Ég vil ræða þessa tillögu. Persónulega er ég mótfallinn henni, ekki vegna þess að ég er mótfallinn notkun þessara efna heldur vegna þess hvað nýjustu rannsóknir eru að sýna fram á gýfurlega mikla læknisfræðilega möguleika á psilocybin sveppum. Þá tel ég það vera öfugt farið að vinna fyrir afþreyingarnotkun þeirra og óstýrðri notkun (þeir vaxa villt og hver sem vil getur nálgast ef svo kýs og ég veit einnig ekki af hverju flutningsmaður telur þá vænlega söluvöru en það er annað mál) þegar stærst ávinningur af notkun þeirra er líklega í sambland við sálfræðimeðferð. Þá tel ég það draga úr þeim málstað hvað þetta getur verið sterkt batatól ef fólk ætlar að forgangsraða afþreyingarnotkun og skemma fyrir með að búa til skökk hugrenningartengsl hjá fólki um málið. Af þeim sökum tel ég líklegt að ég kjósi gegn tillögunni.
Takk fyrir umræðuna.
- Auðvelt væri að breyta tillögunni, að eyða öllum texta um sveppi, sé það ákveðið í félagsfundinum. Kannabis er meginatriðið í mínum huga, því mér skilst að það sé vinsælasta bannaða vímuefnið á Íslandi.
- Mér skilst að fólk tíni sveppi þar sem þeir geta verið mengaðir: á túnum þar sem skordýraeitur eru notuð eða hjá vegum hvar bílamengun er, sem inniheldur þungmálma (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1253). Þannig væru hollari þeir sveppir sem væru seldir af ríkinu.
- Í rannsóknargreinum eru sveppir oft taldir (eitt) minnst skaðandi vímuefnið, minna skaðandi en kannabis. Frá því er freistandi að láta sveppi, er nú þegar má finna úti í náttúru, vera lögleidda og selda af ríkinu. Hér er ein grein, þar sem fram kemur að sveppir leiði ekki til dauða né líkamlegt tjón, þó að kannabis og áfengi bæði gera það: http://www.ias.org.uk/uploads/pdf/News%20stories/dnutt-lancet-011110.pdf
- Gildir það sama um lækningar ekki fyrir kannabis? Og jafnvel áfengi – sprittið er stærsti ávinningurinn núna (já, ég er að grínast smá um áfengið, en ekki alveg)?
Ég er ekki hrifinn af því að taka fram sérstaklega í stefnu að ákveðin lyf séu seld í ÁTVR eða apótekum.
Persónulega er ég ekki hlynntur ÁTVR, ég tel hana tímaskekkju að mörgu leyti. En aðallega óttast ég að út á við kunni þetta að virka stuðandi og vinna málstað sem er í mikilli sókn, ógagn.
Ég veit ekki nóg um sveppi þannig ég ætla ekki að tala um það. En mér þætti eðlilegast að gras yrði selt eins og tóbak, þetta væri selt í Nettó, sjoppum, Fjarðarkaup en ekki upp í hillu hliðina á ljósaperum eða snakki heldur fyrir aftan kassan.
Ég er samt persónulega hlynntur ÁTVR þó að þau mættu uppfæra sig (opnið á sunnudögum t.d)
Hvað varðar kannabisefni, þá er ég persónulega hlynntur því að það verði löglegt að framleiða og selja. Mikilvægast finnst mér samt að líta til reynslu annarra sem hafa nýlega heimilað sölu til afþreyingar, en ég verð að viðurkenna að það er svolítið síðan ég skoðaði það síðast. Það hafa mjög misjafnar útfærslur verið prófaðar þannig að það er væntanlega allnokkuð að skoða. Þó veit ég ekki til þess að neinn hafi snúið til baka og bannað kannabis aftur.
Það er samt eitt við kannabis, sem á jafnvel ennþá meira við sveppi, en það er hvernig framleiðsluferlið virkar við löggjöf og hamlanir yfirhöfuð.
