisfræði. Það þarf samt að rökræða eðlisfræði, þ.á.m. staðreyndir og rökfræðilegar afleiðingar þeirra.

Að hafna rökræðunni á frekar að vera eins og ofbeldi, að það getur verið réttlætanlegt undir þröngt afmörkuðum aðstæðum, en við eigum samt að reyna allt áður en við lendum þar.

Víst.

Og hér er það sem við þurfum bersýnilega að útkljá. Ef sannfæringarmáttur rökræðu er takmarkaður, þá þurfum við meiri rökræðu en ekki minni. Þá þurfum við að leggja okkur meira fram við hana, ekki minna. Þá er skortur af rökræðu, ekki of mikið af henni.

Láttu mig þekkja það, að rökræða kostar vinnu, en maður verður að líta á hana þannig að maður sé að sá fræjum sem taka tíma að vaxa.

Hér birtist þessi uppgjöf gagnvart rökræðunni hvað skýrast, og þetta er það sem ég vil losna við úr þessum flokki (ekki þig, bara þetta viðhorf). Rökræða virkar víst. Hún á sér hinsvegar næstum því aldrei stað, vegna þess að fólk gefst upp á henni fyrirfram eða mjög hratt, ef það nennir henni yfirhöfuð á annað borð, og dregur síðan þá ályktun að hún virki ekki neitt. Ástæðan er pínlega augljós; það er miklu auðveldara að vera bara ógeðslega reiður heldur en að leggja tíma og vinnu í að díla við fólk sem manni finnst hafa rangt fyrir sér.

Ég ætla allavega að segja það, að mér finnst þetta uppgjafarviðhorf gagnvart rökræðunni vera stórt vandamál sem þarf að leysa. Það eru í grunninn tvær leiðir, vitsmunahyggja eða valdhyggja, og við erum vitsmunahyggjuflokkur. Fólk sem er búið að gefast upp á vitsmunahyggjunni ætti að leita annað en í grunnstefnu Pírata eftir leiðsögn um hvernig eigi að stunda pólitík.

1 Like

Píratar eru ekki á ásnum hægri - vinstri þótt einstakir félagsmenn séu það. Heldur, og þvert á móti, á ásnum lýðræði - fasismi. Mikilvægt að halda því til haga - og halda því á floti. Það hefur svo líka verið aukin hægri slagsíða í flokknum. Flokkur getur valið að vera rótttækur án þess að velja vinstrið eða hægrið. Það hefur verið sérstaða pírata og þótt hún bjóði reglubundið upp á skiptar skoðanir er það líka lifandi og hugrökk afstaða. Hugum að rótunum, förum aftur að þeim. Píratar hafa í sjálfu sér ekki mikið að segja hugmyndafræðilega annað en að fólk eigi að hafa beinan aðgang að málefnum sem varða það. En það er heldur ekkert smá.

2 Likes

Það hefur sko alls ekki orðið hægri slagsíða í flokknum, hún hefur þvert á móti verið til vinstri. Það er hinsvegar talsverðu algengara að vinstrið líti á miðjuna sem hægri, og það er að komast í venjubundna orðræðu að miðjan sé bara hægrið í dulargervi (og undan því er ég að kvarta). En það er ekki það sem þetta snýst um. Það er allt í góðu að það sé hægri-, vinstri- og miðjufólk í flokknum, enda ekki á hægri/vinstri ásnum eins og þú segir.

En það skiptir máli að við aðhyllumst rökræðu og vitsmunahyggju ef við ætlum okkur að vinna samkvæmt grunnstefnunni. Það er reyndar ekkert annað val í boði. En stemningin í samfélaginu núna er þannig að bæði frá vinstri og hægri er komin stæk andvitsmunahyggja sem hafnar samtölum, rökræðum og vitsmunahyggju almennt, og leitast frekar eftir óljósum baráttuaðferðum sem einkennast ýmist af illa dulbúnum draumórum um ofbeldisfullar byltingar eða réttlætingum á útskúfun frekar en samtali og rökræðu. Enda svosem ekkert annað í boði en ofbeldi, útskúfun og skautun, ef vitsmunahyggjan fær að víkja.

