Ég tek eftir nokkru mynstri sem er að myndast á vinstri vængnum í almennri umræðu, og mér er alveg hætt að lítast á. Nú veigra ég mér almennt ekkert við að tala hreinskilnislega við sósíalista (þ.e. meðlimi Sósíalistaflokksins og marxista, nánar til tekið) en það sem vefst aðeins fyrir mér, er að ég sé síðan Pírata taka undir hluti frá þeim einstaka sinnum. Þetta eru:
-
Höfnun á rökræðu sem tæki til sannfæringar í stjórnmálaumræðu. Iðulega á forsendum þess að tilvistarréttur verði ekki rökræddur, sem er gott og blessað, en þetta er yfirleitt sett fram þannig að engar rökræður um jafnréttismál séu yfirhöfuð í boði, og að tillögur um slíkt geri fólk einfaldlega samsekt einhverjum illum öflum. Meðfram þessari nálgun er gert grín að þeim sem kalla eftir því að femínistar, antirasistar og aðrir jafnréttissinnar beiti rökræðu í andspyrnunni gegn fordómum og óréttlæti.
-
Almenn niðrun á “centrist”-um, iðullega í samhengi við fyrrnefnda höfnun á rökræðu, og þá “centrist”-ar settir upp þannig að þeir vilji rökræða við opið gin ljónsins. Þetta er að mínu afspyrnu barnaleg nálgun, og sést aðallega frá sósíalistum og þeim sem vilja setja hlutina upp í einfalt hægri og vinstri þar sem hægrið er vont, og vinstrið er gott, og miðjan því afvegaleidd flón sem vinni raunverulega að hagsmunum hægrisins gegn vinstrinu.
-
Opinskáir draumórar um blóðuga byltingu, sérstaklega fallaxir og alls kyn ofbeldi gegn illa skilgreindri elítu og leiksoppum hennar.
Það þarf að vera alveg á hreinu að þessar nálganir á stjórnmál eru í andstöðu við nálgun Pírata, og það sem Píratar voru stofnaðir til að vera. Það má ekki bara þegja yfir þessu ef þetta grasserar í okkar eigin flokki. Þá þarf að tala opinskátt um það og tala aðeins um hvort okkur sé alvara með vitsmunahyggjunni sem birtist í grunnstefnunni.
Vonandi eru þetta að mestu tilefnislausar áhyggjur hjá mér, en mér finnst alveg mega vera á hreinu að svona lagað sé ekki velkomið hjá okkur. Það væri heppilegt ef sem flestir Píratar gætu tekið undir þetta. Rökræðan er vopnið og heiðarleg sannleiksleit er aðferðin. Það þýðir auðvitað ekkert að rökræða við eitthvað eins og hótanir um ofbeldi, enda eru þær ofbeldisaðferð í eðli sínu, en það er samt orðið meira en óþægilegt hvernig gert er lítið úr rökræðu sem fyrirbæri almennt, og beinlínis gert lítið úr því að hægt sé að rökræða erfiða og ljóta hluti yfirhöfuð.
Ef við aðhyllumst ekki öll hérna rökræðu sem tæki frekar en útskúfun og skautun, og höfnum ofbeldisdýrkun af öllu tagi, þá er það eitthvað sem þarf að ræða nánar, því þetta eru ósamrýmanlegar nálganir við vitsmunahyggjuna sem birtist í grunnstefnu Pírata - og, að mínu mati, allri heiðarlegri nálgun á lýðræðisfyrirkomulagið. Rökræðan og upplýsingamiðlun eru tækin sem hugsandi fólk hefur í pólitík, og án þeirra er ekkert í boði nema valdbeitingartæki af ýmissi sort, sem ég geri ráð fyrir að við skiljum öll sem andvitsmunaleg, og þ.a.l. í andstöðu við inntak grunnstefnunnar. Það á að hlusta á öndverð sjónarmið og skilja þau, ekki bara líka þau sem okkur í nöp við, heldur sérstaklega, og við eigum að geta svarað þeim vitsmunalega.
Ef fólk er búið að missa trúna á hinn viti borna kjósanda sem getur meðtekið upplýsingar og skipt um skoðun í kjölfar samtala, upplýsinga og rökræðna, þá er erfitt að sjá hvernig viðkomandi hefur ennþá trú á grunnstefnu Pírata, vegna þess að hún gengur svolítið út frá þessu sem gefnu.
Það er freistandi að bíða með þetta samtal þar til eftir kosningar, en satt best að segja finnst mér þetta þurfa að vera á hreinu strax.