Það er fáránlega einfalt að framleiða kannabis. Þetta er ekkert flóknara en að rækta pottablóm, og snúast mismunandi ræktunaraðferðir fyrst og fremst um að hámarka afraksturinn. En hversu auðvelt er að framleiða þetta, a.m.k. til einkaneyslu, segir mér að fyrsta skrefið sé að heimila neysluna og leyfa fólki að framleiða fyrir sjálft sig. Auðvitað mun einhver selja vinum sínum eða eitthvað slíkt, en ef fólk má rækta þetta heima hjá sér í friði tel ég líklegt að verðið myndi hrapa svo mikið niður að það hætti fljótlega að borga sig að fara í einhverja stórframleiðslu. Þannig að jafnvel ef einhver færi að selja vinum sínum smáræði, þá væri það varla á þeim iðnaðarskala sem það er í dag. Þetta væru reddingar hingað og þangað til vina og kunningja, ekki skipulögð glæpastarfsemi.
Þegar þangað er komið verður að spyrja sig, til hvers nákvæmlega við myndum vilja hafa það til sölu í ÁTVR sérstaklega. Mér er það ekki ljóst. Ef það á að vera til sölu á annað borð, af hverju af ÁTVR frekar en öðrum? Þetta er ekki eins og ópíóðar eða þess háttar sem er blandað saman við eitthvað annað. Fólk metur gæðin bara með því að horfa á efnið og lykta af því. Ef þetta er nógu ódýrt er heldur enginn sérstakur hvati til að reyna. Þetta er ólíkt áfengi, sem er baneitrað jafnvel þegar það er rétt gert, hvað þá því þegar því er klúðrað af einhverjum amatör.
Hvað varðar sveppina, þá er sagan önnur en spyr jafnvel ennþá stærri spurninga um til hvers þeir ættu að vera í ÁTVR. Þeir vaxa bara úti á túnum. Ekkert bara umferðareyjum heldur öllu grasi, alls staðar á landinu, eftir því sem ég best veit. Ef fólk vill nota sveppi, dugar ekki bara að sleppa því að handtaka það þegar það er gómað við að tína upp og borða grænmeti sem vex náttúrulega? Er eitthvað vandamál að leysa með því að selja það í ÁTVR?
Mér finnst langmikilvægast að hætta að refsa neytendum fyrir alla neyslu. Það er langstærsta réttarbótin. Síðan er ég hlynntur því að framleiðsla og sala á kannabisefnum verði gerð lögleg, en ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna það ætti að vera ríkiseinokun á því. Ég er á móti ríkiseinokun á áfengi, en sé samt miklu sterkari rök fyrir henni heldur en ríkiseinokun á kannabisframleiðslu, ef það væri farið að heimila sölu á því á annað borð.
Ég tel að það væri samt mikil framför við það að veita læknisfræðilega heimild til að nota kannabis og ofskynjunarsveppi og það er í raun fráskilið mál því að forðast refsistefnuna.
Ef ég fer í heimsókn til tengdó í kanada þá get ég pantað í gegnum LCBO (kanadíska vínbúðin/átvr equiv) forvafðar jónur af mismunandi afbrigðum af kannabis með upplýsingum um hvaða hlutföll THC og CBD megi búast við í þeim.
Get jafnvel notað app til þess.
yppir öxlum Það er ákveðið öryggi, sérstaklega í smærra landi, að nýta sér þann infrastructure sem að átvr veitir. Við getum alveg gert þetta svona hér líka.
Ég á kunningja úr litlu sveitarfélög (ég geri ráð fyrir að þú þekkir þeirra stöðu betur en ég af einhverjum ástæðum) sem benti mér einu sinni á að þar sem ekki væri ÁTVR þar sem hann byggi heldur bara kaupfélag, þyrfti hann að keyra langa leið til að kaupa vín með matnum, sem drægi svo enn meiri viðskipti að kaupfélagi stærra sveitarfélagsins og minnkaði kaupin hjá hans sveitarfélagi. Auðvitað væri hægt að leysa málið með því að ÁTVR væri skyldað til að reka allsstaðar útibú, en augljósari lausn blasir við finnst mér.
Ekki það, að ég sé mjög ákafur andstæðingur ÁTVR, ríkisreksturinn angrar mig í ekki í sjálfu sér, held að Píratar hafi betri hluti að gera en að berjast gegn því eða fyrir, en ég væri opinn fyrir ýmsum útfærslum líka. T.d. að sveitarfélög gætu ákveðið hvort þau leyfi matvöruverslunum að selja léttvín og bjór, eða hvor þau vilji reka búðina sjálf á vissum opnunartímum og þá gæti það jafnvel verið mikilvæg tekjulind fyrir sum sveitarfélög, sér í lagi þegar mikið er af túristum í þorpinu. En þetta er bara vangavelta, og ekki mikið ástríðumál.
