Varðandi tillögur um breytingar á starfinu í kosningakerfinu

OK, allar tillögurnar nema um breytingar á stjórn félagsins féllu, þar sem þær náðu ekki 66.6% atkvæða.

Mér finnst samt mikilvægt að halda til haga að tvær tillögur sem náðu ekki auknum meirihluta voru samt með yfir 50% atkvæða.

Mér finnst því eðlilegt að það verði kannað hvort sátt geti myndast um einhverja breytta útgáfu af þeim tillögum.

Nema við séum á því að óbreytt ástand sé best. En mér finnst það ósennilegt.

1 Like

Mér skilst að Alfa sé með aðra breytingartillögu á stjórnarfyrirkomulagi Pírata, væri ekki ráð að sú tillaga verði þá rædd núna? @alfa

2 Likes

Já, það verður að gera eitthvað í því að efla starf Pírata á landsbyggðinni, en miðstýringin á síðustu árum hefur haldið starfi utan höfuðborgarsvæðis í hnappheldu.
Kannski má setja ákvæði um að stuðla skuli sérstaklega að valddreifingu og hag allra landshluta við fjárveitingar innan Pírata, auk þess að nýta reiknireglu. Þannig yfði ekki föst prósenta nefnd en ekki heldur að fjárveitingarvaldið hafi geðþótta í úthlutun.

Það er greinilegt að hinar úrbæturnar þarfnast meiri vinnu. Í hreyfingu með spilanördum og forriturum innan borðs ætti ekki að vera ómögulegt að leggja í slíka vinnu.

1 Like

Ég á erfitt með að sjá fyrir mér grundvöll fyrir grasrótarstarfi á landsbyggðinni eftir þetta. Bæði vantar fjárhagslegan grundvöll fyrst hvorug fjármálatillagan náði í gegn en svo er einnig búið að taka fram fyrir hendurnar á kjördæmisfélögunum með miðlægri kosningastefnuskrárgerð. Miðað við þann þröskuld sem þarf til að breyta lögum og hve lítill áhugi virðist vera á úrbótum á þessu sviði er þetta líklega fullreynt, því miður.

Það virðist vera ákveðinn defeat-ismi í þessu, sem mér finnst umfram tilefni, þótt ég skilji tilfinninguna mætavel (trúðu mér).

Mér finnst aðallega skrýtið að Fjármál 1 hafi ekki náð í gegn, en þá þarf bara að fara yfir misjöfn sjónarmið gagnvart henni og reyna að slípa hana til. Getur verið að hún hafi fallið vegna samkeppninnar við Fjármál 2? Og þá stendur eftir, er Fjármál 1 betri en núverandi ástand, þar sem Fjármál 2 nýtur greinilega mjög lítils stuðnings (og fékk reyndar aukinn meirihluta gegn sér)? Hvað segja kjósendur sem greiddu atkvæði gegn Fjármál 1 en með Fjármál 2? Það væri forvitnilegt að heyra það.

Hvað varðar að tekið hafi verið fram fyrir hendurnar á kjördæmisfélögunum, þá skil ég satt best að segja ekki alveg hvernig það er lesið úr samþykktinni, né hver hefur stungið upp á því eða fært rök fyrir slíku. Að kveðið sé á um að eitthvað batterí búi til kosningastefnuskrá út frá þegar lýðræðislega samþykktri stefnu félagsins, sem í þokkabót er sjálf lýðræðislega staðfest, er eins valddreift og það getur orðið, eftir því sem ég fæ best séð.

En túlkun þín finnst mér svolítið hljóma eins og bann við því að aðildarfélög búi til sínar eigin skrár með sínum eigin áherslum. Nú tók ég þokkalegan þátt í hluta af starfinu sem tillögurnar eru komnar úr og ég hef aldrei heyrt neinn stinga upp á neinu í líkingu við það að taka af kjördæmafélögunum eða aðildarfélögum nokkurn rétt að neinu tagi; enda skil ég reyndar ekkert í því hvernig móðurfélagið yfirhöfuð gæti það, jafnvel ef ég læsi það úr textanum, sem ég geri ekki. Þannig að þetta tel ég vera óþarfa áhyggjur og ekki eitthvað sem ætti að lesa úr textanum.

2 Likes

Mér finnst svo sem engin skömm í því að játa ósigur og tilefnið er talsvert, hafandi barist fyrir breytingum sem ég tel nauðsynlegar (og reyndar vísað í gögn því til stuðnings) í að verða sjö ár og bundið talsverðar vonir við að þetta væri nú væru loks mikilvæg skref að hafast. Vonbrigði mín eru því töluverð.

Það er vissulega umhugsunarefni hvað Fjármál 2 naut lítils stuðnings miðað við hve lítill munur var í raun á tillögunum.

Það er frekar augljóst að nýja samþykktin færir vald yfir kosningastefnuskrá frá kjördæmum og í miðlæga nefnd. Það bókstaflega stendur þarna.