Og vitsmunahyggjan felur í sér að fólk tileinki sér ákveðna nálgun. Hún er ekki bara að vera með heila í hausnum, hún er meira en það. Hún felur í sér t.d. að skoða hugmyndir óháð því hvaðan þær koma, sbr. grunnstefnu. Við sigrum með því að sannfæra. Ef við höfum ekki trú á eigin sannfæringarmætti, þá er það annað hvort vegna þess að við kunnum ekki að beita honum rétt, eða vegna þess að það er ekki nóg af honum, nema hvort tveggja sé. Þetta er eitur í öllu pólitísku starfi, því við fáum ekki fólk til liðs nema með því að sannfæra það um að vera það.

Það er ekkert auðvelt, og það virkar ekkert voðalega vel að rökræða við fólk, en það samt það eina sem við höfum, ef þetta á að vera stjórnmálaflokkur sem spilar eftir leikreglum lýðræðisins.

2 Likes

Helgi hvernig sérð þú fyrir þér að rökræður við fólk sem kemur inní samræðuna með ill-faith geti verið gagnlegar?

Ég hef amk gefist upp á að ræða t.d. mál öryrkja og fatlaðra, flóttamannamál og önnur útlendingamál, sem og lgbtq+ og femínisma!

En sérstaklega lgbtq+ og femenísk mál, ég ræði þessi mál ekki við mjög margt fólk, innan flokks og utan, sem er bara alls ekki að leita að vitsmunalegu samræðum, heldur vilja spúa hatri OG sjúga orku&vit frá okkur sem gefum okkur í samtalið.

Mörg þeirra sem þetta stunda eru lævís vel máli farin (já það skiptir máli)
Og þau koma inní umræðuna á grundvelli skoðanna/tjáningafrelsis.

Það að takast á í rökræðum við sama samflokksfólkið viku eftir viku (eins og ástandið var) þá gefst kvár upp öðru hvoru og segir “fokk þetta”
Ég hef séð fólki “þreytt” útúr starfi innan Pírata, fólk sem hefði meira fram að færa en búllýarnir nokkurn tíma!

Núna er staðan sú að mikið bakslag er í öllum málunum sem ég taldi upp og ítrekað er það sama fólkið (innan Pírata og utan) sem kemur inní umræðuna með “bad faith” að vopni og ávænir okkur um heigulshátt þegar við setjum upp mörk.

Hvernig er það uppbyggilegt?

2 Likes

Ég er þó nokkuð vinstri sinnaður og hef verið oft verið að kvarta yfir “minni hlið” að við eigum að vera betri þegar það kemur að rökræðum og halda hærri staðal fyrir okkur. Það er vinstri sinnað fólk sem þaggar, lýgur og niðrar fólk í umræðum um eitthvað ákveðið málefni og það er ekki í lagi en svo er hægri sinnað fólk sem gerir það mun meira, oftar og í raun eins og það sé ekki bara til að koma sínum “punkti” áfram heldur er í raun punkturinn.

Þetta er eins og að vera herbergis félagi með fólki og kvarta aftur og aftur yfir að nokkrir eru ekki að vaska upp eftir sig en svo á sama tíma er einn ýtrekað að kúka á gólfið í stofunni. Jú ég get kvartað yfir fólkinu sem er ekki að vaska upp eftir sig en ef ég geri það án þess að skamma manneskjuna sem er alltaf að kúka á gólfið þá er eins og ég sé að seiga að það sé í lagi, eða allavegna að það sé ekki jafn slæmt og að skilja eftir sig skítuga diska.

Þannig það er ekki í lagi að skilja eftir skítuga diska og þegar við tökum þátt í rökræðum þá eigum við að gera það með heillindi að leiðarljósi en ég ætla ekki að dæma “mína hlið” með öðrum staðli heldur en “hina hliðina” og það er þannig að hægri sinnað fólk ítrekað kæfir niður umræðu, fer í persónu árásir, lýgur og beitir óheiðalegum brögðum í rökræðu. Ég skil alveg ef fólk kærir sig ekki um að taka þann slag aftur og aftur á móti slíkum “andstæðing”.

Í mörg ár var það mín mantra að ég væ ekki bara ar rökræða við, jahh hvern þann sem þá var í “samtalinu” heldur einmitt að sá fræjum í kring um samtalið, þau sem fylgdust með.