Já, þetta er í raun ekkert ástríðu mál fyrir mér. Ég mynda samt vilja vita í hvaða sveitafélagi er kaupfélag en ekki ÁTVR. Oft í litlum sveitafélgum er kaupfélagið með samning fyrir ÁTVR og sér um reksturinn þar.
Ég myndi halda að ef ÁTVR yrði lagt niður myndi úrval minnka. Sérstaklega út á landi, þar sem kaupfélagið kaupir oftast inn það sem það kannast við og er ekki í miklri tilraunastarfsemi en ég gæti vel haft rangt fyrir mér.
Afsakið töfina við svarið, ég hef verið þreyttur nýlega.
Við ættum að geta sagt hvernig við ætluðum að lögleiða kannabis, því við yrðum spurðir þess. Að ætla ákveðið að selja kannabis í ÁTVR hefir nokkra kosti:
- ÁTVR er nú þegar til og nýtur nokkurs trausts af almenningi. Almenningur getur auðímyndað sér hvernig kerfið myndi virka, án þess að kvíða “taumlausri dreifingu” efnisins. Það mun auðvelda það að koma lögleiðingunni í gegn.
- Það er svipað því sem Kanada gerði yfirleitt (hvert fylki í Kanada stjórnar sínu eigið kerfi sjalft – þar er fjölbreytileiki). Við gætum bent á Kanada, bæði að því að það virðist hafa tekist vel þar og að því að við getum lært af kerfi sem er nú þegar til og sæmilegt. Heppilegt er að Kanada á svipaða sögu og Ísland og norðurlöndin varðandi áfengi.
- Það væri mögulega ódýrara og sveigjanlegra en hvað sum fylki í Kanada gera, sem er að reka (fáar) sérverslanir fyrir kannabis. Ódýrara því það þyrfti ekki að redda fleira húsnæði (og fljótara: tafir hafa orðið á Kanada að því tilliti að fáar kannabisbúðir eru til miðað við áfengisbúðir) – einkum í landsbyggðinni. Sveigjanlegra því það væri tiltölulega einfalt að bæta fleiri efnum við í ÁTVR í framtíðinni, yrði það æskilegt, án þess að redda fleira húsnæði o.s.fr. – og jafnvel draga sum til baka ef “mistök” yrðu. Auðvitað gæti ÁTVR kosið að selja kannabis í sérverslun, fyndist ÁTVR það hentugast.
- Í ÁTVR væri kannabis eins sýnilegt og áfengi, ekki hulið líkt tóbaki í búðum nú. Frá því að kannabis þykir fræðimönnum minna skaðandi en áfengi, væri æskilegt varðandi lýðheilsu (og kostnað heilbrigðiskerfisins) að auðvelda að fólk neyti kannabis í stað áfengis – og nokkur rannsókn bendir til þess að fólk geri þetta við tækifæri: https://harmreductionjournal.biomedcentral.com/articles/10.1186/s12954-019-0278-6
Varðandi heimaræktun, þar er fordæmi í Kanada hvar fólki er leyft að rækta (fjórar, minnir mig) kannabissplöntur heima hjá sér.
Varðandi afskekkt svæði án ÁTVR, ÁTVR rekur nú þegar vefverslun sem myndi líklega hæfa kannabisssendingum, eins og gerist á Kanaða að sögn Hans.
Þar sem ég er eru matvöruverslanir orðnar litlu sjaldgæfari en verslanir ÁTVR, svo það er spurning hvort það væri þá ekki hugmynd líka að gera eitthvað til að draga úr keðjumyndun og fákeppni á þeim markaði.
Hvað myndir þú leggja til í þeim málum?
Ég get ekki stutt þessa stefnu. Höfundur er með hjartað á réttum stað (afglæpavæðing, auka aðgengi) en of mörg boð og bönn. Stefnan þarf að vera einföld og lúta að hvar við ætlum að hætta að stjórna.