1 Like

Það er ekki það sem ég las úr tillögunni, eða það sem var að heyra á nokkrum þeirra sem töluðu fyrir henni.

Mér finnst allavega óþarfi að gefa sér að það verði að vera þannig ef það er ekki sá skilningur sem höfundar hennar lögðu upp með.

1 Like

Það skiptir litlu hvað höfundar lögðu upp með ef textinn gefur svigrúm til slæmrar túlkunar. Það veist þú jafn vel og ég. Auk þess þá hef ég heyrt nógu mörg okkar lýsa þeirri skoðun að kosningastefnuskrá skuli vera samræmd fyrir allt landið að ég tel engar líkur á að breytingar á því ákvæði næðu í gegn.

1 Like

Tveir hérna sjá þetta hvergi í textanum þannig að það er nú allavega ekki augljósara en það.

Ertu til í að copy-paste-a textann hingað beint inn sem þú átt við, þannig að við séum öll á sömu síðu?

Ég sem hélt við værum rétt að ná tökum á tveggja ára setu í framkvæmdarráð og kosningar á næsta ári.
En jæja. Við verðum víst að reyna að láta þetta ganga.
Persónulega tel ég þetta muni verða algert rugl með mörgum litlum þriggja manna ráðum. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.
Sjáum hvort ég segi “I told you so” eftir svona 1-2 ár.

1 Like

Alveg sjálfsagt:

7.2.4 Í aðdraganda alþingiskosninga skal stefnu- og málefnanefnd útbúa kosningastefnuskrá sem byggir á samþykktri stefnu flokksins að höfðu samráði við frambjóðendur. Kosningastefnuskrá skal samþykkt með atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi flokksins.

Miðstýring og ábyrgð er ekki sami hluturinn. Þarna eru “frambjóðendur” líka í lykilhlutverki og þeir koma úr öllum kjördæmum sem boðið er fram í.

1 Like

My 2 cents of stórar tillögur til að verað samþykktar. Betra að skipta þessu upp í eins litlar einingar og setja inn yfir lengri tíma. Fólki fallast hendur við að lesa langlokur eins og þarna voru. Ég skil vel að sumt af þessu er beintengt engu að síður hefði vel mátt taka þetta í minni einingum.

Takk. Ég las nefnilega sama textann og fannst þú varla geta verið að meina hann, vegna þess að þarna er ekki einn bókstafur sem tekur nokkurs konar ákvörðunar- eða framkvæmdavald af neinum öðrum félögum, og varðar reyndar ekki starfsemi aðildarfélaga yfirhöfuð. Það er bara talað um að gerð skuli kosningastefnuskrá, byggða á samþykktri stefnu.

Það er augljóst að það þarf að gera þetta eins og reynslan sýnir úr kosningum, og mikilvægt að það sé skilgreint í lögum hver beri ábyrgð á því að þetta sé gert. Það var gagnrýnt í tveimur síðustu alþingiskosningum að kosningastefnuskrá tæki ekki nógu mikið mið af samþykktri stefnu og væri ekki útbúin á nógu lýðræðislegan hátt. Þarna er hvort tveggja lagað og þó fyrr hefði verið.

Mér finnst satt best að segja stórfurðulegt að þetta sé ásteitingssteinn.

@hrafnkellbrimar: Og bara ef það er ekki alveg skýrt, þá er enginn hérna að færa rök fyrir því að það ætti að svipta aðildarfélögin neinum rétti til að setja sér kosningaskrár eða svæðisbundnar kosningaáherslur. Málstaður þinn er réttur, en þig vantar andstæðingana. Það er enginn ósammála þér um þetta. Þess vegna skil ég ekki alveg hvað við höfum efnislega að rökræða, heldur sýnist mér þetta snúast kannski meira um einhvers konar undirliggjandi tortryggni heldur en orðanna hljóðan eða skoðanaágreining. Ef svo er, þá er það kannski verðugt sjálfstætt umræðuefni, en ég fæ hvorki séð þína túlkun úr þessum texta, né hef ég heyrt neinn færa rök fyrir því að það sem túlkun þín feli í sér, sé góð hugmynd, enda væri hún mjög slæm ef hún væri þarna. En hún er ekki þarna.

Skil hérna eftir smá glósu fyrir umræðuna. Hrafnkell og ég heyrðumst í síma og spjölluðum aðeins um þetta og vera má að það sé hægt að búa til breytingu sem myndi uppfylla bæði markmið lagatextans en byrgja fyrir áhyggjur Hrafnkels. Þetta er bara hugmynd enn sem komið er.

Textinn er í dag: „Í aðdraganda alþingiskosninga skal stefnu- og málefnanefnd útbúa kosningastefnuskrá sem byggir á samþykktri stefnu flokksins að höfðu samráði við frambjóðendur. Kosningastefnuskrá skal samþykkt með atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi flokksins.“

Pæling: Snúa við hlutverkum stefnu- og málefnanefndar og frambjóðenda, þannig að frambjóðendur (úr hverju kjördæmi) setji hana, að höfðu samráði við stefnu- og málefnanefnd, en ekki öfugt. Þannig réðu sjónarmið kjördæmanna ferðinni, eins og er eðlilegt í kjördæmaskiptum kosningum, en stefnu- og málefnanefnd væri til samráðs og aðstoðar til að vinna upp úr samþykktum stefnumálum og þess háttar.

