Mig langar að taka upp umræður hér um þá ákvörðun sem tekin virðist hafa verið að fela bandarísku fyrirtæki (þar sem bandarísk stjórnvöld hafa fullan aðgang að öllu án þess að fyrirtækið geti nokkurn tíma greint frá því) að vista tölvupóst Pírata.
Google inc. hefur sem sagt verið falið að sjá um pósthýsingu fyrir flokkinn. Meta flokksmenn það svo að þetta sé viðeigandi ráðstöfun?
Í ljósi þess að það er ekki einungis fræðilegur möguleiki, heldur er beinlínis fordæmi fyrir því að bandarísk yfirvöld krefji Google upplýsinga um aðila innan Pírata með leynilega útgefnum leitarheimildum er þetta vægast sagt vafasamt. Það er a.m.k. algjörlega ljóst að þingmenn flokksins og þeir sem koma að framkvæmdastjórn og fjármálum ættu ekki undir nokkrum kringumstæðum að notast við hýsingu bandarískra fyrirtæki í starfi sínu.
Persónuleg er ég með minn aðalpóst í hýsingu hjá 1984 og Postfix/Dovecot sinnir honum en ég er einnig með Gmail-póstfang vegna þeirrar þjónustu sem ég þarf að nota reglulega (og HÍ-póstfang en það er annað mál). Mér dettur helst í hug þrjár nálganir á þetta mál.
Öryggislega geta menn velt því fyrir sér hvort okkar kerfi séu betri en þær þjónustur sem Google rekur og að menn séu almennt að sinna þeim.
Hugmyndafræðilega er mjög skiljanlegt að mönnum sé illa við Google. Samband þeirra og bandarískra stjórnvalda er nokkuð eitrað frá okkar sjónarhorni. Ég á erfitt með að sjá hvaða gögn frá okkur þoli það illa dagsljósið að þetta sé eitthvað fyrir okkur til að óttast. Ég man þegar við notuðum póstlistana og flest það sem fór manna á milli rafrænt var opinbert.
Tæknilega eru fáir sem geta fært okkur það sama og Google. Getur einhver bent á góða þjónustu utan Bandaríkjanna? Þetta er spurning um það hvað menn séu tilbúnir til að sætta sig við.
Þetta er ekki spurning um það hvort hlutir þoli dagsljósið. Dagsljósið er þegar upplýsingar eru birtar öllum, opinberlega. Það er enginn að ræða um það hér. Þvert á móti er um að ræða möguleikann á því að samskipti milli fólks - ekki aðeins á póstlistum sem margir hafa aðgang að - séu hýst hjá aðila sem, svo ég endurtaki það, hefur áður verið neyddur til að afhenda yfirvöldum í BNA upplýsingar um fólk innan Pírata vegna pólitískra starfa og skoðana. (Eftir því sem best verður komist að. Málsgögn eru enn, um áratug síðar, leynileg að mestu.) Það eru ósköp einfaldlega gróf brot á borgararéttindum, sem síðast þegar ég vissi áttu að heita skipta þennan flokk máli.
Það kann að vera. Ég sé ekki hvernig það kemur punktinum við. Eitt af meginstefum Pírata á að vera aukning og efling persónuverndar, og augljóslega eiga flottir fítusar ekki að duga til þess að flokkurinn leggi þau sjónarmið til hliðar.
Algjörlega mótfallinn því að Google hýsi tölvupóst Pírata.
Mér finnst í raun sorglegt að þetta hafi náð svona langt.
Úr Píratakóðanum:
Píratar virða friðhelgi einkalífs
Píratar vernda einkalíf. Þeir berjast gegn vaxandi eftirlitsgeggjun ríkja og hagkerfa því að slíkt hamlar frelsi og þróun hjá einstaklingum…
Um Google:
In its 2007 Consultation Report, Privacy International ranked Google as “Hostile to Privacy”, its lowest rating on their report, making Google the only company in the list to receive that ranking.