Mín tillaga er að leggja áherslu á að starfsemi sé haldið uppi til að veita tiltekna þjónustu, en ekki hagnaður rekstraraðilans einn og sér. Vandamálið er auðvitað að hellingur af öðrum atriðum í hagkerfinu, eins og t.d. kerfisbundinn þjófnaður bankanna með skilyrðislausum stuðningi ríkisvaldsins, gera mun erfiðara að halda því viðhorfi til streitu … en það er önnur umræða, sem við skulum halda héðan.
Tillagan var samþykkt í kosningakerfið í félagsfundi 2021-01-15 19:00. Hun verður til umræðu í kosningakerfinu fljótlega. Þar mun líka vera annar fundur til umræðu meðan hún er í kosningakerfinu. Samþykkt ályktunin var:
- Eingöngu ÁTVR má selja kannabis, ofskynjunarsveppi og tóbak. Eingöngu ÁTVR og veitinga- og skemmtistaðir mega selja áfengi með sterkleika yfir 2,25% að rúmmáli.
- Vímuefni verða seld með háum sköttum og gjöldum, til þess að letja neyslu og styrkja heilbrigðiskerfið sem verður fyrir afleiðingum notkunar þeirra.
- Ekki má selja börnum (þeim yngri en tvítugu) þessi efni.
- Allar umbúðir fyrir öll vímuefni í ÁTVR, þar með áfengi, skulu bera heilsuviðvaranir um efnið sem þær innihalda, líkt og er nú gert fyrir tóbak, að ráðgjöf sérfræðinga.
- Ríkið skal stjórna hve sterk efnin eru og verðum, innihaldi og formum þeirra, að ráðgjöf sérfræðinga, til þess að lágmarka skaða.
- Ekki má selja neinum fleiri en eina tegund vímuefna við afgreiðslu, sökum þess að hættulegt er að neyta tvö eða fleiri efni samtímis, og afleiðingar torfyrirsjáanlegar. Slík regla mun líka lágmarka neyslu, yfirleitt.
- Óheimilt er að auglýsa vímuefni sem og áhöld og hráefni sem ætluð eru til neyslu og framleiðslu þeirra. Óheimilt er í auglýsingum að hvetja til neyslu vímuefna.
- Ekki má neyta neitt vímuefni í ÁTVR. Ekki má reykja né losa efni í loft innandyra, nema heima.
- Einstaklingur má framleiða lítið magn hvers vímuefnis til eigin neyslu, sé ekki veruleg hætta á baneitrun eða öðrum skaða af því, að mati sérfræðinga.
- Starfsmenn í ÁTVR skulu fá menntun um efnin, til skaðaminnkunar.
Ég þakka öllum sem mættu fyrir fundinn!
Um afmarkaðan anga þessa máls eða aðkomu ÁTVR við að versla með kannabisefni og annað slíkt.
Möguleikarnir til að afgreiða og versla með kannabis, og annað álíka eru nokkrir; ÁTVR, apótek, sérverslanir (sjá Vape). Hér verður velt upp hvernig ég sé aðkomu ÁTVR.
ÁTVR hefur þekkingu til að vinna með ávana og fíkniefni það er að segja áfengi. Vinnan hjá þeim er þannig að ÁTVR setur upp ramma sem innflytjendur, framleiðendur þurfa að fara eftir. Þar er einkum atriði sem snerta gæði, afhendingaöryggi, innihaldslýsingar, eftirfylgni að reglugerð sé framfylgt osf. ÁTVR hefur einnig á að skipa fólki sem hefur menntað sig í fræðum er varða áfengi. Reglulega er starfsfólk á námskeiðum um vöruna og taka þeir sem hafa mestan áhuga alþjóðlega viðurkennt próf sem veitir viss réttindi innan greinarinnar.
Líklega þyrfti ÁTVR að ráða sérfræðinga svo sem lyfjafræðinga/lækna eða annað “hæft” fólk.
Ekki veit ég hvernig ÁTVR myndi taka á þessu en geri ráð fyrir, miðað við fyrri reynslu mína að það yrði unnið nokkuð fagmannlega að því hvað varðar fræðslu, samskipti við birgja, móttöku vöru, merkingar og gæðamál.