En fyrir 3-4árum varð ég að skoða (vegna dómsmáls) Pírataspjallið sáluga frá A til Ö.

Það sýndi mér svart á hvítu hve hundaflautið er öflugt, fólk sem amk þá voru virkir Píratar, æstu upp umræður, kvöttu til “óeirða” og notuðu til þess nákvæmlega sömu kveikju orðræðuna og héldu “samtalinu” lifandi, aftur og aftur og aftur!

Plís @helgihg ekki skrifa það bara á hvað Facebook er ömurlegt!

Þetta er taktík sem er notuð til að þreyta fólk, til að láta okkur vera upptekin viku eftir viku í óheiðarlegum umræðum og keyra fólk í þrot.

Það er fokk sálardrep að þurfa aftur og aftur að fræða fólk með opnum (rökræðu) örmum, taka fjandans samtalið og láta tilfinningrökin (sem bytheway eru oft valid rök) ekki ná yfirhöndini, vera kurteis og svara ill-faith fólki með rökum upplýsingagjöf, mjög oft sama fólki ár eftir ár.

Það er niðurbrjótandi, ekki uppbyggileg!

2 Likes

Með því að sýna öðrum, sem sjá umræðuna og taka ekki endilega þátt í henni, að hinn aðilinn talar í vondri trú. Það er hægt.

Þá, með allri virðingu, hefurðu gefist upp á grunnstefnu Pírata vegna þess að vitsmunahyggjan er allsráðandi í henni. Og það að þú hafir persónulega gefist upp á því þýðir ekki að það sé gott að þú hafir gefist upp á því, eða að sú uppgjöf muni verða þessum málefnum frekar til framdráttar heldur en að þau sem hafi til þess orku trukkist áfram í því. Það þýðir bara að fleiri aðrir þurfi að standa í því, og það gerist síður þegar það er linnulaust grafið undan því að það sé nokkur tilgangur með því.

Já, og við aðhyllumst tjáningarfrelsi, líka tjáningarfrelsi þeirra sem við erum ósammála, sem þreyta okkur, eru hundleiðinleg og með ógeðslegar skoðanir. Það er í grunnstefnunni, og aðrar hugmyndir eru ekki í samræmi við neina hugmynd um tjáningarfrelsi. Við erum tjáningarfrelsisflokkur, og ef fólk er komið með ógeð á tjáningarfrelsinu, þá er það líka komið með ógeð á grunnstefnu Pírata.

Og við getum alveg verið vel að máli farin líka. Fólk með ógeðslegar skoðanir er ekki með neitt tromp á okkur nema það eitt, að við gefumst of auðveldlega upp, og að það þarf miklu minni orku til að spýja ósönnum hlutum heldur en sönnum (vegna þess að sannleikurinn þarf að vera í innra rökréttu samhengi og í samhengi við staðreyndir, meðan bull þarf þess ekki). En þetta forskot þýðir ekki að við getum leyft okkur að rökræða minna, það þýðir þvert á móti að við þurfum að setja miklu meira afl í það, heldur en liðið sem bullar. Það er ekkert gaman, en það er samt þannig.

Það sem vantar alltaf í það viðhorf sem þú lýsir hérna og @Miniar hefur tilhneigingu til að lýsa, er hvað eigi að koma í staðinn. Það er ekkert nema að sannfæra fólk, eða eitthvert form af valdbeitingu, hvort sem sú valdbeiting er með líkamlegu ofbeldi, andlegu ofbeldi, útskúfun eða niðurlægjandi. Vandinn verandi sá að ekkert af þessum verkfærum virka neitt betur. Einhver rasistaplebbi úti í bæ tapar engu - og skiptir heldur ekki um skoðun - með því að vera minna innan um fólk með betri skoðanir.

Já, bakslag sem kemur fólki eins og mér nákvæmlega ekkert á óvart, og ég spáði fyrir þegar tískan varð að hafna rökræðunni, sem gerðist fyrir einhverjum árum. Það er ekkert skrýtið að það sé bakslag þegar fólkið með ógeðslegar skoðanir veður áfram í einhverjum allt öðrum hópum en þeim sem við erum í, og við erum orðin of þreytt á rökræðunni til að sýna hvar sé rangt í málflutningi þeirra.