Bara hugmynd byggð á spjalli enn sem komið er, en kannski eitthvað sem má leika sér með í von um að úr verði lending.

2 Likes

Sæl,

Varðandi réttinn til að ákveða kosningastefnuskrá. @hrafnkellbrimar og @helgihg

Í tillögugerðinni eins og ég kom að henni þá var stefnt að því að gera engar breytingar á núverandi valdheimildum framkvæmdaráðs þegar þær færu yfir í hin nýju ráð og nefndir, heldur að núverandi fyrirkomulag héldist óbreytt. Við höfðum þó orðið var við það að grein 13.2 eins og hún er orðuð núna, væri öðruvísi framkvæmd í praxís. Við reyndum því að breyta henni til samræmis við það hvernig gerð kosnignastefnuskrár er raunverulega háttað, þ.e. að hún fari að mestu leyti fram á forræði frambjóðenda.

Grein 13.2 sem fellur brott var svohljóðandi:
13.2. Framkvæmdaráð annast samræmingu kosningabaráttu á landsvísu í samráði við aðildarfélögin. Framkvæmdaráð er heimilt að útbúa kosningastefnuskrá fyrir Alþingiskosningar út frá samþykktri stefnu.

Nýja greinin er svohljóðandi:
7.2.4 Í aðdraganda alþingiskosninga skal stefnu- og málefnanefnd útbúa kosningastefnuskrá sem byggir á samþykktri stefnu flokksins að höfðu samráði við frambjóðendur. Kosningastefnuskrá skal samþykkt með atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi flokksins.

Ef það er uppi óánægja með þetta ákvæði eins og það var samþykkt er sjálfsagt að laga það og mér líst vel á tillöguna hans Helga. Það hefði verið óskandi að fá fleiri hendur að því að vinna þessar skipulagsbreytingartillögur til að varna svona uppákomum, en undir lokin voru mjög fáir sem drógu vagninn í því. Það hefði eflaust verið betra að frá meiri og ítarlegri yfirlestur, en það er þá gott að við getum unnið hér áfram að úrbótum.

@AlbertSvan
Svo vona ég að ný tillaga um fjárútlát til aðildarfélaga verði samþykkt. Með nýjum 7. kafla mun taka til starfa nýtt fjármálaráð sem á að sjá um slíkar fjárveitingar til kjördæmabundinna aðildarfélaga og því nauðsynlegt að setja í lög félagsins með hvaða hætti sú úthlutun eigi að fara fram.

@indridistefans
Við reyndum að skipta tillögunum upp eins mikið og hægt var. Það voru margar tillögur sem komust aldrei alla leið í kosningakerfið og svo var þessum helstu skipt upp eins og hægt var - þ.e. ein um formann, ein um framkvæmdaráð og svo (tvær) um fjármál aðildarfélaga. Það að leggja niður framkvæmdaráð er flókin framkvæmd og engin góð leið til að gera það án þess að skrifa heilan nýjan kafla um hvað komi í staðinn. Að sama skapi þurfti líka að laga allar aðrar vísanir í framkvæmdaráð í lögunum, sem gerir þetta að langlokunni sem um ræðir. En þetta eru niðurstöðurnar úr mjög löngu skipulagsbreytingaferli sem hefur fengið mjög vítt samráð, og fólk hefur haft mikla og ríka möguleika til að koma að. Þannig að ég held að þetta sé það besta mögulega leiðin til að breyta þessu skipulagi fyrst það er vilji flokksfólks.

@BjornThor
Mögulega á þetta eftir að klikka svakalega, kannski ekki. Vonandi ekki. Ef þú færð að segja “I told you so” eftir 1-2 ár mun ég vera fyrstur til að segja sorrí. En allir sem að þessu komu voru að gera sitt besta og í enda dags vildi félagsfólk þessar breytingar. Ég vona bara að við séum tilbúin til að halda áfram að bæta skipulagið og efla Pírata sem hreyfingu. Ég skal líka segja það að ég hef verið mjög ánægður með störf núverandi framkvæmdaráðs og vona innilega að sem flestir í því hafi hug á að bjóða sig fram í nýju ráðin.

2 Likes

Ég hefði samt talið betra að dreifa þessu þá meira í tíma, en ég gæti haft rangt fyrir mér.

Vildi bara láta vita á þessum þræði líka að við @hrafnkellbrimar unnum saman að breytingartillögu á ákvæðinu um kosningastefnuskrá, sem við vonum að rúmi öll sjónarmiðin sem hafa verið sett fram um það. Endilega kíkið yfir og gefið álit!

https://spjall.piratar.is/t/tillaga-ad-lagabreytingu-gerd-kosningastefnuskrar-adkoma-kjordaema/402

1 Like