Rök gegn ÁTVR eru að mínu viti einkum:
Flækjustig: ÁTVR er eingöngu að selja áfengi í verslunum sínum, ekkert annað, (jú burðarpoka). Öll tóbakssala fer fram af lager ÁTVR ekki í gegnum verslanir. (Tóbak fór í gegnum verslanir áður).
Starfsmannakostnaður og slæmt þjónustustig:
það að hafa sérstaka starfsmenn í verslunum sem myndu eingöngu sinna afmörkuðum fáum vörum er óraunhæft. Þeir starfsmenn sem myndu hafa þekkinguna myndu þurfa að vera í öðrum störfum að meirihluta um 80-90%, móttaka vöru, áfyllingar áfengis, tiltekt og þrif, afgreiðsla á kassa, uppgjör ofl. Þar með er þjónusta þeirra nánast ekki virk þar sem þeir myndu oftast vera, á þeirri stundu sem þeir þyrftu að þjónusta viðskiptavin í flestum tilfellum í öðrum verkefnum. Að hafa lærðar mannsekjur eingöngu í sérverkefnum er nánast óframkvæmanlegt nema með miklum viðbótarkostnaði. Það að hafa “lærða” manneskju í öllum búðum er óraunhæft, vegna kostnaðar, það eru ekki full lærðir vínfræðingar í öllum búðum, (þeim hefur þó farið fjölgandi). Lausn á þessu gæti verið að selja þessi efni eingöngu á afmörkuðum tímum segjum frá 11-12. Myndi nokkur samþykkja það, viðskiptavinir, starfsfólk eða sérfræðingarnir?
Það þyrfti að ráða inn nokkra sérfræðinga inn á innkaupadeild ÁTVR og inn á vörumóttökudeild. Síðan má nefna að viðskiptavinir (flestir) vita kannski meira um efnin og virkni þeirra en nokkur “sérfræðingur”.
Að lokum það myndi verða nokkur sýnileiki við að versla þessi efni hjá ÁTVR, sérstaklega á minni stöðum og minni verslunum.
Viðbótarupplýsingar: vínbúðum er skipt niður eftir fjölda tegunda sem hver verslun má selja: verslanir sem selja allar vörur sem teknar eru inn eru eingöngu 4 verslanir, þær selja um eða yfir 1500 vöru og eru allar á höfuðborgarsvæðinu. Síðan eru verslanir sem selja mismikið af vörum allt niður í flokk K2 sem eru verslanir sem mega selja um 200 vörur þær eru flestar út á landi.
Niðurstaða:
Kostnaður af því að með höndla þessa vöru hjá ÁTVR yrði mjög hár. Þjónusta vegna hennar út í verslunum, ekki eins og best verður á kosið yfir í lélega þjónustu eða enga þjónustu/þekkingu.
Síðan má gera ráð fyrir að það að færa þetta efni til ÁTVR myndi leiða til þess að verið væri að festa ÁTVR í sessi sem ríkisverslun með ávanavöru.
Mér sýnist að apótek væri nærtækari lausn, meiri þekking nú þegar til staðar, vinnu og móttökukerfi til staðar, lengri og sveigjanlegri oppnunartími, minna áberandi kaup. Einnig kemur sterklega til greina sérverslanir; myndu þær bera sig?
Það er fleira sem hægt væri að ræða varðandi öll þessi atriði en ég læt þetta nægja.
Á Nýja-Skotlandi (fylki á Kanada þar sem býr tæp milljón manna) selur fyrirtækið sem samsvarar ÁTVR, Nova Scotia Liquor Corporation (NSLC), bæði áfengi og kannabis. Ég skoðaði vef þeirra, https://cannabis.mynslc.com/, og fann ekkert sem benti til þess að heilbrigðisstarfsfólk ynni þar (og hef ekki séð neitt annað frá Kanada sem bendir til þess). Vefurinn er samt áhugaverður!
Frá síðunni https://cannabis.mynslc.com/about/Articles/frequently-asked-questions :
Are employees trained properly so they know what they’re talking about?
Our employees have robust cannabis training that includes online, classroom and in-store sessions.
Do your employees offer any medical advice?
NSLC employees do not offer any medical advice.