Það var aldrei nein gósentíð rökræðunnar. Hún er ekki eitthvað sem er búið að reyna til þrautar, því hún er næstum því aldrei reynd. Hún er undantekningin og hefur yfirleitt verið. Þegar hún hefur fengið sviðið, þá hefur hún sannfært heilmikið af fólki með hræðilegar skoðanir um að það hafi ekki á jafn góðum grunni að byggja og það hélt.

Síðast en ekki síst máttu ekki vanmeta tvennt í sannfæringarkrafti rökræðunnar. Í fyrsta lagi sérðu ekki áhrifin strax. Það tekur tíma fyrir fólk að skipta um skoðanir. Í öðru lagi sérðu ekki áhrifin á fólkið sem sér umræðuna, en tekur ekki þátt í henni. Við þurfum ekki að sannfæra fólk sem kemur inn í samtalið með vondan ásetning, en við þurfum að sannfæra fólkið sem verður vitni að því. Þá þurfum við bæði að hafa orkuna til þess, og ef við höfum hana ekki, þá erum við búin að tapa - eins og ég minni á, að við erum að gera. Það er ekki vegna þess að rökræðan hafi verið svo vinsæl, því það hefur hún aldrei verið. Að berjast fyrir rökræðu og vitsmunahyggju í orðræðumenningu er eins og að vera hrópandi í eyðimörkinni, og það þarf, eins og þú bendir á, mikla orku, mikla staðfestu, þolinmæði og óverðskuldað umburðarlyndi til þess að geta haft hana.

Þá minni ég á, að þú getur alveg tekið fyrir einhver öfgafull dæmi þar sem við gætum öll verið sammála um að rökræða er ekki til neins, t.d. þegar fólk er farið að taka upp á hótunum eða að afneita tilvistarrétti fólks. Það eru ofbeldisaðferðir í eðli sínu sem rökræða virkar ekkert á. En tískan í dag, sem hefur verið við lýði núna í mörg ár og grasserar því miður líka í Pírötum, er að það megi heimfæra þessar aðstæður á öll samtöl sem kosta orku, taka tíma, og valda fólki vanlíðan. Það er bara uppgjöf.

En þá ítreka ég enn og aftur, að vitsmunahyggjan birtist kviknakin í grunnstefnunni, og ef fólk er búið að missa trú á henni, þá er það búið að missa trúna á grunnstefnu Pírata og ætti annað hvort að leggja til breytingar á henni - sem væri áhugavert að heyra röksemdir fyrir þegar það tekið fyrir skipulega - eða að leita annað en í grunnstefnu Pírata.

Þetta er tjáningarfrelsis- og vitsmunahyggjuflokkur. Ef fólk vill það ekki, þá vill það ekki Pírata.

Kannski átta ég mig bara ekki á hvaðan þetta er að koma. Ertu að segja að fyrir fólk að vera Pírati og vera partur af Pírötum þá ættu þau að vera tilbúin að rökræða öll málefni, að undartekningu þessi öfgafullu dæmi.

Þannig ef við erum með Jón Pírata og Páll, Jón setur inn færslu um að hafa leiguþak á Selfossi og Páll gerir athugasemd “Leiguþak virkar aldrei, þetta mun brjóta samfélagið” Þá væri það gegn Grunnstefnunni fyrir Jón að segja “Æji, hættu Páll, þú gerir ekki annað en að ljúga, ég nenni ekki að tala við þig.”

4 Likes

Takk Pétur, fyrir að láta mig líða minna eins og ég ætti ekki að vera hluti af Pírötum :purple_heart::purple_heart::purple_heart:

3 Likes

Ég er alveg sammála Helga að það við erum og ættum að vera flokkur rökræðunnar, það er mikilvægt að rökræða og ég hef mikla virðingu fyrir öllum sem eru tilbúin að taka það á sig og gera vel. En það er ekki nauðsynlegur hlutur fyrir manneskju að rökræða til að vera partur af Pírötum.

En ég held líka ekki að Helgi sé að segja það, ég held að ég sé bara eitthvað að mislesa hann.

3 Likes

Ég er ekki afhuga Píratakóðanum, langt því frá!