Ég hélt að Pírötum væri alvara með nota og styðja opinn hugbúnað, og að verja peningum í opinn hugbúnað frekar en að borga fyrir lokaðan hugbúnað, sjá https://publiccode.eu/
Annað atriði Pírata í RVK sem gerði mig sorgmæddan, vonandi lagast það:
Ef þú ert að tala um samráðsfundinn þá er hann ekki ályktunarbær eftir minni vitund. Framkvæmdastjórn vildi bara heyra hljóðið í mönnum, þeim sem höfuð fyrir því að mæta, en hún ákveður þetta endanlega.
Allir fundir eru ályktunarbærir. Hvort sú ályktun hefur einhverja formlega vigt er annar handleggur. Ég er hins vegar ekki að óska eftir að samráðsfundur komi með e-a ályktun. Ég á einfaldlega við að í ljósi þess að þessi fundargerð svarar hvorki þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram né setur fram neina fasta niðurstöðu sé ég ekki hverju hún bætir við umræðuna.
Staðan er þessi: Ég óttast ekki að Google veiti bandarískum yfirvöldum aðgang að tölvupósti mínum sem hýstur er hjá þeim. Ég veit að þeir hafa gert það. Og það er aðgangur sem þeir gangast við í (leynilegu) sakamáli. Sögulega hefur margsinnis komið fram að þeir hika ekki við að nýta sér ólöglega hlerun þegar kemur að rekstri utanríkismála. Þegar þetta er tekið saman fæ ég ekki séð að það sé nokkurt einasta vit í því að stjórnmálaflokkur sem hefur stefnuáherslur sem ítrekað eru verulega á skjön við stefnu yfirvalda í BNA og starfar í landi sem á oft mikla hagsmuni undir viðræðum og samningum við BNA hýsi innri samskipti sín í BNA. Stjórnmálaflokkur getur nefnilega þurft að taka tillit til fleiri hluta en almennt gerist í rekstri félagasamtaka.
Formlega meinti ég. Fundargerðin bætir engu við umræðinu hér enda átti fundurinn sér stað áður en þessi þráður var skapaður. Hún sýnir bara hvað menn voru að hugsa þegar hugmyndin var fyrst opinberuð og getur kannski frætt menn um það af hverju þetta mál er annars til umræðu.
Burtséð frá bandarískum stjórnvöldum þá er fáránlegt að píratar notist við þjónustu sem allir vita (og margsannað er) að ber enga virðingu fyrir persónuvernd oþh.
Mér hefur þótt nógu fáránlegt þegar píratar eru að nota google-drive t.d. Til hvers að fjárfesta tíma og vinnu í nextcloud, eins og gert hefur verið, og nota það svo ekki?
Ég hef ekki sérstaklega sterka skoðun á þessu máli og mun hvorki berjast fyrir né gegn þeirri ákvörðun sem menn taka. Valið virðist oft standa milli lélegra tóla og hugmyndafræðilegs hreinleika eða góðra tóla og raunsæis. Þegar ákvörðun var tekin að taka ekki við fjármagni frá lögaðilum skiptust menn einnig í þessar tvær fylkingar. Ef flokksmenn legðu jafn mikið púður í að ná til kjósenda og þeir setja í svona tittlingaskít þá myndum við fá öll 63 þingsætin.
Þetta er lína sem ég þekki ágætlega. Og jújú, það kemur alveg fyrir. Mín reynsla er að vísu að jafnaði sú að flestir setji samasemmerki milli “góð tól” og “tólin sem ég vandist”, sem er allt önnur umræða. En þó við gefum okkur að þetta sé raunverulega spurning um betri tól og raunsæi, þá finnst mér frekar kómískt að við séum að rífast um það hvort flokkur sem í ræturnar byggir á skírskotun til möguleikanna sem dreifð netkerfi buðu upp á eigi að styðjast við miðlæga lausn risafyrirtækis sem hefur unnið ötullega að því að torvelda öðrum að nýta sér þá möguleika. Ef markmið Pírata er fyrst og síðast að fá fleiri þingmenn á Íslandi, kannski … en satt best að segja þætti mér gagnlegra til að vinna stefnu flokksins framgang að setja púður í að bæta hin tólin. Þingmennirnir eru til einskis ef flokkurinn er svo raunsær að hann gerir allt eins og hinir.