Sem þýðir líklega ekki lyfjafræðslu. Á vefnum NSLC eru viðvaranir um að það sé ráðlegt að ekki blanda saman kannabisi og áfengi.
Ég er ekki endilega mót því að láta fagmenn vinna í ÁTVR. Ég segi bara að það virðist ekki þykja mikilvægt á Nýja-Skotlandi. Í fundinum um daginn var, að minnsta kosti í mínum huga, umræða um að starfsfólkið fengi nokkra fræðslu um öll vímuefnin til sölu til að geta svarað einföldum spurningum og komið í veg fyrir auðfyrirsénum skaða. Og þess vegna var þessum liði bætt við að starfsfólk fái menntun. Væri “fræðsla” betra orð en “menntun”?
Af því að sérfræðingum þykja kannabis og hugvíkkandi sveppir skaðaminni en áfengi, er ekki mér ljóst að það þyrfti meiri þekkingar til þess að selja kannabis og sveppi en að selja áfengi.
NSLC rekur eina sérverslun fyrir kannabis og 20 blandaðar verslanir. Sum fylki reka aðeins sérverslanir. Eins og ég sagði fyrir ofan, býst ég við að sérverslanir yrðu dýrari og minna sveigjanlegar, en að ÁTVR gæti kosið að reka nokkrar sérverslanir ef hún vildi.
Ágætis punktar, það er lagt upp úr þekkingu og upplýsingagjöf hjá ÁTVR, sem mér finnst að eigi að stefna að og finnst að það sé nauðsyn og jafnel forsenda. En það er hægt að leysa það öruglega á margan hátt.
En spurningin hjá mér er af hverju ekki í apótekum frekar en ÁTVR. Móttökukerfi til staðar, starfsfólk með þekkingu nú þegar, minni sýnileiki við kaup (fyrir þá sem það skiptir máli á minni stöðum eða hverfum), lengri opnunartími, fleiri verslanir, meiri samkeppni, meiri sveigjanleiki, (skammtastærð, ofl).
Að apótekum:
Það virðist að fylki á Kanada hafa valið að nota aðrar aðferðir, fyrir einhverjar sakir. Kannabissverslanir í einkaeigu í sumum fylkjum, kannabissverslanir í fylkiseigu í öðrum og kannabiss- og áfengisverslanir í fylkiseigu í hinum – þó ég hafi ekki, að vísu, kannað vandlega aðstæður í öllum fylkjum á Kanada.
Og fyrir einhverjar sakir var áfengi látið vera selt í ÁVR (svo ÁTVR) heldur en í apótekum, á Íslandi.
Ég veit ekki afar mikið um apótek – ég nota þau ekki oft – svo eitthvað eftirfarandi gæti verið vitlaust hjá mér:
Sum/öll?? apótek á Íslandi eru í einkaeigu. Það gæti leitt til þess að þau vildu selja meira og meira kannabis til hagnaðar. Andstaða okkar gæti notað slíkan hræðsluáróður um “taumlausa dreifingu” gegn okkur. Áróðurinn gæti verið þannig: “Myndu sum apótek breytast alveg í vímuefnabúðir?” “Myndu sumir stofna ný apótek bara til þess að selja kannabis og ekki selja margt annað en kannabis?” Fleiri verslanir og meiri samkeppni líklega versnar áróður: “Hass mun vera út um allt!”
Apótek eru fyrir lyf, til að bæta heilsu, ekki til skemmtunar. Það gæti litið út sem misnotkun á apótekum að láta vímuefni vera seld í þeim.
Gott væri ef fólk sem ætlaði að drekka áfengi og færi í ÁTVR sæi kannabis þar og ákvæði að fá sér kannabis í stað áfengis, því áfengi er skaðlegri en kannabis.
Það eru samkvæmt lyfjastofnun 80 apótek á Íslandi.
Það gerir hvað 4.500 manns á hvert apótek hérna á Íslandi. Ég fyrir mitt litla líf get ekki séð hvernig þau reki sig á því án þess að þau eru mikið styrkt af íslenska ríkinu ( lyfjaverð sem borgað er í gegnum sjúkratryggingar Íslands ).
Þau mundu líklegast alveg þiggja það að selja líka kannabisefni og ofskynjunarefni.
Er ekkert sérstaklega á því að það sé sniðugt.