Ég tek samæðum um landsins gagn og nauðsynjar fagnandi, og fátt semtilegra en góðar rökræður.
Er alið upp með pólitík í kvöldmat

Hefurðu @helgihg kynnt þér öráteri og hvernig það hefur áhrif á manneskju til lengri tíma?

VARÚÐ TILFINNINGARÖK
.
Það er óboðlegt að ætlast til þoli (vitsmunalegra, kurteisra)
til rökræðna án þess að missa kúlið eða geðið og segja fólki að fok…sér.

Tilfinningar eru ekki alltaf rökréttar EN það þýðir ekki að tilfinningarök geti ekki stundum verið gild rök!
Ég tek því ekki þegjandi að vera stiplað sem ekki góður og gegn Pírati.
Þó vissulega taki ég alltaf minni og minni þátt í rökræðum á netinu, þolið er minna og stundun hætti ég í miðjukafi því ég tími ekki tíma og geðheilsu til að taka slaginn um sömu mál ig jafnvel við sömu þöngulhausa og í síðustu viku!

Ég er Pírati

3 Likes

Eitt sem mér leikur forvitni a að vita, @helgihg hvar hefur þú verið að taka samtalið síðistu 4-6ár?

2 Likes

Það er ekki viðhorf sem er mögulegt þegar þú ert að berjast fyrir þinni eigin tilvist.

Það er mjög ólíklegt að þú þekkir það.

Ekki reiður.

Þreyttur.

Veit betur.

Sé hvernig þeir glotta og njóta sín og telja sig sigurvegara sama hvernig þeim er svarað.

Sé hvernig þeir elska althyglina og hvernig athyglin verður til þess að raddir þeirra berast lengra, heyrast víðar.

Hættur að spila þeirra leiki á þeirra forsendum.

Plús það er takmarkað hvað hver manneskja þolir að heyra að það eigi að útrýma þér oft áður en það er bara orðið of mikið.

Það er ekki vitsmunahyggja að brenna út í tilgangslausri æfingu sem hyglir þeim sem vilja þér illt.
Það er ekki heilbrigt að gera, né gáfulegt að ætlast til þess af öðrum.

6 Likes

Ég verð að segja að ég er sammála öllu sem @Miniar segir!

Þegar *fólk ætlast til að aðrir séu til í samræður við mannleysur, sem vilja “rökræða” tilverurétt þinn og barna þinna, þá er augljóst það *fólk þekkir ekki þetta áreiti á egin skinni.

Það sló mig fyrir nokkrum misserum að ég var hætt að verða reitt yfir transfóbum, ég var hætt að finna baráttuhug, ég varð sorgmætt, hrætt og þreytt.

Taktíkin að þreyta baráttufólk í burnout er ekki ný af nálinni en núna getur fólk ekki hundsað þetta örárteti/áreiti nema sleppa því að vera með internet aðgang!

En ég vil endurtaka spurningu mín til Helga Hrafns;
“Eitt sem mér leikur forvitni a að vita, @helgih hvar hefur þú verið að taka samtalið síðistu 4-6ár?”

3 Likes

Ég myndi ekki segja að þetta er tilgangslaus æfing. T.d í kommentakerfum landsins þar sem það flæðir útlendingahatur þá er það eins og höfn í ólgum sjó að sjá “Öll eru velkomin á Íslandi, þau eru ekki byrði á samfélagið heldur gera okkur svo mikið ríkari.” Og svo sja þessa manneskju taka “slaginn” við nokkra aðra.

Við þurfum ekki öll að vera í rökræðum en við ættum að upphefja þau sem eru til í það.

1 Like

Vá hvað það er óþægilegt að lesa þennan þráð. Allir sem þú skrifar @helgihg öskrar forréttindablinda og að þú hefur enga hugmynd um hvernig það er að tilheyra einum einasta minnihlutahóp.

Svör þín hér að ofan til @Adalheidur_Johanns gera ekkert nema segja okkur sem það þekkjum og skiljum séum ekki velkomin í Pírata að þínu mati. Í alvöru, er þetta í það sem þú vilt vera að gera korter í kosningar? Ýta fleira fólki í burtu? Er ekki komið nóg af því?

2 Likes